22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3335)

213. mál, lánveitingar út á smábáta

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í sambandi við þessa fyrirspurn að vekja athygli hæstv. sjútvmrh. á vandamáli í sambandi við trillubátaútgerðina. Það vandamál, sem ég þar á við, er það, hversu haga skuli slysatryggingu skipshafna á þessum þáttum. Samkv. ísl. lögum eru öll skip yfir 12 lestir skyldug að skrásetja áhöfn skipanna. Um leið og skrásetning fer fram, eru greidd slysatryggingariðgjöld fyrir áhöfnina. Aftur á móti er ekki skylt að skrá skipverja á skip, sem er undir 12 smálestum að stærð. Mér er ekki fullkomlega ljóst, hvað skoðunarskylda á skipum almennt nær langt niður. Ég hygg, að allir bátar, sem ná 6 m lengd, séu skoðunarskyldir og eigi að hlíta skoðun skipaskoðunarmanns. Ég hygg enn fremur, að einhvers staðar séu fyrirmæli um það, að öll fljótandi för skuli skrásetja með umdæmistölum í því umdæmi, sem skipunum er haldið út í. Þó ætla ég, að nokkur misbrestur sé á þessu tvennu, bæði hinni almennu skoðun á bátum undir 12 lestir niður í 6 m lengd og á skrásetningu trillubáta bæði hér í Reykjavík og um land allt. Þetta verður því alvarlegra sem þessi skipastóll eykst meira og trillubátarnir verða algengari.

Annað vandamál er í þessu sambandi. Það er örðugt að greina á milli, hvort þessir bátar eru notaðir sem fiskibátar eða sem skemmtibátar. Séu þessir bátar gerðir út á fiski, er enginn minnsti vafi á því, að það ber að slysatryggja áhafnir þeirra. Séu þeir aftur á móti skemmtibátar, eingöngu notaðir sem slíkir, þá er engin tryggingarskylda á áhöfninni. Sökum þess, hversu mikið los er á framkvæmd í þessu efni, eftirliti, skoðun og skrásetningu þessara báta, þá er ákaflega miklum örðugleikum bundið að skera úr því í fyrsta lagi, hvort tryggingarskyldan nái til mannanna á bátunum, og í öðru lagi, hvaða bátar falli undir slysatrygginguna og hvaða bátar ekki.

Tilmæli mín til hæstv. ráðh. eru því þau, að samtímis því sem sú athugun fer fram, sem hann gerði hér ráð fyrir áðan í sambandi við vátryggingu bátanna, þá verði einnig athugað, hvernig haganlegast væri að koma fyrir tryggingu skipshafna á þessum bátum og hvernig greina mætti á milli þeirra báta, sem eru ætlaðir til fiskveiða, og hinna, sem eingöngu eru til skemmtana. Ég sé ekki, að það yrði á annan veg betur gert en að fyrirskipa skrásetningu og skoðun á öllum þessum fljótandi förum, þar sem tilgreint væri, hvort báturinn væri ætlaður til fiskveiða eða til skemmtiferða og annars slíks. — Ég vænti, að hæstv. ráðh. muni athuga þetta ásamt öðrum hliðum málsins.