16.11.1953
Efri deild: 21. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka. hv. landbn. fyrir það, að hún mælir með brtt. okkar hv. 1. þm. N–M. á þskj. 136. Aftur á móti vill hún ekki mæla með þeirri till., sem ég flyt einn á þskj. 137, um að heimila að selja jörðina Ytri-Bægisá í í Glæsibæjarhreppi ábúandanum, frú Jóhönnu Gunnarsdóttur. Ég verð að sætta mig við þetta, og atkv. verða að ganga um þetta hér í hv. d., annaðhvort nú eða við 3. umr.

En ofur lítið hef ég að athuga við það, sem hv. frsm. landbn. sagði. Hann tók það fram, að það stæði allt öðruvísi á með Ytri-Bægisá heldur en Grísará, því að það væru sæmileg hús á Ytri Bægisá. Það er nú rétt, að það er sæmilegt íbúðarhús þar, sem ég veit ekki betur en að ábúandinn eigi. Séra Theódór Jónsson byggði það hús, eða þau hús, réttara sagt, og mun hafa átt þau, ekkjan á þau auðvitað nú eða hans dánarbú. En útihús eru, held ég, mjög lítils virði og varla að hægt sé að segja, að þar séu nokkur útihús til. Hv. frsm. sagði, að prestsekkjan hefði lífstíðarábúð og þess vegna Væri tryggt, að hún fengi að vera þarna til æviloka. Það kann nú að vera, að byggingarbréf hennar segi þetta, en það er nú ekki alveg víst, að hún eigi þann kost samt að vera til æviloka. Kona á níræðisaldri getur ekki verið ein á jörð og nytjað hana, og jafnvel ekki heldur, þótt hún hafi dóttur sína hjá sér, sem ekki er nema annað slagið. Og ég býst við, a.m.k. lítur frúin svo á sjálf, að það að fá umráð yfir jörðinni sé skilyrði þess, að hún geti verið þarna kyrr. M.ö.o.: Með því eina móti getur hún ráðstafað jörðinni á þann hátt, að hún geti dvalið þar. Það býst ég við að allir hv. þm. hér í d. geti skilið, að svo getur staðið á.

Þá sagði hv. frsm., að það væri enginn til að taka við, þegar prestsekkjan félli frá. Ja, hún á tvær dætur. Önnur þeirra er gift ágætum manni, — manni, sem hefur allt sitt líf fengizt við búskap og er hinn mesti ráðdeildarmaður og búmaður. Það get ég fullyrt, því að ég þekki þann mann mætavel. Það má kannske segja, að ekki séu líkur til þess, að þau hjón eignist afkomanda, en það kemur stundum fyrir, að hjón taka kjörbörn, og þau njóta sama réttar og eigin börn. Þess vegna getur hv. frsm. ekkert um það fullyrt, nema það verði til viðtakendur jarðarinnar. Hvað er hægt að fullyrða um það um ung hjón, til dæmis, hvort þau muni eignast barn eða ekki, og þó mundi ekki vera haft á móti því, að þau fengju jörð til að gera hana að ættaróðali. Svo er yngri dóttir þessarar öldruðu prestsekkju. Hún er ógift, og hún er ekki komin á þann aldur, að það sé með öllu útilokað, að hún geti eignazt afkomendur, svo að ég held, að þetta sé staðhæfing út í loftið bara, En hv. þm. verða að gera það upp við sig, og skal ég ekki fara fleiri orðum um þetta, hvort þeir vilja meta óskir þessarar gömlu konu um að fá fulla tryggingu fyrir að geta borið þarna beinin og dvalið þar til æviloka eða hvort þeir ekki vilja sinna því. Mér skildist á hv. frsm., að hann fyrir hönd n. legði til, að þessi till. væri felld. Er það ekki rétt? (PZ: Jú.) Úr því að svo er, þá sé ég ekki ástæðu til þess að taka hana aftur til 3. umr. Ég sé ekki annað en þá geti gengið atkv. um hana nú, því að n. mun að því leyti líkjast drottni, að hún sér sig væntanlega ekki um hönd.