24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. n. hefur nú haft orð fyrir meiri hl. og óskað, að hv. d. fallist á þeirra till. Ég hefði gjarnan kosið, að hv. frsm. hefði verið hér viðstaddur, en ég sé hann nú ekki hér í hv. d. og get búizt við, að hann muni ekki vera lengur hér til staðar.

Sjálfsagt kann svo um þetta mál að vera, að það nái fram að ganga, en svo einfalt er það þó ekki frá mínu sjónarmiði að minnsta kosti, að ekki sé ástæða til þess að gera nokkrar athugasemdir um það og það fari nánari íhugun fram um málið heldur en fram er komið enn.

Samkvæmt þeirri löggjöf, sem gilt hefur um þetta efni fyrir Reykjavík, hefur bærinn haft heimild til að semja við eitt eða fleiri vátryggingarfélög. Sú löggjöf, sem bærinn hefur haft við að styðjast um þetta efni, var sett 1924 og hefur staðið nær óbreytt frá þessum tíma til 1943, að lítils háttar breyting var gerð á l., en þó ekki um þetta efni, að bærinn hafði eftir sem áður heimild til þess að semja við vátryggingarfélög, eitt eða fleiri fyrir alla húseigendur í bænum um brunatryggingu.

Orsökin til þessarar lagasetningar 1924, að bænum var heimilað að semja fyrir alla húseigendur um iðgjald fyrir brunatryggingu, mun fyrst og fremst hafa verið sú að talið var, að bærinn gæti komizt að betri skilmálum fyrir húseigendur, ef hann hefði á sinni hendi heimild til að semja við eitthvert vátryggingarfélag eða vátryggingarfélög fyrir alla í senn. Eins og viðhorf var þá til þessara mála, þá var þetta í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Innlend vátryggingarfélög voru þá bæði fá og ekki fjársterk, höfðu litla getu til að takast á hendur mikla vátryggingu. Það var tæpast hægt að búast við, að samkeppni þeirra í milli yrði að nokkru ráði, sakir þess, hvernig ástatt var um þeirra fjárhag og möguleika til þess að keppa. Bærinn hefur notað sér þessa heimild og hefur alla stund samið við vátryggingarfélag eða félög, mér er ekki alveg kunnugt um, hvort þau hafa stundum verið fleiri, — eins og lögin heimiluðu. Iðgjaldagreiðslur til þeirra aðila, sem hafa haft brunatrygginguna á hendi, hafa verið nokkuð háar, og þess hefur gætt hjá ýmsum húseigendum, að þeir hafa talið iðgjaldagreiðslurnar óeðlilega háar. Þá var gert ráð fyrir, að semja mætti um þetta af hálfu bæjarins á fimm ára fresti. Stundum mun það hafa verið gert, en ég ætla, að það sé rétt, að það hafi stundum líka ekki átt sér stað. Til þess að samið væri á ný, þurfti að segja eldri samningum upp, en það mun ekki ætíð hafa verið gert. Hefur þá framlengzt af sjálfu sér samningurinn og iðgjaldagreiðslan óbreytt eins og áður var gengið frá þeim samningum.

Nú í vetur var boðin út vátryggingin, og vátryggingarfélög hér í bænum hafa boðið í trygginguna, og þeirra tilboð munu hafa verið mun hagstæðari fyrir húseigendur en verið hefur áður. Þannig er mér tjáð um eitt tilboðið til dæmis, og vera má, að þau séu fleiri eitthvað svipuð, að það muni muna milli 40 til 50%, hvað iðgjöldin verði ódýrari eftir þessum nýju tilboðum, eða nýja tilboði, heldur en iðgjöldin eins og þau hafa verið greidd nú undanfárið. Þetta er vitaskuld afar mikill munur og húseigendum margfalt hagstæðari en áður hefur tíðkazt. Vera má, að það beri sitt hvað til þess. Í fyrsta lagi má vafalaust telja, að vátryggingarfélögin, sem starfa nú, eru orðin fleiri og þau eru miklu fjársterkari nú orðið en þau voru áður. Þau munu hafa miklu hagstæðari samninga við erlend vátryggingarfélög um endurtryggingu en þau höfðu um langa stund. Þau hafa margháttaða tryggingarstarfsemi aðra og geta þess vegna reiknað sér minni kostnað við framkvæmd trygginganna nú en áður sakir þess, að þetta verður þá einn þáttur í þeirra starfi, hliðstæður því, sem þau hafa á öðrum sviðum, og verður ódýrara vitaskuld fyrir það að annast framkvæmd tryggingarinnar heldur en annars mundi hafa orðið.

En bænum eða ráðamönnum Reykjavíkurbæjar hefur ekki litizt á að fara þessa leið, því að nú er borið fram frv. af hálfu fulltrúa Reykjavikurbæjar, þm. bæjarins, og farið er í því fram á heimild fyrir bæinn að semja að vísu eins og áður við eitt eða fleiri vátryggingarfélög um brunatryggingarnar eða að bærinn taki sjálfur að sér þessar brunatryggingar og hann ætli sér þá, ef að því ráði yrði horfið. að annast einn trygginguna. Vafalaust mun hann semja við eitthvert félag eða félög um endurtryggingu, en trygginguna hér heima fyrir ætlar hann sér að annast, ef hann hverfur að því ráði. Skylda á að vera hjá eigendum húsanna að hlíta þessari ráðstöfun eins og áður, ef samið verður við eitthvert vátryggingarfélag eða félög, en verði það ekki að ráði, þá eru þeir skuldbundnir samkvæmt þessu frv. að vátryggja húseignir sínar hjá bænum fyrir þau iðgjöld, sem bærinn þá sennilega ákveður, máske ekki í þetta sinn, af því að tilboð liggja nú fyrir frá vátryggingarfélögunum, þó að ekkert sé reyndar sagt um það, en síðar meir er ekki neitt ákvæði, eða ekki hef ég getað komið auga á það í þessu frv., sem bindur bæinn við að bjóða tryggingar út og sjá, hvað í þær verði boðið, og gæti hann þá ráðið síðar meir, hver iðgjöldin væru. Ég get búizt við, að því verði haldið fram, að ef bærinn hefur allar húseignir á sinni hendi og hvort sem hann annast trygginguna sjálfur eða semur við vátryggingarfélög, eitt eða fleiri um trygginguna, þá verði auðveldara með því fyrirkomulagi að komast að betri kjörum en ef tryggingarnar væru gefnar frjálsar og hver einstakur húseigandi tryggði eign sína sjálfur. Ég skal hvorki til né frá fullyrða neitt um þetta, hvort það yrði svo í framkvæmdinni. Ég tel það nokkuð hæpið, að það reyndist svo.

Það er nokkurn veginn víst, að milli vátryggingarfélaganna nú orðið er samkeppni, og það er tæpast hægt að ætla það, þar sem þau eiga eigin hagsmuna að gæta í því að fá sem mest til að tryggja með sem mestu verðmæti, að þau hafi samtök sín í milli um það að bjóða ekki sem bezt kjör. Ég hygg, að það mundi reynast svo, að þau kepptu um þetta og mundu bjóða eins góða skilmála og þau sæju sér frekast fært. Þá finnst mér í alla staði eðlilegt, að það gengi eftir þeirri braut um þessi mál, en hitt kæmi ekki til greina.

Vitaskuld verður að halda því í löggjöfinni, að skylt sé að tryggja, og það ber ekki á milli um skoðanir manna um slíkt efni. Það verður vitaskuld að sjá fyrir því. Og hvaða leið sem farin verður í þessu máli, þá er vafalaust, að það verður lagaskylda, eins og vera ber, að húseigendur verði að tryggja húseignir sínar fyrir eldsvoða, svo að hvað það ákvæði áhrærir verði engin mistök á um það efni.

Viðvíkjandi þessu máli í framkvæmdinni, þá er það þannig eins og ég vék að áðan hvað félögin áhrærir, að þau hafa sína starfsmenn og sínar innheimtur við aðrar vátryggingar eða út af öðrum vátryggingum, og mundi þess vegna ekki verða svo mikið aukið mannahald hjá félögunum við það, þó að þau hefðu hústryggingarnar. Slíku verður ekki til að dreifa um þetta efni, ef bærinn tekur það í sínar hendur. Það er alveg nýtt starf, nýtt bókhald, nýir starfsmenn eða starfskraftar, sem þar koma, og það leggst á þessa starfsemi með fullum þunga. Bærinn getur tæpast annað en haft iðgjöldin það rífleg, að það safnist nokkur sjóður til þess að mæta sérstökum óhöppum, sem fyrir kynnu að koma, og a. m. k. fyrst í stað er það ekki nema í alla staði eðlilegt, að það yrði að vera heldur í rífara lagi, til þess að bærinn væri við því búinn að mæta brunatjóni, ef það yrði mikið, og standa straum af því. Það mætti vitaskuld búast við því, þegar frá liði og bænum hefði safnazt sjóður, að þá þyrfti minna í hann að leggja, svo að að því leyti kynni að koma einhver linun í iðgjöldunum síðar meir, en þó því aðeins samt sem áður, að það viðhorf væri þá hjá ráðamönnum bæjarins, að þessi þjónusta fyrir húseigendur í bænum væri þeim sem kostnaðarminnst og þægilegust og ekki tekið meira af þeim til brunatryggingar húsanna heldur en brýna nauðsyn bæri til. Þrátt fyrir það þó að iðgjöldin hafi verið há og húseigendum óþægileg, þá hefur samt sem áður sá litli vinningur, sem orðið hefur við vátrygginguna og greiddur hefur verið Reykjavíkurbæ, ekki komið til þeirra, sem tryggt hafa. Á 9 árum, — ég ætla síðustu árunum 9, — hefur verið greitt til bæjarins af hálfu vátryggingarfélagsins, sem samið hefur verið við, eitthvað um 1.7 millj. kr. í ágóðahlut, að ég held. Í raun og veru eru þetta fjármunir, sem húseigendur eiga, en þá leið hafa þeir nú ekki farið, eftir því sem mér er tjáð. Ég hygg, að það sé rétt. Ég hef séð það á prenti, og því hefur ekki verið mótmælt. Hefur það gengið til bæjarins og þar inn í sjóð borgarinnar. Hvort slík greiðsla til bæjarins er nú lögum samkvæm eða ekki, um það skal ég ekkert fjölyrða. Það er ekki heldur neitt höfuðatriði í meðferð þessa máls fyrir framtíðina, það má skoða sem aukaatriði. En væri það nú samt svo, að ekki hefði verið full heimild til þess, þá hefur maður þó nokkra ástæðu til þess að ætla, að vera mætti, að þessum málum væri betur komið í höndum húseigendanna sjálfra og þeirra manna, sem þeir semdu við.

Samkvæmt þeim brtt., sem við berum fram, hv. meðnm. minn, þm. Dal., og ég, þá leggjum við til í okkar aðaltill., að frv. verði breytt í það form, að húseigendur sjálfir annist um vátrygginguna, semji fyrir sig, en bærinn hafi þetta ekki í sínum höndum. Ég hef orðið þess áskynja, að húseigendur telja sér þetta hagfelldara og munu margir a. m. k. óska þess fremur, að þessi háttur verði á hafður, heldur en að þeir verði með lögum bundnir við ákveðinn aðila, hvort sem það yrði nú bærinn eða einstök vátryggingarfélög, eins og verið hefur nú um skeið.

Ef þetta frv. verður samþ. eins og það er úr garði gert, þá hefur Reykjavík í þessu efni alveg sérstöðu. Enginn landshluti annar hefur þessa aðstöðu, að hann geti tekið þessar tryggingar í sínar hendur eða samið við aðra um trygginguna. Menn í öðrum hlutum landsins eru að lögum bundnir, hvar þeir skuli tryggja. Það kann nú sumum að sýnast ekki neitt höfuðatriði, þótt þannig sé farið að, og það skal ég játa. Það þarf reyndar ekki að vera, en þá vil ég vona, að ef nú aðrir landshlutar kynnu að finna upp á því að bera fram óskir um að fá sjálfræði sinum stjórnendum til handa um meðferð slíks máls sem þessa, þá verði þeim látið það í té. Það er ekki nema fyllsta sanngirni, sem mælir með því. Verða þá hv. dm. að vera við því búnir og gera það upp við sig fyrir fram, hvernig þeir mundu þá snúast við slíkum óskum.

Ég vil líka benda á í þessu sambandi, að þetta er eitt atriði í nokkurs konar þjóðnýtingu, sem hér er tekið upp. Það er að vísu bærinn, sem á að annast um þetta starf og ætlar að taka það í sínar hendur. Verði þessi lagasmíði að lögum, þá getur bæjarstjórn gert það, hvort sem íbúum þessa bæjar líkar betur eða verr. Þeir fulltrúar, sem fara með yfirráð bæjarins nú, munu ekki hafa umboð frá húseigendum í Reykjavík til þess að fara á þennan hátt með þetta mál. Það getur verið, að þeir öðlist það, afli sér þess síðar meir, áður en þeir hrinda því í framkvæmd. Ég skal ekkert segja um það, hvort þeir gera það, en eðlilegast hefði þó verið, að þeir hefðu leitað samþykkis þeirra um það, áður en þeir fengju þennan lagastaf samþ. á Alþ. Eitt vil ég líka draga fram einmitt í þessu sambandi, að þó að Reykjavíkurbær eigi þarna í hlut og hér sé um brunatryggingar húseigenda að ræða, þá er sitt hvað annað, sem gæti komið til álita að fari eins og annaðhvort bærinn eða þá ríkið allt eignaðist rétt til þeirrar starfsemi, einhvers konar starfsemi, sem einstaklingarnir hafa nú í sínum höndum og þjóðin hefur frjálsræði til þess að fara með.

Hv. frsm. meiri hl. vék að því hér í sinni ræðu og hafði séð það í einhverju blaði, að eftir ákvæði 1. gr. væri þetta dulbúinn fasteignaskattur, og fannst þetta ekki rétt, þetta mundi ofmælt, 1. gr. gæfi ekki tilefni til þess, og þyrfti þess vegna ekki að gera ráð fyrir slíku. Ég skal ganga út frá því með hv. frsm. meiri hl., að þetta sé meining bæjarfulltrúanna, að þannig verði farið með málið í framkvæmdinni, að þeir ætli ekki að taka sérstakt gjald umfram það, sem endilega þarf að vera til brunatrygginganna, en ekki er nema eðlilegt, að þeim, sem eru dálítið tortryggnir á, hvernig fara muni um málið í framkvæmdinni, detti það í hug, að vel geti nú verið, að tekið verði meira af húseigendum en brýna nauðsyn ber til vegna brunatrygginga húsanna sjálfra.

Í 3. málsgr. 1. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjur, sem bæjarstjórn kann að hafa af starfsemi samkvæmt 1. málsgr., skal leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og til tryggingarstarfsemi og til lækkunar á iðgjöldum húseigenda eftir ákvörðun bæjarstjórnar.“

Þetta er ákaflega rúmt orðalag, og hafi það vakað fyrir hv. flm. að taka ekki meiri gjöld af húseigendum en brýna nauðsyn ber til, þá er þetta orðalag ekki heppilegt. Hvað er efling á brunavörnum? Hún er margvísleg. Það er kaup á tækjum, það er brunalið, það er alls konar kostnaður í sambandi við þetta, og þessi starfsemi öll lýtur að meiru en aðeins að verja húsin, slökkva eld í þeim og verja þau fyrir eldsvoða, ef hann kemur einhvers staðar upp. Það eru líka aðrar eignir, alls konar eignir, lausafé í húsum, vörur í einstökum húsum og búðum, vörur í vöruskemmum o. fl., gæzla skipa í höfninni og máske eitthvað enn fleira. Ja, brunavarnir, þetta fellur undir það. Er það meiningin að taka gjöld af húseigendunum og vera viðbúinn að framkvæma þetta starf? Ekki er hægt að segja annað, þó að þetta væri gert, heldur en þetta heyrði brunavörnum til. En hvaða sanngirni væri í því að velta þessari byrði allri eða að meira eða minna leyti umfram það, sem réttmætt væri, á húseigendurna eina? Eins og menn vita, þá eru gjöld til brunavarna, t. d. eins og kaup á tækjum, greiðsla til slökkviliðs og margt og margt í því sambandi, tekin með almennum gjöldum af borgurunum, og það er í þágu langtum fleiri manna en þeirra, sem eiga aðeins hús. Ég held þess vegna hvað þetta áhrærir, að það sé alveg sjálfsagt að ganga svo frá þessu ákvæði, að það sé ekki hægt að leggja allt mögulegt inn í þetta orðalag og taka gjöld af húseigendum til slíkra framkvæmda sem ég hef nú verið að gera að umtalsefni. Mér skildist nú á hv. frsm., að hann gengi út frá því, að þannig ætti það að vera. Þá ætti líka að vera vorkunnarlaust að orða þetta það skýrt, að ekki valdi misskilningi og að ráðamenn bæjarins geti ekki lagt annað og meira í orðalag gr. heldur en hún heimilar, og þá aðeins það, sem fyrst og fremst verður að telja að komi húseigendum við, en frekari gjöld verði ekki af þeim krafin heldur en til að standa straum af þeirri gæzlu, sem telja má að sé sanngjarnt að þeir annist.

Hv. frsm. sagði í sambandi við þetta, að það væri ástæðulítið — það var meining hans — að fetta fingur út í, þó að bærinn tæki nú þetta í sínar hendur, því að það væri ekki annað en þjónusta, þjónusta fyrir borgarana, þjónusta fyrir húseigendur. Þá vantar vafalaust ekki föðurlega forsjá í þessu, en betur færi þó á því, eins og ég hef áður vikið að, að börnin hefðu þá a. m. k. fallizt á, að þessi föðurvernd kæmi fram af hálfu þeirra, sem ráða bænum.

Mér skildist á hv. frsm., að hann teldi, að þessi þjónusta, sem ráðamenn væru nú að bjóðast til þess að láta í té fyrir húseigendurna, væri þannig, að lengra þyrfti það nú ekki að ganga, það þyrfti ekki að ná lengra, ekki út á víðara svið eða ekki taka til fleiri hluta. Ja, það er nú svo. Það var hans hugmynd núna og hans skoðun. En vera mætti nú, að menn hefðu aðra skoðun, og ekki væri það nú ómögulegt, að einhver kysi, að það tæki til fleiri atriða, sem væru þjónusta fyrir Reykjavíkurbæ, ef starfsemin ætti sér stað hér, hefði aðsetur sitt, og kannske þá fyrir fleiri, jafnvel landsmenn alla. Og ef nú hægt væri að færa rök fyrir því, að það væri einstaklega hagstæð þjónusta. jafnvel hagstæðari en hægt væri að benda á, að nokkrir aðrir gætu í té látið, ja, yrði þá svo mikið tiltökumál hjá þeim, sem taka nú þetta upp, þó að þeir vildu þá koma slíku í framkvæmd? Mig minnir, að ég hafi nokkrum sinnum séð drepið á það í blöðum, að við værum ekki fjölmennari en það, Íslendingar, að það væri einstaklega hagstætt fyrir okkur að gera innkaup á nauðsynjum okkar í einn lagi, það sem við þurfum að kaupa hjá öðrum þjóðum. Með því móti gætum við komizt að mjög hagstæðum samningum, betri en ef fjöldi manns gerir slík kaup; ráðið með því móti betur, að það væri keypt inn í landið það, sem þjóðinni væri nauðsynlegt og gagnlegt, það yrði minna keypt af alls konar prjáli og annað þess konar. Þess vegna ætti þetta að vera gert og ætti að vera rekið á þennan hátt. Ja, þjónusta væri þetta vissulega. Hvað mundi hv. 3. þm. Reykv. segja um þetta? Ef nú sönnur væru færðar á það, að þetta væri þjóðinni hagkvæmt, væri hann þá við því búinn að hjálpa nú til að koma þessu á vegna þjónustuseminnar við þjóðina? Ég efast dálítið um það. Ég held að minnsta kosti, að hann gerðist ekki frsm. þeirrar n., sem hefði það mál til meðferðar og legði það til, að nú skyldu öll kaup verða gerð í einu eða af einum aðila og ríkið annaðist það. Þó að hann sé prýðilegur borgari hér, það veit ég, mundi hann jafnvel ekki gera það fyrir Reykjavíkurbæ. Ja, svona er nú um þetta atriði. Nú má segja, að þetta sé nú kannske eitthvað meira, og það er rétt, það tekur til fleiri, en þá eru fleiri atriði líka, þar sem hægt væri máske að koma þessu við.

Hvað á að segja um iðnaðarstarfsemina? Í sumum iðnaðargreinum höfum við bæði húsrúm og vélar, sem geta unnið miklu meira en verkefnið, sem fæst, sakir þess að það þýðir ekki að framleiða svo mikið upp á það, að það seljist. Fyrir þessar sakir verður iðnaðarvaran miklu dýrari vitaskuld, mætti vafalaust vera nokkru ódýrari, ef það væri framleitt miklu meira, vélaaflið nýtt nokkurn veginn eða kannske til fulls og það húsnæði, þar sem þessi starfsemi fer fram, kæmi að enn meiri notum. Efast ég ekkert um, að auðvelt er að færa sannanir fyrir, að þetta gæti orðið miklu hagfelldara fyrir þjóðina, — það er ekkert vafamál, — og þetta gæti gerzt hér í Reykjavíkurbæ, svo að við förum nú ekkert út fyrir bæinn. Og vissulega væri þetta þjónusta í þágu bæjarbúa, og aðrir kynnu þá að njóta góðs af, og enginn sæi vitaskuld eftir því. Ja, mundi hv. frsm. meiri hl. geta fallizt á þetta? Þetta atriði er ekkert annað en framhald af því, sem hér er verið með, og ég vil einmitt, að bæði hann, hv. frsm. meiri hl., og hans flokkur geri sér það ljóst nú þegar í byrjun, hvaða skref hann er að stíga í þessum efnum. Er hann á leið út í fulla þjóðnýtingu, aðeins ef þau skilyrði eru fyrir hendi, að íbúarnir hafi hagnað af, miðað við það, sem vera kynni, ef það væri látið ógert? Ja, ég held, að hann ætti þá að draga upp enn skýrar en einstök máletni gefa stundum tilefni til, — enn skýrar annað, það sé nú ekki einstaklingurinn endilega lengur, sem eigi að annast framkvæmdir, heldur sé það nú annaðhvort bæjarrekstur eða þjóðnýting með öllu því, sem henni kann að fylgja. Þessu finnst mér að menn þurfi að gera sér grein fyrir, áður en svona spor er stigið, svo að ef eitthvað kynni nú að vera flutt af öðrum í svipaða átt, þá bregðist menn ekki þannig við, að það verði ekkert samræmi á milli orða og gerða.

Ég er nú ekki þannig skapi farinn, og mínar skoðanir eru ekki þannig, að þær séu mjög andvígar því undir vissum kringumstæðum og með viss málefni, að ríkið hafi sjálft það til meðferðar. Það er fjarri því. En um svona efni, þar sem margar hliðstæður finnast, ef menn vildu vera í samræmi við það, sem þeir eru að gera, hef ég enga trú á, að það geti leitt til góðs. Að vísu, ef menn eru heppnir með mannaval og það er í höndum ágætismanna, þá getur slíkt farið vel, en gera verður ráð fyrir í þeim efnum, að mönnum kunni að vera missýnt, þó að þeir vilji vel, — missýnt um framkvæmdirnar, — og vel geti komið menn, sem eru mislagðar hendur um slíkt, og þá getur slík framkvæmd, ef hún er stórfelld og grípur mjög inn í þjóðarhag, orðið til tjóns.

Ég var á einni tíð fyrsti flm. að því, að ríkið annaðist olíuverzlun. Ég komst að því, þegar ég var fulltrúi Reykvíkinga hér eitt sinn, að sú verzlun var einkar óhagstæð þjóðinni. Það var tekið miklu meira verð fyrir þá nauðsynjavöru en sanngjarnt var. Erlend gróðafélög rökuðu saman fé hér af landsmönnum. Það gekk út yfir atvinnulíf þeirra, og þess vegna flutti ég frv. um, að ríkinu væri heimilt að taka upp einkasölu. Sú löggjöf var samþ. hér á þinginu, og ríkið gerði það og hafði einkasöluna um skeið. Síðar kom svo að því, að þetta var talið haft á frjálsræði manna, talið, að einstaklingar gætu gert þetta miklu betur og ríkið ætti ekki að vera að binda fé og vasast í þessu. Illu heilli hafði þessi skoðun byr á þingi, svo að ríkið hætti afskiptum af verzlun með þessa vöru. Ósköp held ég að tilkostnaðurinn hjá sjávarútveginum hefði nú verið mikið annar oft og tíðum núna undanfarið, ef ríkið hefði haft þessa verzlun, og það hefði a. m. k. ekki verið varið eins stórkostlegu fé í geymabyggingar og annað þess konar alveg að óþörfu eins og átt hefur sér stað. Og engum dettur í hug að halda, að erlend gróðafélög séu að gefa okkur þessar byggingar, sem búið er að reisa og alltaf er verið að reisa. Nei, þjóðin verður að borga það sjálf, og þar verður hún að borga margan óþarfapening fyrir þetta fyrirkomulag. Ég drep á þetta sem dæmi þess, að það getur verið ýmislegt enn nær og þýðingarmeira fyrir það opinbera að grípa inn í og hafa undir sinni umsjá en það efni, sem þetta frv. er um.

Við höfum lagt fram hér vi5 frv. brtt., fyrst aðaltill., sem fjalla um það efni að gefa tryggingarnar frjálsar. Ef hv. d. getur ekki á það fallizt, þá höfum við gert hér varatill., og það er um dálitla lagfæringu á 1. gr. frv. Ég ætla ekki að gera frekar en ég er búinn að umtalsefni þessi atriði. Við flm. þessara varatill. tökum þær aftur til 3. umr. Það skiptir ekki máli, að þær komi til atkv. nú við 2. umr. málsins. Við viljum heldur geyma það til 3. umr. og sjá fyrst, í hvaða búningi málið fer nú frá 2. umr. Vera má, að frekari brtt. komi fram við frv., og er þá gott að sjá, hvað því líður. Verið getur líka, að við í minni hl. gerum eitthvað frekari tilraun til lagfæringar á frv., þegar við sjáum, í hvaða búningi það verður eftir 2. umr. málsins.

Ég hefði nú mjög svo gjarnan, eins og ég lét í ljós í byrjun míns máls, kosið, að frsm. meiri hl. hefði haft ástæðu til þess að vera hér og hlusta á mál mitt, en ég get nú ekki að því gert og hann lét mig ekki neitt vita um það, að hann hyrfi héðan. Ég vildi gjarnan, að þessar athugasemdir kæmu fram af okkar hálfu í minni bl., þó að mér hefði þótt miklu æskilegra, að viðstaddur væri hv. frsm. meiri hl., sem hefur nú tekið að sér að forsvara þetta mál í þeim búningi, sem það er, því að meiri hl. leggur til, að það sé samþ. óbreytt. Minna má ekki gagn gera, og honum þykir ekki athugavert neitt við frágang 1. gr. Og hvað sem líður bæjarfulltrúum Reykjavíkurborgar nú, þeirra skoðun og meðferð á málinu, þá veit ég ekki, hvort þeir eru það glöggskyggnir og sjá svo vel fram í tímann síðar meir, ef þetta verður að l. í þeim búningi, sem það er, að þeir sjái, hvernig síðar meir einhverjir bæjarfulltrúar Reykjavíkurborgar kunna að fara með þetta mál, ef það verður afgreitt eins og frv. liggur nú fyrir.