17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þm. Str. lítur svo á, að það sé ekki þörf á því að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, nema að því leyti sem það snertir Eyvindará og Heiðarhús, eða mér skilst það. Ég held, að þetta sé misskilningur að nokkru leyti a.m.k. Hvað snertir Grísará í Eyjafirði, þá hefur sá, sem þar er nú, eða sá, sem nytjar það land nú, fengið það leigt frá ríkissjóði ásamt hluta af landi frá annarri jörð. Hann býr núna á pörtum af tveimur jörðum, og hann hefur engin hús á Grísará, hann er þar ekki skrifaður til húsa, hann er skrifaður til húsa í Reykhúsum. Þar hefur hann búið, síðan hann fékk afnot af Grísará, og stjórnarráðið fékkst ekki á sínum tíma til að byggja honum Grísarána lengur en til 6 ára, frá 1949–55. Ég álít þess vegna a.m.k., að það muni orka nokkuð tvímælis, hvort hægt er að láta hana heyra undir 1. gr. laga um ættaróðul og erfðaábúð, þar sem tekið er fram heilmargt, sem þarf að vera til staðar, til þess að salan verði heimil eftir l. frá 1946, og það a.m.k. sé mjög vafasamt, hvort ekki þurfi að taka það sérstaklega fram hvað Grísará snertir. (Gripið fram í.) Nei, hann býr þar ekki. Þess vegna þarf að taka Grísará í frumvarpið, ef sala á að vera heimil.

Öðru máli gegnir um Moshlíðina. Ég get búizt við, að hann geti átt rétt á að kaupa hana, þó að það væri ekki neitt tekið fram um það í þessum l., og því sé ekki beint þörf á því að hafa hana þarna með. Hins vegar sakar það ekki. þótt hún sé tekin þarna með, svo að ég sé ekki ástæðu til að breyta frv. þess vegna.

Það kann vel að vera, að það sé ekki alveg rétt að kalla Reyni ábúandi á Moshlíðinni, af því að hann hefur engin hús þar og býr þar ekki, er þar ekki sjálfur til húsa, ekki skrifaður þar heimilisfastur, þó að hann hafi jörðina á leigu. Ég held, að það valdi nú ekki misskilningi. En ef það væri ástæða til, þá mætti náttúrlega fella orðið „ábúanda“ burt í fyrra tilfellinu, og stæði þá aðeins Hreiðari Eiríkssyni, ef talið væri, að það væri alveg rangt að kalla hann ábúanda, og það er það að nokkru leyti. En ég held, að það geri nú ekki neitt til, þó að það standi.