30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Pétur Ottesen:

Það verður ekki ráðið af ákvæðum frv., hvað miklum hundraðshluta lán megi nema af kostnaðarverði kirknanna miðað við rúmmál þeirra. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér um þetta, þá mun — þó að okkar till. verði samþ. — ekki farið fram úr því, sem heimild er til samkv. frv. að veita lán til nýbyggingar. Till. okkar er flutt með tilliti til þess, að sá stuðningur við kirkjubyggingar, sem í frv. þessu felst, verður í mörgum tilfellum notaður til þess að endurbæta þær kirkjur, sem fyrir eru, án þess að rífa þær til grunna. Þannig er það nú orðið mjög algengt, t.d. um timburkirkjur, — og eldri kirkjurnar eru flestar byggðar þannig, — að steypa utan um þessi hús og gera þau með þeim hætti að mjög varanlegum byggingum. En af þessu leiðir að sjálfsögðu, að það þarf líka að gera miklar breytingar og umbætur á kirkjunum innanvert, til þess að þær uppfylli þær kröfur, sem nú eru gerðar til þess, að slík hús séu hæf til messugerða. Það er vitað, að umbætur á kirkjukostinum með þessum hætti eru mjög kostnaðarsamar, en hins vegar þó með þessum hætti hægt að komast af með minni útgjöld heldur en að reisa kirkjurnar að nýju. Ég held þess vegna, að það sé rétt af Alþingi að stuðla frekar að því, að umbótunum verði, þar sem því verður við komið, beint inn ú þessa braut, heldur en að vera að ýta undir það með lánsákvæðum frv., að farið verði í það að rífa kirkjur af grunni og byggja þær svo alveg upp að nýju með þeim mikla kostnaði, sem það hefur í för með sér. Ég vildi þess vegna mjög mælast til þess og teldi, að það væri hyggilegt af Alþingi að haga lánsupphæð til endurbóta á eldri kirkjum með þeim hætti, sem við hv. þm. N-Þ. höfum lagt til, og ég sé ekki, að það komi neitt í bága við ákvæðin um lánveitingar til þess að byggja kirkjur að nýju. Ég hef átt samtal við flm. þessa frv. í Ed., og hafa þeir látið í ljós við mig samþykki sitt við þessari brtt.