11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (3138)

48. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki halda áfram að pexa við hv. þm. um þau atriði, sem okkur greinir á um. Ég hygg, að hv. þdm. sé ljóst, hvað hér er um að ræða, svo að ekki sé þörf á að skýra það öllu frekar. Ég vil þó aðeins láta það koma fram, að það er misskilningur, að breyt. á gildandi löggjöf hafi strandað á mér eða meðflm. mínum að þessari till., hv. 2. þm. Rang. Mér vitanlega hafa engar brtt. við þessi lög komið til atkvæða í hv. Nd., þar sem við eigum báðir sæti. Það er rétt, að til okkar var vísað á síðasta þingi sams konar frv. og því, sem hér er nýbúið að útbýta. um breyt. á l. um það, að ríkið eitt skuli greiða kostnaðinn af byggingu drykkjumannahæla, en það mál kom aldrei til endanlegrar afgreiðslu í n., það voru aldrei greidd um það atkvæði þar. Þess vegna hef ég aldrei greitt atkvæði með því né móti. Það mun hafa verið samkv. ósk hæstv. fyrrv. og núverandi fjmrh. eða í samráði við hann, sem það mál var ekki borið upp til endanlegrar afgreiðslu í n., og ég hygg, að það hafi verið gert í samráði við aðalflutningsmanninn, borgarstjórann í Rvík. Það mun hafa verið samkomulag sjálfra stjórnarflokkanna, sem hv. þm. styður, að láta málið ekki koma til afgreiðslu á því þingi. Ég tek því ekki neinum ásökunum um það, að ég hafi staðið gegn því, að málið hlyti afgreiðslu. Stjórnarflokkarnir sjálfir sömdu um það, að það skyldi ekki afgr. á síðasta þingi.

Aðrar till. hafa mér vitanlega ekki komið fram til breyt. á þessum l. í Nd., þar sem ég á sæti. Hitt er rétt, að hv. þm. Barð., sem er mikill áhugamaður um þessi mál, hefur borið fram till. og frv. í hv. Ed. Þau hafa oft verið felld, og ég hygg ekki síður með atkvæðum hans eigin flokksmanna en annarra. Þess vegna er það, sem hann segir um þetta efni, allt saman hreinn misskilningur, a. m. k. að því er varðar mína afstöðu til málsins.

Að því er snertir ábyrgð á því, hvers vegna lögin eru ekki komin til framkvæmda, vildi ég aðeins rifja þetta upp fyrir hv. þingmönnum:

Gildandi lög mæla fyrir um, að reisa skuli þrenns konar stofnanir fyrir drykkjusjúka menn: Í fyrsta lagi sjúkrahúsdeild; hana eiga sveitarfélög að reisa samkv. gildandi lögum. Það hefur ekki verið gert. Í öðru lagi lækningahæli fyrir drykkjusjúka menn, sem þurfa vist á hæli um skamman tíma; það á ríkið að gera. Það hefur verið gert. Í þriðja lagi gæzluvistarhæli fyrir mjög sjúka drykkjusjúklinga, sem ekki mikil von er um að fái bata eða engin von er um að fái bata; það eiga sveitarfélögin að gera. Og það hefur ekki verið gert. Það, sem ríkinu var lagt á herðar í gildandi lögum, hefur ríkið þegar gert, að vísu ekki í mjög stórum stíl, en þó sinnt brýnustu skyldu sinni. Það, sem sveitarfélög eiga að gera, fyrst og fremst Reykjavíkurbær, sem er langstærsta og ríkasta sveitarfélagið, hefur ekki verið gert.

Mér er ekkert ljúft að vera að tala um sök eða sakleysi manna í þessu sambandi. Ég ætla mér ekki hér að hafa neinar eldhúsumræður yfir bæjarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík, sérstaklega þar sem oddviti hans, borgarstjórinn, er hér ekki viðstaddur, en ég gæti sagt meira um málið, ef hann væri viðstaddur. Til þess væri fyllsta ástæða. Það, sem Reykjavíkurbær hefur átt að gera í málinu, hefur hann vanrækt. Sú ábyrgð, sem hér er um að ræða á áframhaldandi eymd þessara manna, hvílir því á bæjarstjórnarmeirihlutanum í Rvík og engum öðrum. Ef nauðsynlegt er að breyta l. til þess að fá einhverjar framkvæmdir í þágu þessara drykkjusjúklinga, þá er það af því, að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Rvík hefur svikizt um að gera það, sem löggjafinn lagði honum á herðar að gera.