14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég gat nm það við 1. umr. þessa máls, að mér fyndist þær upphæðir, sem hér eru tilgreindar, vera nokkuð lágar, og ég vildi leyfa mér að bera fram víð þessa umræðu brtt. um að þær yrðu hækkaðar, að í staðinn fyrir „800 þús. kr.“ í 1. gr. komi: 2 millj. kr. — og í staðinn fyrir „35 þús. kr.“ í 2. gr. komi: 100 þús. kr. — Ég held, að það sé engum sérstökum erfiðleikum bundið fyrir hæstv. ríkisstj. að semja við Landsbankann eða aðrar stofnanir um að tryggja veðdeild Búnaðarbankans 2 millj. kr. að láni á ári. Við vitum það ósköp vel, að aðeins gróði Landsbankans er á hverju ári á milli 30 og 40 millj. kr., þó að það sé ekki nema stundum, sem hann er uppfærður á reikningunum 29 millj. kr., og ég held þess vegna, að ef það væri lögð virkileg áherzla á það að tryggja þetta fé, þá mundi það vera fáanlegt. En ég held hins vegar, að það veiti ekki af slíku fé til þeirra ráðstafana, sem þarna er um að ræða.

Ég minntist á það, hvaða erfiðleikum það væri yfirleitt bundið að knýja fram lán til þeirra atvinnugreina, sem halda atvinnulífi landsins uppi, og að það væri Alþingis að láta til sín taka sem húsbóndans í þessum efnum. Það er Alþingi, sem ákveður það og ræður því og veldur því, hvers konar lánsfjárpólitík er rekin í landinu. Hér er engin önnur lánsfjárpólitík rekin en sú, sem Alþingi raunverulega markar. Hér er engin önnur lánsfjárstofnun til en sú, sem Alþingi hefur skapað, og ég held þess vegna, að það sé alveg spursmálslaust, að það þarf að taka fastari tökum á þessu heldur en almennt er gert hér. Og það dugir ekki fyrir þá, sem vilja af góðum vilja berjast fyrir því að tryggja, hvort heldur það er landbúnaðinum, sjávarútveginum, iðnaðinum eða öðrum atvinnugreinum, lán, að láta fæla sig frá því eða láta veita sér of lítið með þessum eilífa són um það, að ekki séu peningar til, því að það er engin meiri blekking til í þessu landi heldur en það, að ekki séu nógir peningar til. Ég held þess vegna, að það ætti ekki að vera neinum sérstökum erfiðleikum bundið að tryggja í staðinn fyrir 800 þús. kr. að fá 2 millj. kr.

Í síðari gr. er gert ráð fyrir að veita lán þeim bændum, sem ætla að byrja búskap og verða að kaupa sér jarðnæði, eða þeim leiguliðum, sem geta fengið ábýlisjarðir sínar keyptar. Þetta lán á eingöngu að verða til jarðarkaupanna, og það er talað um 35 þús. kr., það má ekki veita neinum hærra. Ég verð að segja, að það er nú ekki stórt, ef það á að kaupa hús á einni jörð og jörðina sjálfa líka, að setja hámarkið 35 þús. kr. Það þykir a.m.k. ekki mikið hér í Rvík, ef það á að kaupa íbúð. Ég held þess vegna, að það væri nauðsynlegt að hækka þetta og það megi varla vera minna. en 100 þús. kr., en ég býst líka við, að þá verði það að virkilegu gagni.

Ég vil þess vegna leyfa mér að leggja fram svo hljóðandi brtt., að í 1. gr. komi í stað „800 þús. kr.“ 2 millj. kr. — og í 2. gr. komi í stað „35 þús. kr.“ 100 þús. kr.

Þessar brtt. eru of seint fram komnar, og ég vildi leyfa mér að æskja þess, að hæstv. forseti fengi afbrigði fyrir þeim; þær eru auk þess skriflegar.