10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3018)

143. mál, laun karla og kvenna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og í þessari þáltill. greinir, hafa fulltrúar Íslands á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar greitt atkv. með jafnlaunasamþykktinni, þ. e. a. s. samþykkt þessara alþjóðlegu samtaka um, að konum verði greidd sömu laun og körlum fyrir jafnverðmæt störf, frá 1951. Ísland er þarna aðildarríki, og það hefði þess vegna mátt vænta þess, að ríkisstjórnir Íslands hefðu fljótlega samþ., að Ísland staðfesti þessa jafnlaunasamþykkt. En það hefur ekki gerzt. Íslenzkar ríkisstjórnir hafa ekki borið fyrir Alþ. till. til staðfestingar á jafnlaunasamþykktinni, og það virðist hafa bögglazt eitthvað óþægilega fyrir brjósti hæstv. ríkisstj., því að nú virðast 7 þm. Sjálfstfl. hafa orðið að taka sig út úr og bera fram áskorun á ríkisstj. um að staðfesta nú þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem eðlilega hefði eiginlega átt að samþykkjast árið 1951. Ég tek þessa till. sem skjallega sönnun þess, að hæstv. ríkisstj. hafi alls ekki verið fáanleg til að stíga þetta spor og að þessir 7 sjálfstæðismenn hafi verið alveg vissir um, að málið fengi ekki afgreiðslu, nema því aðeins að ríkisstj. fengi fyrirmæli Alþ. um að gera þetta. Ef þetta er svo. að svona mikil mótspyrna sé á móti þessu sjálfsagða réttlætismáli meðal stjórnarflokkanna, þá fagna ég því, að þessi till. skuli vera komin fram, og ég efast ekki um, að Alþ. tekur undir við þessa sjömenninga um að knýja á og skora á ríkisstj. að staðfesta jafnlaunasamþykktina fyrir Íslands hönd.

Það er alveg rétt. sem hv. frsm. sagði. að þeirri skoðun er sífellt að aukast fylgi, að konur njóti sömu launa og karlmenn fyrir sömu störf. Og það er vitanlega himinhrópandi ranglæti að borga ekki konu, sem vinnur sama verk og karlmaður, sama kaup, og hefði hæstv. forsrh., sem hefur verið einn af stærstu atvinnurekendum landsins, átt að vera búinn fyrir löngu að sjá sóma sinn í því að greiða konum sama kaup og karlmönnum við sín stóru atvinnufyrirtæki og undireins að grípa tækifærið til þess að leysa málið úr sínum háa valdasessi, þegar hann var nú ekki aðeins atvinnurekandi, heldur einnig formaður ríkisstjórnar á Íslandi í þriðja eða fjórða sinn.

Það er líka rétt, sem hv. frsm.. þm. N-Ísf., sagði áðan, að það brestur nokkuð á, að þetta sé viðurkennt í framkvæmdinni, og þess vegna ekki aðeins þörf á því, að jafnlaunasamþykktin sé staðfest fyrir Íslands hönd, heldur full þörf á því, að það sé sett löggjöf á Íslandi um það, að konum skuli greitt sama kaup og körlum. Það er í þriðja lagi rétt, að nú örlar á nokkrum skilningi. að því er virðist, frá hæstv. ríkisstj. í þessu máli, því að ákvæði hefur verið skotið inn í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna um það, að konum í þjónustu ríkisins skuli greidd sömu laun og körlum fyrir sömu vinnu. En verði sú löggjöf staðfest á þessu þingi. sem allar líkur benda til, þá virðist og sjálfsagt, að gengið sé frá því örugglega með löggjöf samtímis, að þeim konum, sem ganga að störfum fyrir þjóðfélagið í annarra þjónustu en ríkisins, í þjónustu bæjarfélaga og í þjónustu annarra atvinnurekenda, sé þá samtímis tryggt að lögum sama kaup fyrir sömu vinnu og körlum.

En Alþingi á kost á því að lögfesta hvort tveggja samtímis, því að jafnframt því, sem frv. liggur fyrir um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna með þessu ákvæði, liggur einnig fyrir hv. Alþingi frv. til laga um sömu laun til kvenna sem karla víð margvísleg önnur störf í þjónustu atvinnurekenda og bæjar- og sveitarfélaga sömuleiðis. Og það er það kátlega við það, að sumir af þeim hv. fim. þessarar þáltill., sem skora á ríkisstj. að staðfesta jafnlaunasamþykktina, hafa legið á því frv. allt þetta þing í þn. og hafa ekki enn þá skilað frá sér till. um, að það verði gert að lögum. Þetta ætti allt auðvitað að fylgjast að, samþykkt þessarar till., samþykkt frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna með ákvæðinu um, að konum í þjónustu ríkisins skuli greitt sama kaup og körlum, og frv., sem fyrir þinginu liggur um, að atvinnurekendur og bæjar- og sveitarfélög skuli fylgja þeirri sömu reglu um sama kaup fyrir konur og karla. Þá hefði Alþingi það sem nú situr, bætt fyrir margra ára og áratuga vanrækslu og ranglæti í garð kvenþjóðarinnar ef þetta fylgdist allt saman að. Þáltill. ein í yfirlýsingarformi eins og þetta hefur ákaflega lítið gildi út af fyrir sig. Það er löggjöfin, sem þarf að koma um þetta efni og ekki aðeins þá gildandi að því er varðar konur í þjónustu ríkisins, heldur við öll störf í þjónustu atvinnuveganna. En þessi þáltill. hinna 7 sjálfstæðisþingmanna á í raun og veru að vera sönnunargagn fyrir því. að í Sjálfstfl. séu a. m. k. sjö réttlátir, sem vilji beita sér fyrir jafnrétti kvenna og karla í launamálum. Og ég skil það ekki að þeir fái sig til að rétta höndina upp á móti samþykkt frv. um sömu laun kvenna og karla eftir að þeir hafa t. d. fengið samþykkta till., sem hér liggur fyrir.

Ég vil því álíta á þessu stigi málsins. að nú hljóti í fyrsta lagi frv. um sömu laun kvenna og karla að koma úr nefnd með meðmælum þessara manna, sem standa að flutningi þessarar till. a. m. k. og síðan hljóti það frv. að fljúga í gegnum þingið. Það vill líka svo vel til. að hv. Alþingi hefur fengið áður tækifæri til að kynnast þessari hugmynd í frumvarpsformi, að konum beri að greiða sama kaup og körlum við hvers konar þjóðfélagsstörf, því að 1948 flutti ég einnig frv. um þetta sama efni, og fáir það þá gegnum 1. umr. og meðferð n. í hv. Ed. En þá var skilningurinn ekki meiri en það, að hver einasti þingmaður Sjálfstfl. í Ed. og hver einasti þm. Framsfl. í Ed. hamaðist á móti málinu, þangað til búið var að ganga af því dauðu. Batnandi mönnum er bezt að lifa, og bað er bezt að þeir eigi kost á því að bæta nú þeim lárviðarkrans um höfuð sér, að þeir hafi ekki aðeins fengið samþykkta þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, heldur einnig staðið að samþykkt frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna með ákvæði um sömu laun kvenna og karla og einnig frv. sem nái til þess að lögfesta, að konur sem vinna í þjónustu atvinnuveganna og hjá sveitarfélögum, fái einnig sömu laun fyrir sömu vinnu. Þá væri málið leyst og Alþingi hefði skilað verki, sem um aldir mundi verða því til sóma.

Ég þarf varla að lýsa því yfir, að ég er fylgjandi þessari þáltill. og tek hana sem sönnunargagn um mikil og gleðileg sinnaskipti í Sjálfstfl.