12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2409)

165. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fjölyrða mjög um þetta mál. Nefndin leggur til einróma, að bætt verði inn á frv. þeim umsækjendum um ríkisborgararétt sem skráðir eru á þskj. 809.

Okkur var tjáð í allshn., að hv. allshn. Ed. hefði lagt til grundvallar fyrir till. sínum um veitingu ríkisborgararéttar, að ef um erlenda einstaklinga væri að ræða, þá hefðu þeir átt heima og dvalið hér á landi í 10 ár, en ef um hjón væri að ræða, útlenda karlmenn, sem hefðu kvænzt íslenzkum konum, eða útlendar konur giftar íslenzkum karlmönnum, þá hefðu þeir átt hér heima í þrjú ár frá giftingu hið minnsta, hvað sem dvöl þeirra leið svo að öðru leyti. Þetta sjónarmið hefur ráðið till. okkar í allshn. þessarar hv. deildar. Við töldum rétt, að það væri samræmi í gerðum eða samþykktum deildanna um þetta efni, og á þessum grundvelli eru okkar till. byggðar.

Ég vil svo í sambandi við þetta mál taka það fram, að allshn. þessarar hv. d. er þeirrar skoðunar, að sýna beri nokkra varúð í veitingu ríkisborgararéttar, að þegar Alþ. veiti hann, þá séu allmiklar líkur fyrir því, að hlutaðeigandi fólk, hvort sem um einstaklinga eða hjón eða fjölskyldur er að ræða, ætli að setjast hér að, hafi tekið sér bólfestu fyrir fullt og allt, og að sjálfsögðu séu uppfyllt önnur þau skilyrði, er þessi löggjöf setur fyrir veitingu ríkisborgararéttar, svo sem að maðurinn hafi, hvort sem það er karl eða kona, getið sér góðan orðstír, sé útlit fyrir, að þar sé um góðan og gegnan mann og trúan þegn að ræða; þess vegna sé óvarlegt að veita ríkisborgararéttinn, nema menn hafi um nokkurt skeið a. m. k. haft kynni af þessu fólki, sem um hann sækir. Á þessum grundvelli eru till. nefndarinnar byggðar.

Ég skal svo geta þess, að ég hef tekið eftir því á einni umsókn frá útlendingi, sem hér á hlut að máli og n. leggur nú til að öðlist ríkisborgararétt, að kona hans, sem er íslenzk, hefur síðan giftingin fór fram tapað sínum ríkisborgararétti, og vera má, að þannig sé ástatt um einhverja fleiri, ég hef ekki haft tóm til þess að aðgæta það. Þetta er auðvitað fyrir hlutaðeigandi fólk ákaflega auðvelt að fá leiðrétt. Samkvæmt hinum almennu lögum um veitingu ríkisborgararéttar þurfa menn ekki annað en að sækja um slíkt til ríkisstj., og þá verður þeim látinn ríkisborgararétturinn í té.

Hér liggja fyrir allmargar till. frá einstökum þm. Við höfum tekið til greina nokkuð af þeim. Þannig er um till., sem hv. 2. þm. Rang. hefur flutt, enn fremur um till., sem hv. þm. Ak. hefur flutt, og aðra till. hv. 2. þm. Eyf.; við höfum tekið hana til greina, en hina ekki, því að þar skortir á, að uppfyllt væru þau skilyrði, sem n. lagði til grundvallar fyrir till. sínum.

Um aðrar till. hv. þm. hirði ég ekki að svo komnu að fjölyrða. Ég get sagt almennt, að það fólk skortir allt skilyrði til þess að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt eftir þeim grundvelli, sem n. hefur haft til þess að byggja till. sínar á.