23.11.1953
Neðri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Ég var kominn þar síðast í ræðu minni að athuga nokkuð 8. gr. og var búinn að ræða um, hvaða frelsi það væri, sem þarna væri boðað viðvíkjandi íbúðarhúsabyggingunum, og hvað miklar takmarkanir væru á því, og ætla nú ekki að endurtaka það.

En ég hafði í þessu sambandi nokkuð minnzt á, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsaði sér að haga til um fjárfestingareftirlitið, sem getið er um í síðari hluta 8. gr., hvað snertir þá fjárfestingu, sem leyfi þarf til. ýmist íbúðarhúsa, sem eru stærri en þetta, eða þá alls konar atvinnufyrirtækja. Og það var eitt sérstaklega í sambandi við þetta, sem ég hafði minnzt á, og það var, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsaði sér að koma fyrir stjórninni á þessu eftirliti.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á því, að vaninn er sá, þegar um er að ræða venjulegar skrifstofur ríkisins, við skulum segja vegamálaskrifstofu, vitamálaskrifstofu eða annað slíkt, að þar er settur yfir einn embættismaður, og hann er raunverulega settur í trúnni á þann gamaldags heiðarleik embættismanna, að einn embættismaður skoði það sem sitt verkefni að eiga að þjóna þjóðarheildinni í þessu starfi, og hann er undirgefinn þá opinberu gagnrýni, sem er í sambandi við allt hans starf. Nú segist hæstv. ríkisstj. vilja spara, og í staðinn fyrir að hafa nú svo og svo stóra nefnd eins og áður á nú að setja tvo menn. Mér liggur við að spyrja: Af hverju eru mennirnir tveir? Af hverju er það ekki einn? Er það máske vegna þess, að stjórnarflokkarnir séu tveir og stjórnarflokkarnir geti ekki komið sér saman um, að það sé einn maður, sem stjórnar þessu? Ef um væri að ræða vegamál eða vitamál eða eitthvað þess háttar, þá mundi ríkisstj. varla detta í hug að leggja til, að það væru tveir forstjórar, þá mundi henni finnast sjálfsagt, að það væri einn maður, sem bæri ábyrgð gagnvart ríkisstj. og gagnvart þjóðinni. En af hverju vilja þeir hafa tvo í innflutningsskrifstofunni, þegar þeir ætla að fara að spara svona mikið? Er það máske vegna þess, að stjórnarflokkarnir treystu sér ekki til þess að finna nokkurn einn mann, sem þeir gætu treyst báðir? Eða liggur þannig í því, að svo framarlega sem stjórnarflokkarnir fyndu einn mann, sem þeir gætu treyst báðir til þess að hafa stjórn innflutningsskrifstofu, þá væru þeir hræddir um, að svoleiðis maður væri það heiðarlegur, að hann tæki líka tillit til annarra borgara þjóðfélagsins, sem ekki væru máske skjólstæðingar Sjálfstfl. eða Framsfl.? Mig langar til þess að vita, hvernig í þessu liggur.

Ég hef áður rakið allar þær mörgu nefndir, sem til samans hafa verið í þessu þessi síðustu 20 ár. En þegar byrjað var á því, þá þótti eitt sjálfsagður hlutur, og það var að reyna að koma í veg fyrir, að í sambandi við stjórn og allt það vald, sem er á svona málum, væri hugsanlegt, að mönnum dytti í hug nokkur misnotkun eða að þjóðin gæti grunað stjórnarvöldin um misnotkun á sínu valdi í sambandi við innflutninginn. Ég veit, að það er meira vald lagt í bendur þeirra manna sem með þennan innflutning hafa að gera, heldur en nokkurra annarra manna í þjóðfélaginu, jafnvel oft og tíðum meira en ríkisstjórnarinnar. Þess vegna þótti eðlilegt fyrst, þegar byrjað var á þessum innflutningsskrifstofum, að það væru nefndir, sem þarna stjórnuðu og væru tilnefndar t.d. af ýmsum opinberum samtökum í landinu, S.Í.S., Alþýðusambandi Íslands, Verslunarráði Íslands, að almenn samtök, líka útvegsmanna og annarra, tilnefndu þarna menn til að stjórna þessu. Og tilgangurinn var með þessu að reyna að tryggja það, að allir borgarar þjóðfélagsins fyndu sig jafnréttháa gagnvart þessari stofnun. Þegar sá háttur var tekinn upp, að að einhverju leyti var farið annaðhvort að kjósa menn af Alþingi eða tilnefna af hálfu ríkisstj., þá þótti lengst af, meðan sæmilega heiðarlega var stjórnað í landinu, sjálfsagt, að við slíka stjórn eins og á innflutningsmálunum hefðu allir aðilar fulltrúa, ýmist hin almennu samtök almennings eða allir þingflokkar, eða a.m.k. þannig, að ef stjórnarandstaðan væri það sterk, að hún hefði aðstöðu til þess að hafa áhrif á slíkt, þá hefði hún fulltrúa þar. Nú á í fyrsta skipti alveg gersamlega að þurrka þetta út. Ég skal taka það fram um leið, að þegar fjárhagsráð var sett — mér var fullkunnugt um það allt saman — og fimm manna nefnd var sett þar, þá var það upphaflega meiningin, — og ég skal færa sönnur á það, ef ríkisstj. óskar eftir því, — þá var það upphaflega meiningin, þó að það væru þá þrír flokkar í ríkisstj. hér á Íslandi, að stjórnarandstaðan hefði þar líka fulltrúa, og það liggur fyrir yfirlýsing frá þáverandi forsrh., Stefáni Jóh. Stefánssyni, um það hér á Alþingi. Það var ekki fyrr en ameríska ríkisstj. greip inn í í júní 1947 og breytti þeim ákvörðunum, að það var tekin ákvörðun um að hafa eingöngu stjórnarfulltrúa þá. Það voru þá um 4/5 hlutar þingsins og um 4/5 hlutar þjóðarinnar, sem stóðu að þeirri ríkisstj., ríkisstj. Stefáns Jóhanns, og maður gat sagt, að það væri þess vegna hlutfallslega mjög sterk stjórn. Nú á auðsjáanlega að breyta þarna til alveg prinsipialt. Það eru ákveðnir tveir menn. Ég bað um upplýsingar um það áðan, af hverju það væri ekki einn, fyrst stjórnin vildi spara svona mikið, og gat mér til, að það kynnu að vera tveir vegna þess, að það væru tveir flokkar í stjórninni, og eftir mínum kunnugleik mundi mér detta í hug, að ef þeir væru þrír, þá væru kosnir þrír menn þar. En nú á sem sé að taka þá ákvörðun, að nú eru það stjórnarflokkarnir tveir, sem eiga að skipta þessu á milli sín, tvímenna þarna, skoða þjóðina eins og eins konar bráð, innflutninginn eins og eins konar bráð, veiði, sem þeir hafa komizt í til að skipta á milli sín.

Ég vil minna hæstv. ríkisstj. á, að þessir tveir stjórnarflokkar hafa ekki nema rúmlega 60% af þjóðinni á bak við sig. Stjórnarandstaðan hér á Alþingi hefur upp undir 40% af þjóðinni á bak við sig. Ég vil vekja athygli á því, að það er ekki alveg óeðlilegt, að sá grunur komi upp, ef stjórnarflokkarnir ætla að skipa þarna tvo menn til þess að stjórna öllum þessum innflutningi, að það eigi að beita því valdi sérstaklega með tilliti til hagsmuna stjórnarflokkanna og þeirra fésýslumanna sem í þeim eru. Ég veit ekki, hvort menn hafa veitt því athygli, að það hefur jafnvel komið fyrir stundum, að það hefur stöðvazt bygging hjá einum ákveðnum aðila, við skulum segja t.d. að Morgunblaðshöllin er stöðvuð, þá leiðir það máske til þess, að það sé stöðvuð bygging hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, og síðan séu báðar byggingarnar stöðvaðar, þangað til samkomulag er innan stjórnarflokkanna um, að báðum sé haldið áfram. Ég býst við, að einhverjum, sem væru að byggja og væru smærri og ættu ekki inni hjá stjórnarflokkunum, gengi kannske erfiðlega að komast áfram, þegar svona gengur fyrir þeim stóru, sem mestu ráða í stjórnarflokkunum. M.ö.o.: Það er óviðkunnanlegt að taka þá ákvörðun að ráðstafa þessu þannig, því að ég þekki ósköp vel og það vel stjórnarhættina hjá hæstv. ríkisstj., eins og ég gat um hér seinast í sambandi við úthlutunina á smáibúðalánunum, og hún er búin að gefa svoleiðis fordæmi þar, að það er engin ástæða til annars en að gruna hana um græsku.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti þess vegna alvarlega að athuga að breyta þessu.

Það vald, sem ríkisstj. tekur sér með þessum hlutum, er það mikið, að það er rannverulegt einræði yfir verzluninni, svo að ég tali nú ekki um, að það sé algert einræði viðvíkjandi öllum gróðanum á verzluninni. Og ég skal leyfa mér að taka sem dæmi, hvernig það kæmi út. Við skulum taka byggingarefnið. Ég minntist á það í sambandi við að gefa frjálsar íbúðarhúsabyggingarnar, sem hér er ákveðið, að það þýddi lítið, ef ekki væri gefinn frjáls innflutningurinn á byggingarefninu, þannig að hver maður hefði sinn ótvíræða rétt til þess að flytja byggingarefni inn og fá til þess gjaldeyri. Nú veit ég, að hæstv. ríkisstj. hefur keypt inn til landsins byggingarefni, — er það ekki um 50 þús. tonn eða rúmlega það? Hvernig er því byggingarefni úthlutað? Er það rétt, að því byggingarefni sé úthlutað þannig, að S.Í.S. annars vegar og Hallgrímur Benediktsson & Co. h/f og eitt eða tvö prívatfyrirtæki í viðbót fá allan þennan innflutning? Ég er hræddur um, að það sé rétt. Hvernig er nú viðvíkjandi því að fá sement til íbúðarhúsa? Nú er það þannig, að það er að vísu naumt skammtað eins og ýmislegt annað, en það er þó þannig, að það getur einn maður, sem er að reyna að byggja sér smáíbúðarhús eða eitthvað annað, fengið kannske eitt eða tvö tonn hjá fjárhagsráði úthlutað beint til sín, sem hann fær þó rétt til að kaupa, og þeir byggingarefnakaupmenn, sem flytja inn, verða síðan út á slíkar ávísanir að afhenda þessum viðkomandi manni, sem er að byggja sitt hús, þetta sement. Má ég nú spyrja: Verður ástandið þannig, eftir að frelsið er komið, að hæstv. ríkisstj. kaupi inn allt sement til landsins, skipti þessu sementi í réttum hlutföllum á milli aðalfésýslufyrirtækja stjórnarflokkanna, S.Í.S. annars vegar, H. Benediktsson & Co. h/f og máske einhverra fleiri hins vegar, og þessir aðilar flytja síðan inn allt sementið til landsins, síðan þegar einn maður ætlar að fara að byggja, þá fer hann ekki upp í fjárhagsráð og fær ávísun á eitt tonn eða 11/2 tonn af sementi til þess að byggja hús, heldur verður hann að fara til H. Benediktsson & Co. h/f eða til S.Í.S. og biðja þá um það, og svo framarlega sem H. Benediktsson & Co. h/f og Sambandið eru búin að ráðstafa þessu sementi, t.d. í samfélagi við einhver stærstu byggingarfyrirtæki landsins til þess að byggja hús, og segja: „Við erum búnir með allt sementið“, þá hafi maðurinn, Íslendingurinn, engan rétt til þess að flytja inn sement? Er það þannig? Verður það þá frelsið? Þetta held ég að hæstv. ríkisstj. þurfi að gefa okkur alveg ótvíræða yfirlýsingu um. Verður innflutningur á byggingarefni algerlega frjáls, þannig að hver Íslendingur geti keypt sér sement og timbur? Eða á að úthluta þessu annars vegar til Sambandsins og hins vegar til H. Benediktsson & Co. h/f og Völundar? Er þetta eigi þannig, að það yrði úthlutað til einokunarfyrirtækja stjórnarflokkanna? Hvernig kemur frá sjónarmiði þess almenna manns til að líta út afstaðan, við skulum halda okkur til dæmis við byggingarefni og þess innflutning og gróðann af því í landinu? Við skulum taka íhaldshlutann. H. Ben. og Völundur eru aðaleigendur Morgunblaðsins. H. Ben. og Völundur láta ríflega fé við hverjar kosningar í kosningasjóð Sjálfstfl. H. Ben. og Völundur fá síðan að íhaldshlutanum til þá einokun — Sambandið fær hina — á innflutningi byggingarefnis til landsins. Þessi hlutafélög geta síðan lagt á þetta eins og þeim þóknast, eins og þeim þykir skynsamlegt. Þeim almenna manni er bannað að flytja þessa hluti til landsins. Það er tekinn ríflegur gróði af þessu, jafnvel máske sett beint í byggingar, sem líka er ríflegur gróði á, og borgar sig vel að nota eitthvað af þeim gróða til að „finansera“ Sjálfstfl. við næstu kosningar og sjá um, að Morgunblaðið geti stækkað og haldið áfram sínu forheimskunarhlutverki.

Ég vil bara vekja eftirtekt hæstv. ríkisstj. á því, hvað verið er að gera með þessum hlutum. Það er verið að skapa einokun til handa sérstökum klíkum í þjóðfélaginu með því valdi, sem ríkisstj. heimtar að sér sé gefið til þess að gefa út reglugerð um allt milli himins og jarðar, sem snertir innflutninginn til Íslands, hvernig honum skuli ráðstafað, hvers konar bátaútvegsgjaldeyriskerfi skuli haft á því, hvaða mönnum sé úthlutað þetta. Þetta þýðir að skapa grundvöll að gífurlegri spillingu. Ég álit, að spillingin sé þó nokkur nú þegar, en mér sýnist, að hún muni vaxa við þetta, og mér sýnist, að með þessu frv. sé stefnt að því að gera möguleikana fyrir almenningseftirliti enn þá minni en þeir eru núna.

Svo ætla ég að leyfa mér í sambandi við þetta að beina þeirri spurningu til hæstv. viðskmrh.: Hvað er verðið á sementinu, sem nú er flutt til landsins? Hvað er verð á því fob., hvað er verð á því hingað komnu, og hvaða aðilar selja hér þetta sement? Þetta vildi ég nú aðeins minnast á í sambandi við ljósa punktinn í þessu frv., frelsið um íbúðarhúsabyggingar, svo að ég rétt dragi fram hættuna á dökku hliðunum, ef hæstv. ríkisstj. skyldi ekki hafa séð þær áður.

Þá er það svo að síðustu eftirlit með fjárfestingunni í landinu og valdið, sem Framkvæmdabankanum er gefið til að vera til ráðuneytis um fjárfestingarmál. Ég þykist vita alveg, hvernig samhengið sé um það ráðuneyti. Framkvæmdabankinn er sá ameríski eftirlitsbanki hér á Íslandi nú. Benjamín Eiríksson framkvæmdastjóri hans er sá maður, sem amerísku bankarnir hafa sent hingað upp til þess að hafa eftirlit með okkar fjárfestingu. Ég vil taka það greinilega fram, að ég sé alveg fyrir, hvers konar stefna muni verða í fjárfestingarmálunum, ef þeirra ráða á að njóta, og vil bara gjarnan draga upp, til þess að minna enn þá einu sinni á það, myndina af því, hvað slíkar ráðleggingar þýða áfram fyrir Íslendinga, og skal gera það aðeins á einu einasta litlu sviði.

Þegar framkvæmdastjóri Framkvæmdabanka Íslands byrjaði sín afskipti af málum hér árið 1948, eða um leið og Marshallplanið byrjaði hér, þá lagði hann fyrir sínar áætlanir og gerði um leið grein fyrir sinni afstöðu til þeirra hluta, sem þá höfðu verið gerðir á Íslandi. Það kom þá alveg greinilega í ljós, hvernig sá maður mundi hafa ráðlagt og hvernig hann mundi hafa stjórnað fjármálum Íslands, ef hann hefði ráðið hér 1944–46. Það, sem hann byggði á, var, að það væri ekkert vit í því að kaupa tæki til landsins, m.a. framleiðslutæki, nema því aðeins að landsmenn spöruðu sjálfir peninga til þess að kaupa þau tæki. Samkv. þeim kenningum, sem hann flutti hér og við höfum í hans stóru, rauðu bók, sem útbýtt var í sambandi við gengislækkunina, og í þeirri löngu grg. og vitlausu, sem fylgdi gengislækkunarfrv., þá sagði hann, að það næði ekki neinni átt annað en að láta sparifjármyndunina ráða því, hvað keypt væri. Það hefði þýtt, að á árunum 1944–46, þegar þær ákvarðanir voru teknar að kaupa inn 30 togara og ekkert sparifé var til fyrir þeim í eigu manna, sem vildu leggja í það, þá hefði samkv. kenningu Benjamíns Eiríkssonar verið hætt við að kaupa þessa 30 togara. Það hefðu kannske orðið um sex togarar, sem einstakir togaraeigendur hefðu þá fengizt til að kaupa. Þeir menn, sem þá sátu hér á þingi, vita ósköp vel, hvernig hlutirnir þá gengu til. Ísland átti nóga peninga erlendis til að kaupa þessa togara, og við ráðstöfuðum þeim peningum til þess að kaupa þá. En það var óhugsandi að fá íslenzka peninga til þess að útleysa þessa togara. Mennirnir, sem þykjast hafa fjármálavitið, sáu ekki, að það væri hugsanlegt, þó að við værum búnir að kaupa fyrir sterlingspund 30 togara erlendis, að snara út íslenzkum peningum hér heima til þess að útleysa þá, þannig að þeir gætu komið hingað heim og komizt í eigu einstakra aðila. Það varð að setja hérna í gegnum Alþingi með baráttu, sem kostaði heilt ár, frv. um stofnlánadeild sjávarútvegsins til þess að kúska það í gegn, að að nafninu til væru lánaðar 100 millj. kr. til þess að kaupa þessa togara. Ég ætla að leyfa mér að staðhæfa, að svo framarlega sem Benjamín Eiríksson og Ameríkanarnir hefðu haft með þessa hluti að gera, þá hefði ekkert af þessu verið gert þá. Og ef það er einhver úr hæstv. ríkisstj., sem efast um það, þá skal ég minna þá á, hvernig það gekk fyrir ríkisstj., sem tók við af nýsköpunarstjórninni og keypti tíu togara, að fá Ameríkanana til þess að ganga inn á að láta Marshallfé fyrir þá. ríkisstj., sem þá tók við, gekk út frá því að fá Marshallfé til þess að borga þá tíu togara, og henni var neitað um það. Hún varð að taka lán í Englandi og borga það lán fljótt upp, mun vera að borga það enn þá, vegna þess að Ameríkanarnir og Benjamínið þeirra var á móti því, að við værum að kaupa togara. Á hverju lifum við núna sem stendur? Við höfum ekki lifað á neinu Marshallfé undanfarin ár. Við höfum lifað á því, sem fyrst og fremst okkar togarar hafa aflað, en fyrir þá vitlausu fjármálapólitík, sem hér hefur verið rekin í sex ár, hafa afköst þeirra aldrei verið notuð til fulls. Einn nýsköpunartogari hefur hæglega, með því að koma þeim fiski, sem hann hefur framleitt, til vinnslu hér innanlands, getað framleitt verðmæti fyrir yfir 11 millj. kr. á ári í stað þess að kasta þeim fiski, oft og tíðum með tapi, í enska og þýzka markaðinn. Og ég vil vekja eftirtekt á því, að það er varla mikið yfir 11 millj. kr., sem allt sementið kostar fob. erlendis, sem keypt er til Íslands og þarf á einu ári.

Einn einasti nýsköpunartogari ætti því að geta aflað andvirðis þess.

Ég veit ekki, hvar við stæðum í dag, ef við hefðum ekki haft þessa nýsköpunartogara, hvernig okkar þjóðlif væri. En ég veit, að hefðu þeir menn, sem hafa ráðið síðustu sex ár fjármálum Íslands, fengið að ráða 1944–46, hefðu þeir ekkert af þessu keypt. Og nú er því slegið föstu í þessu frv., að nú séu það þessir menn, sem eigi að taka við og ráða, nú eigi þeir að vera til ráðuneytis. Hvað þýðir það? Það þýðir, að það á að bera undir þessa menn og hlýða þeirra ráðum um alla þá fjárfestingu, sem fram eigi að fara á næstu árum á Íslandi.

Þegar fjárhagsráð var myndað og þær áætlanir voru ræddar, sem það skyldi gera, þá gerði ég ýmsar brtt. í þeim málum, sem auðvitað var ekki tekið tillit til þá. Mér sýnist nú, að það sá litið minnzt á þær fyrirætlanir, sem hæstv. ríkisstj. hafi nú. Það væri fróðlegt að heyra eitthvað af þeim. Þegar gengið var inn á Marshallbrautina, voru þó gefnar yfirlýsingar um mikinn óskalista, gerð risaáætlun, eins og hæstv. fyrrv. viðskmrh. kallaði það. Núna er ekki talað um neinar áætlanir. Það er hins vegar talað um það af hæstv. ríkisstj., að 100 millj. kr. eigi að taka og setja í raforkumál. Það getur út af fyrir sig verið ágætt. En hvað á um leið að verja miklu til þess að undirbyggja framleiðslu landsins, til þess að auka framleiðslu landsins, auka okkar framleiðslutæki og fyrst og fremst auka okkar stórvirku framleiðslutæki? Við vitum ósköp vel, að við höfum not fyrir miklu fleiri togara. Við getum mannað miklu fleiri togara, og við getum selt allan þann afla, sem okkar togarar gætu framleitt, þó að þeir væru miklu fleiri. Og við fáum ekki eins mikið út úr okkar vinnuafli v:ð neinn hlut eins og í sambandi við okkar togara. Það þýðir, að þeir eru bezta undirstaðan undir góðri lífsafkomu í landinu, því að við getum ekki haldið uppi góðri lífsafkomu í landinu nema með því að hafa afkastamikil framleiðslutæki.

Við höfum ekkert heyrt frá ríkisstj. um neinar fyrirætlanir í þessum efnum. Ég held, að það væri vel viðeigandi, að hæstv. ríkisstj. gæfi Alþ. einhverja hugmynd um, hvað hún ætlaðist fyrir í þessum efnum, nema því aðeins að hæstv. ríkisstj. vilji bókstaflega krefjast sér til handa algers einræðis um öll atvinnu- og fjármál Íslands. Það er a.m.k. ekki vert að vera þá að tala hér sérstaklega mikið um frelsi um leið handa öðrum en ríkisstj. — Þetta þætti mér sem sé vænt um að fá að heyra, hvaða fjárfestingarhugmyndir hæstv. ríkisstj. hefði og hver hennar pólitík mundi vera viðvíkjandi þeim.

Svo er eitt viðvíkjandi fjárfestingunni á hinum einstöku stöðum. Þessir tveir menn, sem eiga að stjórna fjárfestingunni til atvinnufyrirtækja, mundu þeir eiga að sjá um, að ekki hallaðist á; ef það þyrfti að koma t.d. hraðfrystihúsi upp í einu kauptúni og et það væri Sambandið eða einhver kaupfélög, sem gengjust fyrir því, þá ætti endilega að mynda annað hraðfrystihús við hliðina, sem íhaldið hefði ráð yfir? Við skulum segja: Á það að vera „systemið“ sem er t.d. með kaupfélögin í Vík í Mýrdal? Á alls staðar á landinu að fara að byggja kannske tvenns konar fyrirtæki þannig, hafa allt sem allra ópraktískast frá þjóðhagslegu sjónarmiði, bara með tilliti til þess, að tvær fésýsluklíkur geti farið að skipta öllu svona á milli sin? Það væri gott að vita það. Við skulum segja t.d., ef það ætti að byggja verksmiðju í landinn til þess að framleiða rafmótora, ætti þá endilega að byggja tvær, t.d. af því, að annars vegar væru menn úr Framsókn og hins vegar væru menn úr íhaldinu, sem væru „interesseraðir“? Ef það ætti að byggja svona hluti, er þá ekki hugsanlegt að geta að einhverju leyti samrýmt nauðsynina fyrir þjóðina á því að geta rekið svona hluti sem praktískast, í staðinn fyrir, að þetta eigi að fara að verða þannig bitbein, að stjórnarflokkarnir eigi yfirleitt að fara að skipta þessu á milli sín? Það væri alveg nauðsynlegt að fá einhverjar upplýsingar um, hvað er fyrirætlað í þessum hlutum.

Ég vil sem sé segja það, án þess að ég ætli að fara að segja nokkuð meira viðvíkjandi forsögu frv. og fyrirrennurum þess ráðs, sem hér á að setja á laggirnar, að minn ótti er sá, að sú einokunarspilling, sem verið hefur að vaxa undanfarið hjá okkur í þjóðfélaginu, eigi að setjast í kerfi með þessu hérna. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. getur lagað ákaflega mikið í þessum málum, ef hún gerir það, sem ég minntist á í upphafi míns máls, gefur t.d. eitthvað af vörum til Íslands frjálst með lögum, þannig að borgarar landsins geti alveg treyst því, að þessar vörur séu frjálsar, t.d. matvörur, byggingarvörur, — frjálsar að lögum.

Svo að síðustu: Ég held, að allan þann tíma, sem ég hef setið hér á þingi, og lengur, hafi mál eins og þessi alltaf verið í fjhn. Fjárhagsráð var í fjhn., þegar það kom. Öll mál, sem hafa snert þessa hluti, hafa alltaf verið í fjhn. frá upphafi vega. Ég skil ekki, af hverju hæstv. ráðh. leggur til að fara að setja þetfa í allshn. nú. Það hefur aldrei nokkurn tíma komið fyrir hér á Alþ., og ég vildi fyrir mitt leyti gera það að till., að haldið yrði þeirri venju, að þetta mál færi til fjhn., og vil aðeins bæta því um leið við, að ég vil vonast eftir, að það verði tekið til mjög rækilegrar athugunar í þeirri nefnd.