17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sé nú ekki að það sé nein ástæða til þess að fresta umr. um þetta mál fyrir þær upplýsingar, er komu fram frá hv. þm. Str. Það er alveg ljóst og hefur öllum hv. þm. verið ljóst, að þessi lög eru til. En það er líka ákveðið í þessum lögum, að það skuli uppfylla sérstök skilyrði, m.a. er ekki hægt aðselja jörð, nema viðkomandi aðill hafi búið á henni áður í 3 ár. Um Moshlíð er það að segja, að þessu ákvæði hefur ekki verið fullnægt, og svo er e.t.v. um fleiri ákvæði. Það eru þess vegna sett önnur ákvæði í sambandi við þessi l., og ef þau ákvæði eru ekki fyrir, þá er ekkert óeðlilegt að bera fram sérstakt frv. um það að heimila að selja jarðirnar, þó að öðrum ákvæðum sé ekki fullnægt en þeim að gera jörðina að ættaróðali. Ég hygg, að hvenær sem hefur verið óskað eftir sérstakri heimild frá Alþingi, þá hefur það verið af þeim ástæðum, að það hefur ekki verið hægt að öllu leyti að fylgja ákvæðum laga frá 1946. Hins vegar er það vitað, og það velt hv. þm. Str. máske langbezt, að ráðuneytið hefur líka selt eignir án þess að þessum ákvæðum væri fullnægt, þ.e.a.s. án þess að hafa haft heimild til að selja þær. (Gripið fram í.) Það var t.d. Kaldaðarnesið. Það voru aldrei uppfyllt þessi ákvæði af ábúanda, því að það var enginn ábúandi á Kaldaðarnesinu. — Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og sé þess vegna enga ástæðu til þess að fresta umr. af þeim ástæðum.