29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

74. mál, tékkar

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég get látið mér nægja um þetta frv. að vísa til þess, sem ég áðan sagði um frv. okkar hv. þm. Ak. um breyting á lögum um víxla. Hér er um alveg hliðstæða breytingu að ræða á lögum um tékka. Í þeim er nú bundið um tékka, sem lenda í vanskilum, að það er ekki hægt að krefja um meira en 6% vexti af þeim. Nú liggur það raunar í augum uppi, að það er því meiri ástæða til þess með tékka en jafnvel víxla, að það sé fylgt ströngustu reglum varðandi vanskil, að menn geti ekki komizt undan því að borga a.m.k. eðlilega vexti, því að fyrir viðskiptalífið í landinu er það vitanlega mjög mikils virði, að ekki komi til þess, að vanskil verði með tékka: Því miður er það svo, og það er allmikið alvörumál, að það mun færast mjög í vöxt, að út séu gefnir tékkar, án þess að innstæður séu fyrir. Þetta atriði er þess eðlis, að raunverulega væri ástæða til að taka það til athugunar að setja um það þyngri viðurlög en nú eru í lögum, því að það vitanlega skapar mjög mikið öryggisleysi, ef fólk almennt missir trú á tékkum sem greiðslumáta, og því mikils um vert, að það sé tryggt á hverjum tíma, að menn misnoti ekki þetta greiðslufyrirkomulag.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er sem sagt um það eitt að ræða, að heimilt verði á hverjum tíma að taka af tékkum í vanskilum fulla víxilvexti.

Ég mun ekki orðlengja frekar um þetta, en vil leggja til að lokinni þessari umr., að frv. verði visað til 2. umr. og hv. fjhn.