12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2997)

192. mál, alsherjarafvopnun

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þann dýrmæta tíma, sem þingið á eftir að starfa, með að ræða hér mikið um þingsköp. En ég vil aðeins, að fram komi rödd um það, að það eru mjög ómaklegar vitur, sem hv. 2. þm. Reykv. beinir hér til forsetans, sem er þekktur að mikilli réttsýni og réttdæmi og ágætu starfi sem forseti. Ég held ekki, að ástæða sé til að láta svo mikið sem þessi hv. þm. hefur gert yfir óréttlæti út af því, að hann geti ekki sjálfur valið og ákveðið, að þessari nótt skuli varið til umræðna um þetta eina mál, þegar bíða afgreiðslu mörg önnur mál, sem eiga alveg jafnan rétt á að ná afgreiðslu eins og þetta mál.

Ég hygg auk þess, að hann hafi borið þetta mál fram sem sýndarmál, það bar nú ræða hans vott um. Hann hagaði þannig sínum orðum, að hann reyndi að vekja upp umræður og illdeilur um mál, sem hann segist þó óska eftir að sé afgreitt, flytur hér ræðu eftir miðnætti í því skyni að koma af stað umræðum, — ræðu, sem áreiðanlega getur prentazt í Þjóðviljanum, um það, að annað af þeim tveim stórveldum, sem hafa framleitt þessa vetnissprengju, hafi gert hana til þess að myrða hann og okkur hina, englana, sem eigum að vaka hér og syngja hallelúja fyrir hann í nótt. En englarnir, sem hann trúir á, guðirnir hans, Rússarnir, þeir hafa aftur aðeins gert sér til ánægju að sprengja vetnissprengju í sinu landi og aldrei haft neitt í huga annað en það, sem alltaf einkennir þá, réttlætið og sakleysið. En það vil ég sem sagt að standi skjalfast, að það er sýnt, að þessi maður flytur þessa till. sem sýndartill. Og það er mjög eftirtektarvert, að þegar hann með ræðu sinni neyðir marga menn til að kveðja sér hljóðs og ræða málið, — ég endurtek það neyðir þá til að kveðja sér hljóðs og ræða málið, — að hann skuli þá ráðast á forseta kl. 1 að nóttu og bera hann brigzlyrðum um rangindi fyrir það, að hann lætur þingið úrskurða, hverjir vilji vaka yfir slíkum ræðuhöldum.