18.03.1954
Neðri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

3. mál, hlutafélög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var eitt atriði, sem ég hafði minnzt á hér við 2. umr. þessa máls og beðið þá hv. n., sem þetta mál hefur til meðferðar, allshrn., að athuga, hvort hún gæti í sambandi við sína athugun á frv. frekar á milli umræðna tekið nokkurt tillit til. Það var um breyt. á 6. gr. laganna, þar sem svo mælir fyrir, að enginn geti á hluthafafundi farið með fyrir sjálfs sín hönd og annarra meira en 1/5 hluta samanlagðra atkvæða í félaginu.

Ég benti á, að með þessum lögum væru gerðar nokkrar prinsipialar breytingar á hlutafélögunum, þannig að það væri gengið út frá því í 4. gr., að ekki aðeins einstaklingar, heldur líka félög, stofnanir og aðrir ópersónulegir aðilar, gætu orðið stofnendur hlutafélaga. Þetta hefur ekki verið hingað til. Með þessu er sem sé í sjálfri löggjöfinni verið að ganga út frá því að veita þessum aðilum meiri rétt en verið hefur hingað til. Við vitum, að meira að segja þegar hið svo kallaða hlutafélag Áburðarverksmiðjan á Íslandi er stofnað, þá getur ríkið ekki verið stofnandi, þótt það með lögum stofni áburðarverksmiðjuna, heldur eru til kallaðir nokkrir menn utan úr bæ, setjast á skrifstofu úti í bæ og stofna áburðarverksmiðjuna og eru síðan tilkynntir í Lögbirtingablaðinu sem stofnendur, en ríkið sjálft ekki einu sinni sem stofnandi.

Þegar okkar hlutafélagalög voru upphaflega mynduð, voru þau vafalaust, eins og margt af okkar löggjöf, sniðin eftir þeirri löggjöf, sem tíðkast erlendis, sem sé löggjöf um hlutafélög í venjulegum kapítalistískum löndum. Hér heima hjá okkur á Íslandi hefur hins vegar þróunin í þessum efnum orðið ákaflega ólík því, sem er í öðrum löndum, eða a. m. k. öðrum löndum, sem teljast annars hvað efnahagsgrundvöll snertir kapítalistísk. Hér á Íslandi hefur þátttaka ríkisins, bæjarfélaganna og jafnvel samvinnufélaganna í almennum atvinnurekstri og verzlun orðið miklu meiri en tíðkast í okkar nágrannalöndum. Og það er enginn efi á því, að þessi þróun er heilbrigð, að þessi þróun hefur verið lyftistöng undir atvinnuvegina á Íslandi, og aldrei hefur þó kveðið meira að einmitt þessari þróun, að bæjarfélögin, samvinnufélögin og önnur slík reyndu í samstarfi við einstaklinga að koma á nýjum atvinnugreinum, stofna ný félög til verzlunar og atvinnurekstrar, heldur en á nýsköpunartímabilinu. Þau togarafélög, sem þá voru mynduð víða úti um land til þess að gera fjöldanum öllum af bæjum mögulegt að hafa þau stóru framleiðslutæki sem togararnir eru, voru mestmegnis ýmist beinlínis bæjarútgerð eða eign hlutafélaga, sem bæjarfélagið sjálft, venjulega kaupfélagið á staðnum og einstaklingar voru sameiginlega eigendur í og hluthafar. Þetta form var mjög eðlilegt, og það var að mörgu leyti heppilegt. Og það er æskilegt að geta stutt að þessu samstarfi. Hins vegar fer svona samstarf þó nokkuð langt út fyrir það venjulega form, sem hlutafélögin hafa. Og þegar maður ætlar að viðurkenna svona samstarf hér á Íslandi, ýta undir það og stuðla að því, þá verður maður að taka tillit til þess í löggjöfinni líka. Þarna rekst hlns vegar á þetta ákvæði um, að enginn megi á hluthafafundi fara með meira en 1/5 hluta samanlagðra atkvæða í félaginu. Út frá hvaða sjónarmiði er þetta sett upphaflega í löggjöfina? Þetta er sett frá því sjónarmiði upphaflega í löggjöfina að hindra, að einstakur ríkur maður geti sölsað undir sig allt vald í viðkomandi hlutafélagi, þannig að þó að einhver efnaður eða auðugur maður eigi meira en 1/5 hluta hlutafjár, þá skuli hann ekki njóta þess hvað hlutafélagið snertir að eiga svo mikið. Hann fer kannske stundum í kringum það með því að skipta því niður á sína fjölskyldu eða annað slíkt, en hugsunin, sem liggur á bak við, er að hindra yfirráð einstakra, auðugra einstaklinga. Hvernig kemur þetta hins vegar út, þetta ákvæði um 1/5 hluta, að enginn megi fara með meira, þegar átt er við félög, þar sem bærinn sjálfur, samvinnufélög eða ríkið eru eigendur að máske helmingi hlutafjárins? Hvað er bæjarfélagið eða samvinnufélagið undir slíkum kringumstæðum? Bæjarfélag — við skulum taka hvort heldur væri t. d. í útgerðarfélagi Akureyrar eða hvaða öðru útgerðarfélagi úti um land sem er er fulltrúi fyrir mörg þúsund einstaklinga, fyrir allan fjöldann í þessu hlutafélagi. Það þýðir m. ö. o., að bæjarfélagið er í þessu sambandi raunverulega mörg þúsund einstaklingar. Sama gildir um samvinnufélögin. Hvað þýðir þess vegna ákvæðið um að takmarka áhrif hlutafjárins, sem bæjarfélagið eða samvinnufélagið hefur á hendi? Það þýðir að rýra áhrif fjöldans í viðkomandi fyrirtækjum, þ. e. rýra áhrif þeirra mörgu hluthafa, sem bæjarfélagið eða samvinnufélagið raunverulega er fulltrúi fyrir, m. ö. o.: það gengur þvert á móti anda þess, sem vafalaust hefur vakað fyrir þeim, sem upprunalega settu ákvæðið um 1/5 hlutafjár inn í hlutafélagalögin. Þegar þessu ákvæði er beitt gagnvart bæjarfélögum, samvinnufélögum eða ríkinu, þá þýðir það beinlínis að draga úr og minnka áhrif fjöldans, en hjálpa til að auka áhrif þeirra einstaklinga og þá sérstaklega þeirra voldugu einstaklinga, sem þarna eiga í hlut. Þetta hefur líka sýnt sig að verka alveg í þá átt. Og þetta verður til þess meira að segja sums staðar, þar sem bæjarfélög eiga máske helminginn af hlutafé í viðkomandi fyrirtæki, að bæjarfélagið hefur alls ekki áhrif að sama skapi, sem sé fjöldinn fær alls ekki áhrif að sama skapi.

Ég álít þess vegna, að þarna eigi að gera breytingu á. Ég álít, að þessi ákvæði megi halda sér eins og þau eru, þegar um er að ræða hina einstöku hluthafa, einstaklinga, sem eiga meira en 1/5 hluta hlutafjárins, — þá sé ekki rétt að gefa þeim þetta vald, — enda vitum við, hvernig þeir fara oftast í kringum það. En ég álít, að þegar um er að ræða bæjarfélög og samvinnufélög, sem sé fjöldann allan, er sem heild leggur þarna fram hlutaféð, þá eigi að undanþiggja þá undan þessu ákvæði. Ég vil þess vegna leyfa mér að bera fram brtt. þess efnis við 60. gr., að aftan við 3. málsgr. bætist þessi orð: „nema eigendur hlutabréfanna séu ríkið eða ríkisstofnanir, bæjar- eða sveitarfélög og samvinnufélög.“ Þá yrði gr. þannig í heild: Enginn getur á hluthafafundi farið með fyrir sjálfs sín hönd og annarra meira en 1/5 hluta samanlagðra atkvæða í félaginu, nema eigendur hlutabréfanna séu ríkið eða ríkisstofnanir, bæjar- eða sveitarfélög og samvinnufélög.

Nú má vel vera, að í sumum af þeim útgerðarfélögum, sem ég sérstaklega hef hugsað um í þessu sambandi og þegar eru til, séu ákvæði í stofnsamningi, sem séu samkomulag á milli stofnenda um einhvern annan hátt á, og að svo miklu leyti sem slíkur háttur brýtur ekki í bága við lög, getur slíkt máske haldizt. Hins vegar, að svo miklu leyti sem ný félög yrðu mynduð með þessu fyrirkomulagi sem hlutafélög, þá mundi þetta ákvæði gilda, ef þetta væri samþykkt. Og ef til vill yrði á ýmsan hátt hægt að laga þetta með góðu samkomulagi, ef lögunum yrði breytt eins og ég legg til, í þeim félögum, sem nú þegar eru starfandi.

Ég vil jafnframt benda á það, að ríkið sjálft, þegar það gerist þátttakandi í hlutafélagi, áskilur sér þann rétt, sem ég hér fer fram á að bæjarfélög og samvinnufélög hafi. Ríkið, þegar það stofnar Útvegsbanka Íslands h/f eða rekstrarfélagið um áburðarverksmiðjuna, áskilur sér með lögum, að það skuli ekki bundið af þessu ákvæði hlutafélagalaganna, að þess atkvæðisréttur og hlutabréfa ríkisins takmarkist við 1/5. M. ö. o.: Ríkið, af því að það er um leið aðilinn, sem setur lögin, undanskilur sjálft sig, þegar það tekur þátt í hlutafélögum. En um hinar smærri heildirnar á Íslandi, bæjarfélögin, er ekki hugsað í þessu efni. Það álít ég hins vegar að við eigum að gera, þegar við erum að afgreiða þetta mál.

Þá vil ég enn fremur benda á annan hlut í þessu efni, sem ég líka minntist á við 2. umr. málsins. Það er viðvíkjandi samvinnufélögunum og S. Í. S. og þeim hlutafélögum, sem forráðamönnum Sambandsins hefur þótt skynsamlegt að láta Sambandið stofna á undanförnum árum. Það er vitanlegt, að í þessum hlutafélögum, sem S. Í. S. hefur stofnað og er stærsti eigandinn í, mundi lögfræðilega séð ríkja ófremdarástand, svo framarlega sem kæmi til einhvers háttar klofnings í S. Í. S. eða innbyrðis deilna þar, þar sem væru viðriðnir þeir menn, sem nú teljast hluthafar í hlutafélögum Sambandsins til þess að fullnægja hlutafélagalögunum. Það er hreinasta vandræðaástand, þegar ástandið er þannig, að það eru fimm hluthafar eða sex, fimm af þeim eru einhverjar persónur, máske starfsmenn t. d. Sambandsins, og sjötti aðilinn, sem ekki er stofnandi, er Samband ísl. samvinnufélaga, og síðan eru það þessir hluthafar, sem raunverulega geta ráðið að svo og svo miklu leyti, ef þeir vildu það við hafa, á ýmsum hluthafafundum, og ekki sízt mundu þeir skipa stjórn slíks sambands. Þó að það geti að vísu nokkuð lagazt með þeim breytingum, sem hér yrðu gerðar á, að aðrir en einstaklingar geti verið beinir stofnendur, þá yrði það þó ekki lagað í þeim, sem þegar hafa verið stofnuð. Við skulum segja, að klofningur væri í Sambandinu eða eitthvað slíkt, t. d., — án þess að ég sé að spá slíku eða óska slíks, — að Sjálfstfl. væri að taka meiri hluta í S. Í. S. og Framsfl. væri ekkert ánægður með það og vildi gera ýmsar breytingar. Það hefur komið fyrir, að það hafa viljað verða pólitískar breytingar á ýmsum sviðum. Við þekkjum það t. d. í sambandi við eign fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna hér í Reykjavík á alþýðuhúsunum hér. Þá þótti þeim, sem í augnablikinu höfðu völdin, skynsamlegt að breyta þeim í hlutafélög. Þá átti þetta nú að vísu að vera til þess að tryggja yfirráð Alþfl. yfir þeim, en svo sýnir sig áratug seinna, að jafnvel þó að Alþfl. vilji fara að ráða yfir slíku hlutafélagi, þá eru það raunverulega að mestu leyti einstakir menn, sem geta ráðið yfir hlutafélaginu. Ég er nú ekki að minnast á þetta með Sambandið vegna þess, að ég telji yfirvofandi hættu á því, að Sjálfstfl. taki þar meiri hluta, eða út af því, að það geti neinar breytingar þannig orðið. En ég minnist á þetta frá hinu sjónarmiðinu, að þegar lög eru sett, þá á löggjafinn að sjá fyrir þær hugsanlegar breytingar, sem gætu orðið, og þau vandræði, sem kynnu að myndast, svo framarlega sem lögín gerðu ekki ráð fyrir því. Undir svona kringumstæðum gæti ég vel hugsað mér, að það yrði hreinasti glundroði viðvíkjandi slíkum hlutafélögum, ef t. d. S. Í. S. á einhvern hátt væri að klofna eða einhver átök væru þar í, án þess að ég búist við slíku eða óski þess. Þetta er þess vegna alveg óviðunandi fyrirkomulag, að svo framarlega sem samvinnufélögum, sambandi samvinnufélaga eða slíkum þykir nauðsynlegt að hafa hlutafélagsform af einhverjum ástæðum á sínum fyrirtækjum eða fyrirtækjum, sem það tekur þátt í, þá sé það ekki að öllu leyti jafnrétthár aðili og aðrir.

Ég skal svo aftur minna á í þessu sambandi, — mér er að vísu ekki kunnugt, hvernig hlutafjárskiptingin er t. d. í Olíufélaginu, en allir vita, að Sambandið er þar stór hluthafi, og Sambandið, sem í slíku sambandi er fulltrúi yfir 20 þús. einstaklinga, á náttúrlega að geta fyllilega notið síns réttar í hlutfalli við sitt hlutafé.

Ég álít þess vegna, að ef við viljum reyna að halda áfram því formi, sem verið hefur hér á Íslandi, þessu sérkennilega formi á margan hátt, sem verið hefur fyrir kapítalismann hér heima, að þátttaka opinberra stofnana og samvinnufélaga sé þar meiri en annars tíðkast i hinum kapítalistíska heimi, þá sé rétt fyrir okkur að gera ráð fyrir þessu. Ég álít, að við eigum að ýta undir það, að bæjarfélögin og samvinnufélögin geti tekið þátt í svona atvinnurekstri og geti notið sín sem sá fjöldi, sem stendur á bak við hann. Ég álít, að þessi ákvæði hafi upprunalega verið sett til verndar gegn auðvaldi, til verndar gegn yfirgangi einstakra auðmanna. En ég álít, að með því að beita þeim gagnvart bæjarfélögum og samvinnufélögum notist þetta ákvæði til þess að minnka rétt fjöldans, til þess að minnka rétt fjöldasamtakanna. Mér þykir leitt, að hv. allshn. skuli ekki hafa getað orðið við þeim tilmælum að athuga þetta eða verða mér sammála um það, en ég mun þá leggja þessa brtt. mína fram nú skriflega og biðja hæstv. forseta að leita fyrir henni afbrigða.