29.03.1954
Neðri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

144. mál, orkuver Vestfjarða

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. fjhn. og hv. frsm. hefur tekið fram, þá mælir n. einróma með því, að þetta frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún leggur til, að það verði fært í heimildarform. Og n. er öll á einu máli um það, að á því sé mikil nauðsyn, að þau byggðarlög, sem þarna eiga hlut að máli, fái raforku sem fyrst. Hins vegar hefur það komið í ljós, að ekki er lokið rannsóknum á því, hver leiðin er hagkvæmust af þeim, sem til greina hafa komið, og okkar athugasemd, mín og hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), byggist alls ekki á því, að rétt sé að tefja neitt fyrir þessari virkjun, sem þarna er fyrirhuguð. Ekki heldur dettur okkur það í hug, að nokkur þn. geti ráðið því til úrslita, hver röð verður á þessu höfð, en okkur er kunnugt um, að það er ein sérvirkjun, sem er á fjærsta staðnum af Vestfjarðasvæðinu, sem er Bolungavík. Hún er búin að vera í undirbúningi mjög lengi, og við vitum ekki annað en að þar séu allar áætlanir og rannsóknir klárar, og er okkar athugasemd beinlínis miðuð við það, að við viljum ekki láta samþykkt þessara laga tefja neitt fyrir framkvæmdum á þeim stað, og það er síður en svo, að það sé nokkur andúð, sem í því felst til þess, að þeir aðrir staðir, sem hlut eiga að máli, geti fengið raforku frá þessari fyrirhuguðu virkjun, ef það að lokinni rannsókn reynist svo, að það sé hagkvæmara að virkja þarna en að virkja á öðrum stöðum á þessu stóra svæði. — Þetta vildi ég aðeins fyrir okkar hönd taka fram.