07.12.1953
Efri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

15. mál, sjúkrahús o. fl.

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti.

Frv. þetta er um breyt. á l. um sjúkrahús. Var það undirbúið af hæstv. ríkisstj., en er samið af landlækni. Talið er eftir áætlun landlæknis, að kostnaður ríkissjóðs vegna samþykktar frv. muni á næstu árum nema um 1750000 kr., en styrkurinn er misjafnlega hár til hinna ýmsu sjúkrahúsa, eins og frv. ber með sér. En til frádráttar þessu koma um 160 þús. kr., sem eru veittar eins og stendur til fjórðungssjúkrahúsa. Af því að sjúkrahús þau, sem frv. ráðgerir að fái styrk, eru ekki öll tekin til starfa, er ekki líklegt, að það verði hærra á næsta ári en 850 þús. kr., en hækki svo smám saman, eftir því sem ný sjúkrahús koma í notkun.

Ástæðan til þess, að frv. þetta er fram komið, er sú, að héruð þau, er sjúkrahús reka, gera ráð fyrir miklum rekstrarhalla, og fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur ekki tekið til starfa enn þá, vegna þess að forráðamennirnir treysta sér ekki til að reka það með þeim rekstrarhalla, sem gert er ráð fyrir eins og á stendur. En verði frv. þetta samþ., mun rætast úr þeim fjárhagsörðugleikum, svo að dugi til þess að rekstur geti hafizt þar, og mun svipað hægt að segja um fleiri sjúkrahús.

Þessar stofnanir eru mjög dýrar í rekstri, svo sem kunnugt er. Eins og nú er, getur hvert sveitarfélag byggt sjúkrahús með byggingarstyrk og rekstrarstyrk. En þegar ríkissjóður tekur á sig meiri og meiri þunga af þessum kostnaði, væri ekki óeðlilegt, að Alþ. og ríkisstj. hefðu afskipti af því, hvar sjúkrahús yrðu reist. Annars ætla ég ekki að fara lengra út í þetta mál, en einskorða mig við nál., en eins og það ber með sér, er það samþ. af öllum nm.

Eins og á stendur, virðist nauðsynlegt að gera eitthvað til þess, að sjúkrahúsin verði starfrækt, en það útilokar engan veginn, að endurskoða þurfi lög um sjúkrahús, áður en langt um líður.