16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

3. mál, hlutafélög

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Mig og hv. 3. þm. Reykv. greinir á um það, hvorum á að treysta betur í sambandi við tölu stofnenda hlutafélaga, borgarfógetanum í Reykjavík eða hæstaréttardómurunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur falið að semja drög að þeim lögum, sem hér liggja fyrir til umr.

Ég get að sjálfsögðu ekki fremur en hann skorið úr um það, hvorum þessara manna sé betur treystandi til að fara hér með það rétta.

Reynsla hinna nýju laga verður að sjálfsögðu að skera úr um það. En eins og ég sagði í n. og hv. 3. þm. Reykv. er vel kunnugt um, þá taldi ég þau rök, sem hæstaréttardómararnir færa fyrir hækkun stofnendanna, svo mikilvæg, að fram hjá þeim yrði ekki gengið, það væru möguleikar á því með fimm manna stofnendafjölda að reka raunverulegt einkafyrirtæki í skjóli hlutafélags, eins og þeir benda skilmerkilega á í sinni grg., og ég held fast við þá skoðun mína enn. Ég tel, að með því að hækka þetta, þótt ekki sé nema um tvo, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá sé það til mikilla bóta, og vænti þess, að þingmenn verði við þeim óskum, sem hæstaréttardómararnir leggja fram og færa hin skilmerkilegustu rök fyrir. Það hafa ekki komið af hálfu hv. frsm. og formanns n., 3. þm. Reykv., þau gagnrök gegn rökum hæstaréttardómaranna, að það geti á nokkurn hátt hafa verið hrakin þeirra rök. Ég held því enn þá, eins og ég sagði í upphafi, fast við þá skoðun mína, að hæstaréttardómararnir og smíðir þessa frv. hafi hér mun sterkari rök fyrir sínu máli heldur en færð hafa verið fyrir lækkun stofnendafjöldans í fimm.