04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

12. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur mjög misskilið bæði það, sem ég sagði, og frv. Það stendur þar alls ekki og hefur ekki verið ætlun neins manns, að þetta veitingamannafélag ætti að veita leyfin. Það er einungis sett til þess að kveða á um, hvort eitt af skilyrðunum fyrir leyfisveitingu sé fyrir hendi, og það er sjálfsagt byggt á því, að þessi aðili er valinn, að honum er treyst til hlutlauss dóms um flokkun veitingahúsanna, og það er ekkert annað, sem þessi aðill á að segja til um. Ef menn geta fundið betri aðferð til ákvörðunar því, í hvaða flokk setja eigi veitingahús, þá hef ég síður en svo á móti því. Ég tel það eðlilegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir þessu með ýmsu móti. Það kom t.d. fram í hv. Ed. till. um, að það væru heilbrigðisnefndir, sem ættu að kveða á um þetta, en ekki þetta samband. Það varð nú ofan á að halda ákvæði frv. um það, en það getur vel verið, að einhver enn annar aðili eða þessir aðilar í sameiningu ásamt ef til vill einhverjum fleirum geti þarna komið allt eins til mála. En vitanlega hefur engum dottið í hug að fela þessum aðila úrskurðarvaldið að lokum um það, hverjum ætti að veita leyfin. Þarna er einungis um að ræða takmörkun á valdi dómsmrn. Dómsmrn. getur ekki veitt þeim leyfi samkv. frv., sem þetta samband telur að reki 2. flokks veitingahús. Og það er ómögulegt að neita því, að sú ákvörðun er veruleg skerðing á valdi rn. Ég tel eðlilegt, að einmitt slík skerðing eigi sér stað, til þess að það séu minni líkur en ella fyrir því, að það verði alveg af handahófi, hvaða staðir fá þetta, og það er enginn vafi á því, að þetta fyrirmæli leiðir til þess, að miklu færri staðir geta fengið leyfið en ella. Þess vegna fer ekki hjá því, að ummæli hv. þm. varðandi þetta hylldu á algerum misskilningi um eðli ákvæðisins. Hitt er rétt, sem hann sagði, að rn. er ekki bundið við umsögn bæjarstjórnar og áfengisvarnanefndar. Það mætti vel hugsa sér t.d. að binda rn. í þessu við samþykki bæjarstjórnar. Ég mundi ekkert hafa á móti því, ef það væri sett inn. Ég hef enga löngun til þess, að dómsmrn. fái í þessu nein óeðlileg áhrif eða mikil áhrif. Það eina, sem ég hef löngun til og vil elndregið vinna að, er, að á meðan hér er veitt vín í landinu, og það er ekki um það að ræða af neinna hálfu að bera á þessu stigi fram tillögur um bann, — það er mál fyrir sig, sem ég skal ekkert ræða um hér, — en á meðan vín er veitt í landinu, þá séu þær reglur settar af hálfu löggjafans um það efni, sem einhver möguleiki sé til fyrir lögregluna í landinu að framfylgja. Það verður að vera einhver möguleiki til þess að framfylgja reglunum. Ég tel, að það megi ákaflega deila um það, hvernig þær reglur eigi að vera, og eðlilegt, að sitt sýnist hverjum. Við vitum það, að þetta er mikið deilumál, og koma þar mörg sjónarmið til álita. En því fer hins vegar fjarri, að það tjái að setja um þetta slík fyrirmæli sem geta ef til vill litið vel út á pappír, en allur almenningur virðir gersamlega að vettugi.

Hv. þm. taldi, að það væri lítil bót að því að dreifa veitingunum á fleiri staði, þannig að minna bæri á þeim leiðindum, sem væru í sambandi við vínveitingar. Hann játaði þó, að þessi dreifing yrði til þess, að minna bæri á leiðindunum. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? (PO: Ég sagði: Þau margfaldast með tölu þeirra staða, sem þeir verða fleiri en áður.) Hvað hefur hv. þm. sótt dansleiki hér undanfarið, og hvaða fregnir hefur hann af þeim, bæði hér í bænum og á Akranesi? Eftir að hann er búinn að kynna sér nokkuð hátterni manna á þeim samkomum, væri hann hæfari til þess að tala um það en nú, og met ég þó þennan þm. allra manna mest. En það er bezt, að menn tali um það, sem þeir hafa nokkra þekkingu á.

Við sjáum af þeim orðaskiptum, sem hér eru, að það eru mjög ólíkar skoðanir í þessum efnum og þetta eru veruleg vandamál, sem hér eru okkur á höndum, og ég tel langeðlilegast, að frv. verði vísað til nefndar, eftir að umræður hér hafa komið fram, og menn brjóti þá heilann um það, hverjar aðrar takmarkanir og reglur þeir vilja setja, ef þeim lízt ekki á þær reglur, sem að mjög vel athuguðu máll voru settar um þetta í þessari gr. frv.