07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2929)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér þykir á skorta þessa tillögu, að sú nefnd, sem skipuð verður eftir henni, eigi líka að athuga læknaskipunina. Hæstv. ráðh. tók fram, að hann hygðist láta landlækni og einhvern annan mann athuga það frv., sem nú liggur fyrir Alþ., og ég vildi mega treysta því, að milli þeirra manna og þessarar nefndar megi verða samvinna um endurskoðun læknaskipunar í heild, og verði það, get ég fyrir mitt leyti fellt mig við það en að öðrum kosti hefði ég óskað, að það kæmi beint fram í sjálfri till. Það er nú svo, að það var skipuð hér nefnd, mþn. í læknamálum, fyrir löngu síðan, það eru bráðum 10 ár síðan, og hún hefur aldrei skilað áliti. Það hefur verið gengið eftir því mörgum sinnum, það hefur aldrei fengizt. En síðan sú nefnd var skipuð, hefur verið sitt á hvað unnið á þeim grundvelli, sem nokkur hluti þm. þá vildi vera láta, að fjölga læknishéruðum og hafa þau lítil og ekki spítala við þau, en líka unnið jöfnum höndum og stundum í sömu kjördæmunum að því að stækka læknisumdæmin og hafa spítala í þeim og hafa tvo lækna í hverju umdæmi. Hefur ekki fengizt enn úr skorið, hvort heppilegra væri, og þetta hefur leitt til þess, að í læknaskipuninni hefur verið glundroði nú síðustu árin og Alþ. hoppað sitt á hvað inn á þessar tvær ólíku stefnur. Þess vegna vildi ég mjög ákveðið óska eftir því, að ráðh. sæi um það, að sú nefnd, sem hér verður skipuð eftir þessari till. væntanlega, vinni að þessu með þeim mönnum, sem hann kann að láta vinna að því að ganga endanlega frá þessu frv., sem liggur fyrir þessu þingi um læknaskipun landsins.