17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. n. óskaði eftir því, að umr. um þetta mál yrði frestað. Mér finnst eðlilegt, að slík ósk sé tekin til greina. Mér þykir þá einnig eðlilegt, að ég mæli hér nokkur orð fyrir till. minni á þskj. 171, áður en umr. er frestað.

Till. mín á þskj. 171 er þess efnis að afla heimilda fyrir ríkisstj. til þess að selja jörðina Miðhús í Gufudalshreppi í Austur-Barðastrandarsýslu Samúel Zakaríassyni í Djúpadal, er nú nytjar jörðina. Að ég hef stílað þessa till. á eftir 2. tölul. í 1. gr. stafar beinlínis af því, að ég tel, að það sé ekki hægt að setja það skilyrði fyrir sölunni að gera þessa jörð að ættaróðali, eins og hv. frsm. einnig kom nokkuð að. Og það er einmitt af þeirri ástæðu, að ég hef ekki flutt þessa brtt. sem viðbót við brtt. mína á þskj. 157 eða gert eina brtt. úr báðum till. — Ef hv. n. kæmist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unnt að gera þetta að sérstöku býli, og ég hygg, að hv. frsm. sé ekki langt frá þeirri hugsun að viðurkenna það, þá á að sjálfsögðu till. heima í 1. gr. á eftir 2. tölulið og á því að berast upp þannig. Hins vegar hefur n. lýst því yfir, að hún muni ekki vilja mæla með því, að jörðin Moshlíð verði seld án skilyrða, og verði það niðurstaðan, að sú jörð verði aðeins seld með því skilyrði að gera hana að ættaróðali, þá á hún að sjálfsögðu að berast upp og bætast við síðasta málslið 1. gr. Það er því ekki hægt að sameina till. og því rétt, að þær séu bornar upp hvor í sínu lagi, eins og ég einnig hef gert ráð fyrir. Ég sé því enga ástæðu til þess að fresta málinu til þess að geta borið upp till. á þskj. 171, nema síður sé. Hins vegar getur verið ástæða til þess að fresta málinu, ef hv. n. vill sjálf gera brtt. við mína brtt. á þskj. 157, og þykir mér rétt, að sú meðferð verði höfð á málinu.

Ég vil svo að síðustu í sambandi við till. mína á þskj. 171 upplýsa, að þessi jörð er, eins og hv. frsm. gat um, svo lítil að landi, að ógerlegt er að hafa þar sjálfstæðan búskap, nema eitthvað annað eða meira komi til. Jörðin er núna leigð manni, sem er í húsmennsku í Djúpadal, og Djúpadalsjörðin er nytjuð þannig, að þar situr oddviti hreppsins og býr á nokkrum hluta jarðarinnar, en tveir húsmenn, sem þar eru, Samúel Zakaríasson og Gísli Gíslason, búa einnig á jörðinni og á Miðhúsum. Hefur Samúel fengið Miðhús leigð, og án þess, að þetta fylgdi Djúpadalnum, þyldi sú jörð ekki þann búskap, sem þar er rekinn. Ég tel því, að það sé heppilegast að selja þessa jörð frjálsri sölu, svo að viðkomandi aðilar þurfi ekki að raska þeim búskaparháttum, sem þeir hafa þarna á Djúpadal, og eigi það ekki á hættu, að öðrum sé seld jörðin, og þar með fyrirmunað að halda áfram sínum búskap. Læt ég svo þetta nægja í sambandi við till.

En úr því að ég hóf hér máls, þykir mér rétt að minnast nokkuð á einstök atriði, sem hv. frsm. n. (PZ) sagði hér við síðustu umr. Ég hafði þá talað tvisvar og hafði ekki leyfi til þess að svara við þá umr., en mun nú nota tíma minn hér til þess að svara nokkrum af þeim atriðum, sem hann gat þá um í sambandi við sölu þjóðjarða almennt. Hann gat þess, að það væri til bölvunar fyrir þjóðina að skrúfa upp verð á jörðum, og taldi, að þetta fyrirkomulag, að banna sölu þjóðjarða nema að setja það skilyrði, að þær væru um leið gerðar að ættaróðulum, kæmi alveg í veg fyrir verðhækkun, — verðhækkun, sem á sér stað, oft og tíðum fyrir aðgerðir hins opinbera, eins og hv. þm. tók réttilega fram. Til sönnunar sínu máli benti hann á, að nú mundi engum manni detta í hug að selja lóðir í Reykjavík, nú væru þær eingöngu leigðar, og kom svo með ýmis önnur dæmi, svo sem um verðhækkun á Hofsós og Þórshöfn og víðar.

Ég vil út af þessum ummælum benda hv. alþm. á, að það fyrirkomulag, sem nú er haft á sölu þjóðjarða, fyrirbyggir á engan hátt, að slíkt komi fyrir eins og hér er á minnzt af hv. 1. þm. N–M., og skal aðeins taka hér nokkur dæmi máli mínu til sönnunar.

Ég veit ekki betur en að jörð sú, sem þorpið Skagaströnd stendur á, sé í dag og hafi lengi verið ríkiseign, það hafi verið byggt ákveðnum aðila til lífstíðar og ekki selt. En þegar átti að fara að taka þessar lóðir til þess að nýta þær fyrir ríkið sjálft, þar sem það var að byggja á Skagaströnd, þá varð ríkið að kaupa sín eigin lönd fyrir okurverð, alveg eins og íbúarnir á Hofsós hafa orðið í dag að kaupa lóðirnar á Hofsós fyrir okurverð af jarðeiganda. Það er bara sá munurinn hér á, að íbúarnir á Hofsósi urðu að kaupa þetta af öðrum eiganda, en ríkissjóður varð að kaupa sínar eigin eignir með okurverði, og það kemur einfaldlega til af því, að umráðarétturinn er um ótakmarkaðan tíma, eða a.m.k. mjög langan tíma, í höndum annars aðila, sem ekki á landið, og ekki hægt að taka af honum þennan umráðarétt nema borga fyrir það eins mikið fé eins og verið væri að selja sjálft landið. Þetta veit hv. þm. um.

Við vitum einnig um, að ríkissjóður á allar lóðir í Vestmannaeyjum og á Siglufirði. En það vita líka jafnframt allir, að allar þær eignir, sem standa á þessum lóðum, eru seldar við mjög mismunandi verði eftir því, hvar þær standa á þessum löndum. Þegar aðstaðan hefur batnað fyrir aðgerðir þess opinbera í sambandi við vegi, hafnir og fleiri mannvirki, þá hefur verið boðið miklu meira í leigu eða í kaup á þeim eignum, sem standa nálægt þeim stöðum, þar sem framkvæmdirnar hafa orðið, og sú verðhækkun kemur engan veginn til góða fyrir landeiganda, hvorki í einu né öðru þorpi. Það nákvæmlega sama gildir um lóðir í Hafnarfirði, sem allar eru í eigu bæjarins. Þó að ekki sé tekið nú í leigu í Hafnarfirði nema 10 aurar af hverjum fermetra af lóð, hvar sem hún stendur í bænum, þá er það vitanlegt, að þegar húseigandi selur eign á lóð í Hafnarfirði, sem stendur við athafnasvæði eða aðalgötur, þá fær hann margfalt meira verð fyrir þessa eign, bara vegna þess að hún stendur á þessari lóð, og lóðareigandi hefur engan ágóða fyrir verðhækkunina.

Auk þess er um allt annað að ræða hér í sambandi við ríkisjarðirnar eða um lóðir almennt. Lóðir, hvort heldur er um að ræða í Reykjavík eða annars staðar, eru leigðar, og allt það, sem gert er á lóðinni, er gert á kostnað þess aðila, sem hefur lóðina á leigu, og hann getur notið verðhækkunar á þeim mannvirkjum, ef hann hefur tryggt sér lóðarréttindi, svo að ekki þurfi að fara með eignirnar burt innan ákveðins tíma.

En í sambandi við jarðirnar er allt öðru máli að gegna. Þar er ekki einungis landið leigt, heldur eru einnig mannvirkin leigð, húsin, jarðabæturnar, girðingar o.fl., o.fl., ef það er í eign eða að svo miklu leyti sem það er í eign ríkissjóðs. Og vegna þess að ríkissjóður hefur brugðizt skyldu sinni um það að byggja upp á þessum jörðum, þá hefur ekki heldur verið hægt að leigja að fullu mannvirkin, vegna þess að ríkissjóður hefur ekki átt nema brot af þeim, og allt er það svo mikill hrærigrautur í sambandi við þessi mál, að það sætir undrum, að Alþ. skuli ekki fyrir löngu hafa sett um þetta aðra og hollari löggjöf. Og það er einmitt vegna þess, að það er sífellt stríð á milli jarðareiganda og ábúanda um framkvæmdirnar, vegna þess að ríkissjóður sér sér ekki fært, sem ekki er eðlilegt, að setja í stórar framkvæmdir á slíkum jörðum, fá aðeins 3% í leigu fyrir það fé, sem hann lætur í slíkar framkvæmdir, og getur svo ekki haft neitt eftirlit t.d. með viðhaldi þessara eigna. Þetta er oft og tíðum nítt svo niður, að það er lítils virði, eftir að búið er að leigja þetta mönnum ákveðið tímabil, svo að hér er raunverulega um allt annað að ræða en um lóðir í kaupstöðum.

Ég gæti vel fallizt á það, að þessum l. yrði breytt þannig, að ríkið ætti landið sjálft og um það yrðu gerðir samningar til 99 ára, eins og gert er um lóðir almennt, og að lóðargjaldið eða landgjaldið þannig yrði ekki hækkað, og þetta væri leiguréttur, sem gengi frá manni til manns, alveg eins og gert er um lóðir í kaupstöðum, en það er allt annars eðlis en það, sem nú er gert í sambandi við þessi mál.

Mér þykir rétt, svona mönnum til gamans, að geta nokkra hugmynd um, hvernig þetta dæmi kemur út reikningslega fyrir ríkissjóð. Árið 1942 voru allar tekjur af ríkisjörðunum kr. 293530.35. Þetta eru heildartekjurnar af öllum ríkisjörðum í landinu. En kostnaðurinn á sama ári er um kr. 782011.90. Þetta eru nú þessi viðskipti hins opinbera. Og hvernig er svo þessum kostnaði mætt? Honum er mætt á þann hátt, að það eru seldar jarðir fyrir kr. 141000.00. Nú á þessi söluupphæð að ganga til þess að mæta ákveðnum verkefnum, og það sést ekki í ríkisbókhaldinu, hvort þetta fé hefur verið greitt út aftur til þeirra aðila, sem eiga að taka á móti því, og sé því innifalið í þessum kr. 782000.00, og ef svo væri, þá hefur ríkissjóður orðið að skulda einhvers staðar þessa sömu upphæð. Mér skilst nú helzt á bókhaldinu, að það hafi verið notað til viðhalds og annars kostnaðar og væri því skuld við viðkomandi aðila, sem á að taka á móti þessum upphæðum. En síðan er lagt frá ríkissjóði kr. 350000.00, og þannig koma út kr. 784000.00 til þess að mæta gjöldunum.

Það sér nú hver maður, sem vill líta á þetta réttlátum augum, að svona rekstur frá ríkisins hálfu er náttúrlega algerlega óverjandi ár eftir ár, og ofan á þetta er þó greiddur jarðabótastyrkur, sem á að bætast við þessa upphæð. Það er raunverulega ekkert annað að gera en að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því, að þessi mál verði tekin til meðferðar, það verði hætt að gefa með þessum jörðum, eins og hefur verið gert á hverju ári. Hér hefur verið gefið nærri kr. 400000.00 með jörðunum árið 1952, og það er sýnilegt á fjárlagafrv. fyrir árið 1954, að það er ætlazt til þess, að þessi upphæð fari hækkandi. Það er því sjálfsagður hlutur að taka þetta mál rækilega til —athugunar, þótt það sé ekki í sambandi við afgreiðslu þessara till., sem hér liggja fyrir, og hætta að ausa þannig að óþörfu úr ríkissjóði, og það alveg sérstaklega þegar vitað er, að þetta kemur ekki heldur bændunum að neinu gagni, því að eins og ég sagði hér í gær, má svo að segja þekkja þessar jarðir úr í landinu vegna þess, hversu þær eru langsamlega mest niðurníddar af öllum jörðum í landinu af þeim ástæðum, sem ég hef þegar tekið fram.

Það má fara allt aðra leið til að tryggja það, að verðhækkun á eignum í landinu fari ekki að öllu leyti í vasa eigandans, sem ég fyrir mitt leyti tel ekki óeðlilegt, að gert yrði, og um það vildi ég gjarnan mega hafa samráð við þá menn, sem hafa hug á því að koma þeim málum eitthvað áfram. En þessi aðferð er ekki til þess að fyrirbyggja það á einn eða annan hátt.