12.04.1954
Efri deild: 85. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af hálfu stjórnarinnar, menntmrn., snemma á þinginu, en hefur tafizt nokkuð og blandazt inn í það, sem von er, víðtækari bollaleggingar um alla afstöðu okkar varðandi það, sem nú er kallað vernd hugverka, og þar með starfræksla félagsins STEFS.

Út af fyrir sig er það þó sérstakt málefni, hvort menn treysta sér til og vilja veita þá auknu vernd á ritverkum, sem þetta frv. fjallar um og einungis er um aukna vernd á þýðingum frá því, sem verið hefur. Það er atriði út af fyrir sig. Hins vegar er sú aukna vernd forsenda þess, að því er fróðir menn hafa talið, að við getum gerzt aðilar að samningi við Bandaríkin um almenna vernd hugverka. En svo kynni að vera, að menn treystu sér alls ekki til þess að veita þessa auknu vernd rithöfundaréttarins, sem farið er fram á í frv., en óskuðu þó eftir því, að almennur samningur væri gerður við Bandaríkin. Á sama veg kann að vera, að menn telji rétt að veita þá auknu vernd, sem í lögunum segir, en vilji þó láta athuga betur, hvort gera eigi þennan samning við Bandaríkin. Um það er að vísu búið að samþ. sérstaka þál. í Sþ., en hugsanlegt væri, að ríkisstj. teldi, að áður en þeirri heimild værí beitt og þó að það frv. væri samþ., sem hér liggur fyrir, þá væri þetta mál enn allt í heild of óljóst til þess, að tímabært væri að gera samninginn við Bandaríkin, áður en frekari athugun ætti sér stað. Loks er það hugsanlegt, að menn telji rétt vera að samþ. þetta frv. og beita heimildinni um það að gera samninginn við Bandaríkin, sem þetta frv. er forsenda fyrir, að því er mér hefur verið tjáð, en telji þó rétt að rannsaka starfsemi félagsins STEFS alveg sérstaklega. Og því er ekki að neita, að það er óheppilegt fyrir þetta mál í heild og fyrir skilning á því, hversu mjög félagið STEF hefur dregizt inn í þessar umræður og hvern bægslagang að minnsta kosti sumir forustumenn þess hafa haft í frammi við þetta mál og gefið upplýsingar, sem vægast sagt eru sízt til þess lagaðar að gera mönnum grein fyrir, um hvað er að ræða.

Varðandi nauðsyn þess að gera þennan samning við Bandaríkin, — og samkvæmt því, sem fullyrt er, þá er samþykkt þessa frv. forsenda þess, að hann verði gerður, — þá er á það að líta, hvort við höfum tapað fé eða líklegt sé, að við töpum fé í náinni framtíð af því að hafa ekki gert þennan sérstaka samning við Bandaríkin. Hv. þm. Seyðf. gat þess, að hann vissi engin dæmi þess, að íslenzk ritverk hefðu verið þýdd á erlenda tungu að höfundi forspurðum og án þess að fengið væri leyfi til þess. Og það er kunnara en frá þurfi að segja, að fyrir nokkrum árum var þýtt ritverk eftir Halldór Kiljan Laxness á ensku og birt í Bandaríkjunum, og þó að við hefðum engan rithöfundasamning þá gert við Bandaríkin, fékk Halldór Kiljan Laxness greidd ritlaun — mjög rífleg ritlaun eftir okkar hugmyndum, þó að nú sé komið fram, eða því sé haldið fram a. m. k., að verulegur hluti þeirra hafi gengið til ýmiss konar umboðsmanna. En þetta dæmi virðist benda til þess, að okkur sé minni nauðsyn á því að gera þennan samning við Bandaríkin heldur en sumir vilja álíta. (Gripið fram í.) Já, vafalaust hefur verið þýtt þar eftir Gunnar Gunnarsson líka og hann fengið greiðslur þaðan, eftir því sem hv. þm. N-M., sem er því máli nákunnugur, nú segir frá. En í þessu sambandi er þó rétt að geta þess, að ég hef hér með höndum bréf frá einum helzta tónlistarmanni og tónskáldi íslenzku, þar sem hann skýrir svo frá, með leyfi hæstv. forseta (ég held, að það sé ekkert leynilegt í því bréfi að efni til, svo að það er rétt, að það komi hér fram):

„Forstjóri tónlistardeildar The Ameriean Scandinavian Foundation, New York, Mr. David Hall, hefur í bréfi til mín skýrt mér frá því, að tónverk eftir mig hafi verið leikið í útvarp frá Boston og endurvarpað af 60–80 stöðvum í Bandaríkjunum. Fyrir þetta eina verk, sem er alllangt, mundi ég hafa fengið allálitlega fjárhæð, ef verkið hefði notið verndar í Bandaríkjunum. Heyrt hef ég nefnda upphæð, sem svari 30–40 þús. kr., og var um það skrifað í eitt af dagblöðum bæjarins, en um þetta get ég þó ekkert fullyrt.

Nú er mér tjáð, að verk, sem leikið hefur verið þar í landi 6 mánuðum áður en verndarsamningar eru gerðir eða fyrr, verði þaðan í frá réttlaust með öllu í Bandaríkjunum. En nákvæmar upplýsingar um þetta hefur mér reynzt erfitt að fá.“

Þetta les ég úr bréfi þess ágæta tónskálds, sem hér á hlut að máli. Og ég verð að segja, að ef þær upplýsingar, sem hér eru gefnar, eru réttar, þá eru þar færð mjög veruleg og athyglisverð gögn fyrir því, að við eigum sem fyrst að gera þennan samning við Bandaríkin.

En málið er þó ekki svona einfalt, vegna þess að ég hef með höndum gögn frá STEFI, sem ekki verða skilin á annan veg en þann, að eftir þeim samningum, sem STEF hafi gert, muni ekki neitt af þessum tekjum hafa runnið til hlutaðeigandi tónskálds, heldur hafa runnið til ameríska STEFS, þannig að það, sem hér væri um að ræða, mundi þess vegna verða vernd, sem kæmi að gagni því ameríska STEFI, en ekki hinu íslenzka tónskáldi. Á reikning STEFS, sem er dags. 17. apríl 1953, er skrifað með hendi framkv.stj. þess félags, Jóns Leifs: „Þar sem gerðir voru samningar um jafnvirðisskipti við erlend sambandsfélög, var hætt greiðslum til STEFS frá útlöndum frá árinu 1952.“ Samkvæmt þessari yfirlýsingu, sem kemur heim við önnur gögn málsins, virðist vera ótvírætt, að STEF heldur þeim tekjum, sem það fær af allri tónlist leikinni hér í landi, en fær ekkert fyrir þá íslenzku tónlist, sem er leikin erlendis, meðan þeir samningar eru í gildi. Ég lét þess vegna spyrja STEF um það í morgun, hvort það væri rétt, að hlutaðeigandi íslenzkt tónskáld, sem ég vitnaði í áðan, mundi hafa fengið þetta fé frá Bandaríkjunum, eins og því hefur auðsjáanlega verið tjáð, og þá var byrjað með því að fullyrða, að svo mundi vera, að þetta fé mundi hafa runnið til hins íslenzka tónskálds. Ég gat því miður ekki sjálfur talað við þá menn, sem þessar upplýsingar gáfu, en þegar ég fékk þær upplýsingar, þá benti ég þeim fulltrúa mínum, sem annaðist upplýsingaöflunina fyrir mína hönd, á, að þetta kæmi í bága við þá yfirlýsingu STEFS, sem ég gat um hér áðan, og önnur gögn málsins og lét spyrja aftur, og þá fengust ákaflega loðin svör, nánast þau, að því er fulltrúa mínum skildist, að íslenzka STEF mundi hafa borgað þetta fé, en ameríska STEF væri alls ekki skyldugt til þess að endurgreiða hinu íslenzka STEFI þessa fjárhæð. Virtist þá svo sem þetta ætti að borgast af því fé, sem innheimt er hér innanlands, en mundi alls ekki koma utanlands frá, enda kemur það alveg heim við allar yfirlýsingar STEFS, því að það tjáir ekki að segja, að um jafnvirðisskipti sé að ræða og jafnvirðissamningar hafi verið gerðir og að við ættum svo engu að síður að heimta fé erlendis frá, ef eitthvað fé kemur þar inn. Þetta er þó því miður allt ákaflega óljóst og erfitt að gera sér grein fyrir, fyrir hvern er verið að vinna í þessu, a. m. k. í bili. Segja má að vísu sem svo, að varðandi langa framtíð hljóti að vera ljóst, að ef íslenzkir rétthafar njóti ekki verndar erlendis, þá sé ekki hægt að halda við þeim jafnvirðissamningum, sem gerðir hafi verið. En eins og þetta horfir í bili, þá á þessi röksemd ekki við, ef hinar almennu upplýsingar eru réttar, sem STEF hefur gefið.

Enn fremur hlýtur sú spurning að vakna, hvort íslenzkir rithöfundar gætu ekki alveg á sama hátt og bandarískir rithöfundar og listamenn njóta nú þegar verndar á Íslandi, af því að þeir hafa skráð verk sín í löndum, sem nú þegar hafa samninga við Ísland, notið verndar í Bandaríkjunum með því að láta skrá verk sín í einhverju þessara samningslanda. Mundi þá ekki það sama gilda gagnvart Bandaríkjunum, að það nægði að láta skrá verkin í þeim löndum, sem nú þegar eru búin að fá þessi réttindi í Bandaríkjunum? Þetta get ég ekki fullyrt um og veit ekkert um það, en ákaflega er eðlilegt, að menn hljóti að velta slíkri spurningu fyrir sér.

En aðalgallinn er sá, að það hefur auðsjáanlega alls ekki verið sagt a. m. k. til hlítar frá því hér eða stjórnarvöldum eða almenningi gerð grein fyrir öllum þeim réttarreglum og samningum, sem eiga sér stað um þessi efni, þannig að menn hafa algerlega rangar hugmyndir um það, hvað í öllu þessu felst, og þrátt fyrir þær umr., sem orðið hafa, og upplýsingar, sem ég hef reynt að afla mér, þá get ég ekki gert mér grein fyrir á þessu stigi, hvort við munum bíða tjón af því, ef þessari löggjöf verður nú frestað, eða ekki. Þegar ég bar frv. fram í haust, var ég sannfærður um, að það væri nauðsynlegt, eftir þeim upplýsingum, sem þá lágu fyrir, en samkvæmt þeim viðbótarupplýsingum, sem ég hef síðan fengið, og þeim ófullnægjandi greinargerðum, sem STEF hefur látið frá sér fara, þá skortir mig því miður í dag alla sannfæringu í þessu efni, en vil þó benda á, að það kann vel að vera, að í einstökum tilfellum kunnum við að missa einhvern rétt, ef þessi samningur er ekki gerður hið allra bráðasta. Þess vegna mundi ég telja það aukið öryggi, ef löggjöfin væri nú sett, þó því aðeins að menn treystu sér þá að standa við það að láta þýðingarnar fá þá mjög auknu vernd, sem með þessari löggjöf á að veita, vegna þess að í því felst auðvitað nýtt álag á íslenzka lesendur, — því er ekki að neita, — íslenzka bókakaupendur og jafnvel bókaútgefendur og blaðaútgefendur. Í því felst viss ný byrði, sem þessir aðilar taka á sig. Og eru menn þá reiðubúnir til þess að taka á sig þá byrði til þess að firra þeirri hættu, sem kynni að sannast að vera við það að láta nú málið enn dragast til frekari upplýsinga?

Þetta hef ég að segja um sjálft efni málsins, eins og það nú liggur fyrir. Varðandi hins vegar starfrækslu STEFS, sem — eins og ég segi — illu heilli, en þó kannske eðlilega, hefur mjög dregizt inn í þetta mál, þá vil ég fara um það efni nokkrum orðum vegna fyrirspurna hv. þm. Seyðf. til mín, fyrirspurna, sem ég er á engan veg undirbúinn að svara í dag, vegna þess að ég vissi ekki um, að þær lægju fyrir. En af því tilefni vil ég taka fram, að það er nokkur erfiðleiki á því að eiga skipti við STEF. Félagið er skyldugt innan vissra tímamarka að senda reikninga sína til menntmrn. Þau tímamörk varðandi reikninga fyrir síðasta ár eru nú fyrir alllöngu liðin, en sá reikningur er enn ekki kominn. Ég lét ganga eftir honum fyrir helgina og óskaði eftir, að hann lægi fyrir nú í dag, þegar ég vissi að þetta mál mundi verða til umr., og því var algerlega neitað og sagt, að hann væri alls ekki fyrir hendi.

Ég hafði einnig fyrir nokkru óskað eftir því að fá að sjá, ekki til almennrar birtingar, heldur til þess að rn. gæti betur áttað sig á, um hvað er að ræða, þá úthlutun til íslenzkra tónskálda, sem STEF hefur ekki alls fyrir löngu látið fram fara. Mér var algerlega neitað um að fá þessa úthlutun og sagt, að hún mundi ekki verða látin í té. Ég vil lýsa því hér, að ég tel, að þetta sé með öllu óviðunandi, og ef STEF stendur við það að neita rn. að kynna sér slík gögn, þá efast ég mjög um, að það sé verjanlegt vegna almennra hagsmuna að láta STEF halda þeirri löggildingu, sem félagið hefur haft, vegna þess að það er auðvitað forsenda fyrir þeirri löggildingu, að þeir, sem á henni bera ábyrgð, eigi þess kost að sjá, hversu miklar fjárhæðir hér er um að ræða og hvernig þeim sé varið.

En þess er þá einnig að geta, að jafnvel þeir reikningar, sem fyrir liggja frá þessu fyrirtæki, eru ákaflega ófullnægjandi. Það eru þó í þeim vissar eftirtektarverðar upplýsingar, eins og t. d. að 1949 — og þá voru tekjurnar alls samkvæmt reikningnum rúmlega 128 þús. — voru tekjur af flutningi erlendis þó ekki meiri en 1273 kr. Það var áður en þessi jafnvirðissamningur var gerður. 1950 voru tekjur af flutningi erlendis um 2510 kr., en tekjur félagsins alls rúmar 132 þús. kr. 1951 eru tekjur félagsins alls tæpar 150 þús., en tekjur af flutningi erlendis 1940 kr. Árið 1952 voru tekjur af flutningi erlendis 381 kr., en tekjur félagsins alls 416 þús. kr., en á því ári kemur þessi jafnvirðissamningur til greina, og eftir að hann kemur til greina, þá eiga Íslendingar ekki að fá neitt erlendis frá, svo að það er von, að sú fjárhæð á því ári væri lítil.

Við sjáum, að tekjur félagsins stóraukast á árinu 1952, en það er ákaflega erfitt að átta sig á, hvaðan tekjurnar koma, vegna þess að þar stendur „tekjur frá 1950 og 1951“ án nokkurrar nánari greinargerðar, og þær eru 184 þús. Tekjur af útvarpsflutningi o. fl. 1952 eru 231 þús. rösklega, vextir 201 kr. og svo þessi smáræðisupphæð erlendis frá. Slík reikningsgerð er nánast sagt einskis virði, þannig að menn standa þarna í raun og veru frammi fyrir því, að það er komin hér stofnun, sem fær mikið fé í hendur í skjóli löggjafans og sérstakrar löggildingar, án þess að hún geri nokkra grein fyrir því, hvaðan peningarnir eru komnir. Á þessu ári, 1952, þegar tekjurnar eru þessar, sem ég segi, þá virðist mér, að úthlutað hafi verið til íslenzkra rétthafa 36 þús. kr. rösklega. En hins vegar er óráðstafað í árslok rúmlega 222 þús. kr., sem þá hefur sennilega verið úthlutað á árinu 1953. Þeir reikningar eru ekki komnir fram enn þá, og þó að hinn lögorðsbundni dagur sé fyrir alllöngu liðinn, hefur menntmrn. beinlínis verið neitað um greinargerð fyrir, hvernig þeirri úthlutun hafi verið varið. Á því ári, 1952, þegar allar tekjurnar eru 416 þús., — þar af eru 184 þús. frá árunum 1950 og 1951, — er kostnaðurinn við reksturinn 193 þús. kr., þannig að ef um væri að ræða einungis taldar tekjur af árinu 1952, þá mundi það ekki gera miklu meira en standa undir kostnaðinum við reksturinn.

Ég skal ekki ræða um þetta frekar. Ég get ekki svarað í einstökum atriðum þeim spurningum, sem fram voru lagðar, vegna þess að ég átti ekki von á því, að þær kæmu hér fram, og vegna þess að það verður að segja þá sögu eins og hún er, að STEF hefur neitað að láta mér í té nægileg gögn, til þess að ég geti með nokkru móti skynsamlega áttað mig á þessu máli eða gert í því nokkrar rökstuddar till. til Alþ. á þessu stigi málsins. Það tjáir auðvitað ekki fyrir stofnun, sem slík hlunnindi hefur eins og STEF, að ætla að neita stjórnarvöldum um þá samvinnu, sem STEF hefur nú neitað menntmrn. um, og í stað þess einungis með skömmum og yfirlýsingum í blöðum að reyna að hræða menn til þess að fylgja máli, sem í raun og veru enginn áttar sig á, hvers eðlis er. Það er auðvitað alveg rétt og nauðsynlegt, að hugverk íslenzkra listamanna, rithöfunda og tónskálda eiga að fá fulla vernd, en við verðum að átta okkur á, hvers eðlis sú vernd er. Og enn þá hefur þessi vernd ekki orðið til þess, eins og talið var, sérstaklega að greiða fyrir „útflutningi íslenzkra andlegra afurða,“ eins og einhver komst svo smekklega að orði, heldur til þess, að erlendar „andlegar afurðir,“ sem menn áður tóku sér hér kannske á meira og minna rangfenginn hátt til notkunar innanlands án þess að greiða mikið fyrir, eru nú fullu verði greiddar. Að vísu fá ekki hinir erlendu rétthafar þessar greiðslur enn þá til sín nema að mjög litlu leyti, heldur er það tiltekin stofnun íslenzk, sem tekur tekjurnar til sín og ráðstafar þeim á þann veg, að hún neitar að láta íslenzk stjórnarvöld fylgjast með því til nokkurrar hlítar, hvernig það er gert.

Ég tel þess vegna, og það er það eina, sem ég get sagt í þessu, að það sé brýn nauðsyn af hálfu þess opinbera, að grandskoðuð sé starfsemi STEFS. Ég held því ekki fram, að þar eigi sér stað neitt ólögmætt eða allra sízt nokkuð „kriminelt“, — ég vil taka það alveg skýrt fram, að í því, sem ég segi, felst ekki nokkur aðdróttun um það, — en það er ljóst, að hér er undir opinberri vernd verið að reka þá starfrækslu, sem er alveg nauðsynlegt að hið opinbera fái betri kost á að fylgjast með heldur en því nú er veittur, og ef STEF fæst ekki til gagnkvæmrar samvinnu við ríkisvaldið um þetta, þá verður ríkisvaldið að segja upp samvinnunni af sinni hálfu.