22.03.1954
Efri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

172. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt, að n. taki til athugunar tilmæli hv. þm. N-M., en annars eru í l. sjálfum, eins og hv. þm. sjálfsagt veit, ákvæði um endurskoðun á iðgjöldum sjóðsins með tilliti til skuldbindinga hans á hverjum tíma. Sú endurskoðun á að fara fram á 5 ára fresti, og í lok ársins 1953 eða á þessu ári, 1954, eru 10 ár síðan sjóðurinn tók til starfa samkvæmt gildandi l. Það eru aðeins 10 ár síðan sjóðurinn tók til starfa samkv. þeim l., sem nú gilda, en eftir þeim l. var tryggingasviðið víkkað stórkostlega, þannig að það eru um ferfalt fleiri meðlimir sjóðsins nú en eftir gömlu lífeyrissjóðslögunum frá 1920, því að þá voru það aðeins lögskipaðir embættismenn, sem þar voru, en nú eru það starfsmenn hins opinbera yfirleitt. Þessi endurskoðun eða útreikningar á hag sjóðsins fara nú fram, og ég geri ráð fyrir, að einhvern tíma á þessu ári verði þessum útreikningum lokið, þannig að fyrir liggi, hvernig hagur sjóðsins í raun og veru er. En ég er ekki á sama máli af þeirri lauslegu athugun, sem gerð hefur verið, eins og hv. þm. um það, að hagur sjóðsins sé óþarflega góður. Ég hygg þvert á móti, að hagur sjóðsins sé fremur of tæpur heldur en hitt. Menn gera sér nú kannske ekki grein fyrir því, að iðgjöldin til sjóðsins eru ekki að öllu leyti öll sama eðlis. Iðgjöld sjóðfélaganna eru 4% af launaupphæðinni, og ríkissjóður leggur aðra 4 á móti, þannig að það, sem sjóðurinn fær til að mæta sínum áfallandi skuldbindingum, er um 8% af laununum, og með þeim reglum, sem gilda fyrir sjóðinn, held ég, að þetta sé mjög tæpt áætlað, sérstaklega með tilliti til barnalífeyris, sem er töluvert hár. En þeim 2%, sem ríkissjóður greiðir til viðbótar í sjóðinn, þannig að heildargreiðslur eru 10%, er ætlað að standa undir þeim halla, sem af því leiðir, að eldri starfsmenn, sem greitt hafa í sjóðinn eftir eldri lögum og miklu lægri iðgjöld, eiga að fá sömu réttindi og þeir, sem nú eru meðlimir sjóðsins og hafa greitt eingöngu samkvæmt hinum nýju l. frá 1943, og það er víst, að þessi 2% nægja ekki til þess að bæta upp það, sem greiða þarf meira hinum eldri meðlimum sjóðsins heldur en það, sem þeir hafa til hans greitt.

En sem sagt, þetta verður athugað núna á þessu ári og grundvöllur sjóðsins reiknaður út; enda er svo fyrir mælt í l., að ef slík athugun og rannsókn á sjóðnum leiðir til þess, að annaðhvort þarf að hækka iðgjöldin eða lækka, þá skuli það gert, ef ekki verður þá breytt fríðindum sjóðsins, þannig að jafnvægi náist á tekjum hans og gjöldum eftir því, sem frekast væri hægt að áætla.