03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af tilganginum með því að setja í fyrstu lögin um söluskattinn, því að hv. síðasti ræðumaður, frsm. minni hl., rangfærði nokkuð það, sem ég hafði sagt um það. Ég vil endurtaka það, að ég álit, að sömu ástæður séu enn fyrir hendi að nokkru leyti, ekki eingöngu vegna þess, að að nokkru leyti voru greiddar niður innlendar vörur og söluskattinum varið til þess frá upphafi, heldur var höfuðtilgangur með lögunum, eins og hv. þm. réttilega benti á, að verjast gengislækkun. Ég fullyrði, að þetta er enn, niðurgreiðslurnar eru enn gerðar til þess, því ef þeim væri hætt, þá mundi ekkert liggja fyrir að mínu áliti annað en gengislækkun. Þess vegna eru sömu ástæður fyrir hendi nú að halda söluskattinum eins og voru, þegar hann var settur 1948 að forgöngu stjórnar, sem Alþýðuflokksmaðurinn Stefán Jóh. Stefánsson veitti forstöðu.

Hv. þm. fór enn að benda á nýjar tekjulindir í staðinn fyrir söluskattinn og virtist með því vera að reyna þó að gera tilraun til að verða við áskorun minni, og þá benti hann á skatt af gróða á fasteignasölu, því að fasteignir hefðu hækkað mjög í verði vegna gengisbreytingarinnar. Það getur verið eitthvað til í þessu, og það getur verið ástæða til að athuga þetta atriði. Þó má benda á það, að þótt fasteignir hafi hækkað í verði, þá eru fasteignir, sem eru í höndum eigendanna, nákvæmlega þær sömu og þær voru. Þó að jörð t.d. mundi hækka í verði, ef hún væri seld nú, þá væri hún bóndanum, sem býr á henni og bjó á henni, þegar gengisfallið var gert, nákvæmlega sama jörðin og hún var fyrir gengisfallið, hafi hún ekki verið bætt síðan. Þannig mundi það vera töluvert vandasamt verk að setja löggjöf um skatt á þetta. Með því er ég þó ekki að segja, að slíkt sé með öllu óhugsandi, en hitt fullyrði ég — og ekki sízt vegna þess, að hv. þm. hefur alltaf í sínum ræðum verið að skjóta sér á bak við mþn. í skattamálum, það væri ekki hann, sem ætti að benda á leiðir til þess, að ríkissjóður fengi skaðann bættan, heldur mþn. í skattamálum, — að það er alveg áreiðanlegt, að mþn. í skattamálum hefur engar till. um þetta fram að flytja fyrir þann tíma, sem afgreiða þarf fjárlögin fyrir næsta ár, og þetta frv. er ekki nema um að framlengja lögin um eitt ár. Það er hugsanlegt, að einhverjar þær till. komi fram frá mþn., sem geri framlengingu á þessum lögum óþarfa framvegis, en núna getur slíkt alls ekki legið fyrir.