01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta, eins og það var lagt fyrir hv. Nd. Alþ., var flutt af öllum þm. Reykjavíkurbæjar í þeirri d. eftir einróma ósk bæjarráðs. í því var farið fram á, að bænum verði leyft að taka í eigin hendur brunatryggingar allra húseigna í lögsagnarumdæminu eða semja við eitt vátryggingarfélag eða fleiri um slíkar tryggingar eða um endurtryggingu á áhættu bæjarins. Slík heimild er vafalaust til hagsmuna fyrir húseigendur í bænum.

Af athugasemdunum við frv. sést, að hagnaður vátryggingarfélags þess, sem tryggt hefur húseignirnar hér í Reykjavík í s. l. 10 ár, hefur á því tímabili numið 4–5 millj. kr.

Brunavarnir hér í bænum eru alltaf að verða betri og betri, og brunahætta fer stórminnkandi með hverju ári, eftir því sem timburhúsum fækkar og steinhúsin koma í staðinn og brunaliðið er aukið. Leiðir þetta að sjálfsögðu til þess, að hægt er að lækka iðgjöld til mikilla muna, og ætti það að sem mestu leyti að koma húseigendum sjálfum til góða. Brunatryggingum í Reykjavík hefur verið skipað með sérstakri löggjöf, enda stendur þar sérstaklega á. Um brunatryggingar úti á landi hafa gilt önnur lög, lögin um Brunabótafélag Íslands. Hefur það félag gert mikið gagn, enda verið brautryðjandi á sínu sviði. Það er nú orðið fjárhagslega sterkt, og er orðin full ástæða til þess að endurskoða lögin, sem um það gilda, og athuga, hvort það geti ekki lækkað iðgjöld sín mjög verulega. Auk þess er nú full ástæða til þess að athuga nákvæmlega, hvort ástæða sé til þess, eins og högum er nú háttað, að það haldi áfram að hafa einkarétt á tryggingum húsa annars staðar á landinu en í Reykjavík. Er komin þáltill. fram um þetta efni í Sþ., og má vænta þess, að frv. um þetta efni verði borið fram, ef ekki á þessu þingi, þá a. m. k. á haustþingi.

Í hv. Nd. hefur þessu tvennu verið blandað saman. Mál þetta hefur fengið þá — að mínu áliti — óþinglegu meðferð, að með brtt. við frv. um brunatryggingar í Reykjavík hefur svið frv. verið útvíkkað svo, að það tekur nú í því formi, sem það liggur fyrir við þessa umr., til allra sveitar- og bæjarfélaga á landinu. Á svipstundu hefur fótunum svo að segja verið kippt undan Brunabótafélagi Íslands, ekki að undangenginni rannsókn og með breytingu á lögum, sem um það gilda, heldur, eins og fyrr segir, með brtt. við frv. um annað og miklu betur athugað mál. Þetta vill meiri hl. allshn. ekki sætta sig við og leggur því til, að frv. verði breytt hér í þessari hv. d. og það fært í sitt upprunalega horf. Brtt. n. miða að þessu, og aðeins eina breytingu hefur n. borið fram að auki, sem sé, að í lok 1. málsgr. 1. gr. skuli ákveðið, að bæjarstjórnir skuli leita opinberra tilboða í tryggingu húsa eða endurtryggingu.

Frá minni hl. hv. allshn., hv. þm. Str. og hv. þm. N-M., hefur borizt nál., þar sem lagt er til, að að vísu skuli vera skyldutryggingar húseigenda, en húseigendum skuli vera frjálst að velja um, hvar þeir tryggi hús sín, ef það er aðeins gert hjá tryggingarfélagi, sem viðurkennt er af þeim ráðh., sem fer með tryggingarmál. Ég álít, að svona frelsi í tryggingarmálum sé algerlega ótímabært og yfirleitt til óhags.

Það, sem hefur gert það að verkum, að tryggingar hafa orðið ódýrari með hverju nýju tryggingartímabili, er m. a. það, auk ýmissa annarra ástæðna, að hægt hefur verið að bjóða út í einu lagi áhættu á öllum húsum í bænum. Ef hin ýmsu tryggingarfélög ættu að keppa um að taka einstakar húseignir að sér í tryggingu, mundi það leiða til þess, að tryggingar á steinhúsum og húsum í steinhúsahverfum mundu verða mjög eftirsóttar og þau fást tryggð fyrir lág iðgjöld, en aftur á móti mundu þeir, sem eiga hús í timburhúsahverfum, verða útundan og sæta afarkostum og ef til vill fengju þeir ekki hús sín tryggð. En við þetta bætist, að menn eru hér alls ekki svo passasamir í fjármálum, að það sé eigandi á hættu, að þeir eigi að sjá um tryggingu húsa sinna sjálfir, þó að það eigi að vera undir eftirliti bæjarstjórnar. Við sjáum svo að segja við hverja brunafrétt, bæði hér í bænum og annars staðar, að menn hafi orðið fyrir stórtjóni, af því að þeir hafa yfirleitt ekki tryggt innanstokksmuni sína eða tryggt þá of lágt. Hér í bænum er fjöldi manna, sem trassar að greiða brunabótagjöld sín á réttum tíma, og sum húsin eru auglýst til uppboðs eingöngu vegna brunabótagjaldsins. Þetta skiptir ekki svo miklu máli, eins og tryggingunum er háttað núna, vegna þess að fyrir brunabótagjöldunum er lögveð í húsum og lögtaksréttur fyrir þeim. En ef það verður fellt niður, eins og ætlazt er til í till. hv. minni hl., er mikil hætta á, að menn verði fyrir stórskaða af brunatjóni, af því að þeir hafa trassað að greiða iðgjöld sín. Að vísu er ætlazt til eftir till. þeirra, að tryggingin falli ekki niður, þó að einhver dráttur verði á greiðslu iðgjalda, en hvað má sá dráttur verða mikill og hvaða félög vilja taka að sér að bera áhættuna, ef þau fá ekki iðgjöldin greidd og tryggingu fyrir þeim eins og verið hefur?

Það segir sig sjálft, að það er auðvitað mjög stórkostlegt atriði í sambandi við allar lánveitingar út á húseignir, að lánveitandi megi vera viss um, að tryggingin sé gild gagnvart honum, þó að greiðsludráttur hafi orðið á iðgjaldi af hálfu veðsetjanda. Þessu hafa lánveitendur ekki þurft að hafa áhyggjur út af núna, en ef svo fer, að þeir þurfa að hafa vakandi auga með þessu, er hætta á, að húseignir hér verði ekki álitnar eins öruggar sem veð eins og hefur verið til þessa og það mundi leiða til aukinna erfiðleika að fá lán út á fasteignir eða til hækkandi vaxta og affalla.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál á þessu stigi, en skal taka það fram, að meiri hl. n. mun taka það til athugunar fyrir 3. umr., hvort hann sér ástæðu til að taka upp að einhverju leyti till. hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), sem kom fram í Nd., en var tekin aftur þar.