30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2293)

2. mál, firma og prókúruumboð

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Eftir þessu var ég einmitt að bíða. Hv. frsm. meiri hl. er nú búinn að viðurkenna þörfina á því, að sýslumenn taki þessi plögg, fari í gegnum þau og annist þau, og trúir þeim bezt til, að þá verði vel greitt fyrir þeim, sem erindi eiga um þessar félagsstofnanir, ef þeir annast það, en þá vil ég, að þeir hafi þetta óskorað að öllu leyti í sínum höndum. Ég skil ekkert í þessu vantrausti, sem kemur fram hjá hv. frsm. til sýslumanna og bæjarfógeta um ekki margbrotnara framkvæmdaratriði heldur en þetta þó er, því að há-júridiskt er það þó ekki nema á smápörtum, að hann skuli ekki treysta þeim að annast þetta, svo að allt sé löglegt. Og nú fer mig að undra, ef hv. þm. Siglf., minn góði samnefndarmaður, þolir öllu lengur, að það sé hallað svona á hróður sinnar eigin stéttar.

Ég þarf nú ekki að fjölyrða um þetta. Ég veit, að hv. þdm. gæta þess, að sýslumannastétt landsins og bæjarfógetum verði sýnd fyllsta tiltrú í þessu máli.