28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki mörgu að svara hæstv. ráðh., en um þau tvö atriði, sem hann nefndi, skal ég fara nokkrum orðum.

Ég lét í ljós nokkurn vafa á því, að allir möguleikar til lántöku, sem ríkisstj. hefði getað haft, hefðu verið notaðir, og ég stend við það og get þá sagt ráðh., hvað ég á við með því, ef hann vildi á það hlusta. En ég tel enga þýðingu hafa að fara að ræða það hér á þessu stigi málsins, en ég mun geta sagt honum, hvað ég á við með því, utan fundar. Og það veit hæstv. ráðh. líka vel, að það hafa verið til ýmsir möguleikar, þó að þeir hafi ekki verið notaðir út í yztu æsar. (Fjmrh.: Hvaða möguleikar eru það?) Ja, ráðh. þekkir þá, og ég skal gjarnan skýra frá því, að ég hef sjálfur tekið á móti tilboðum í ákveðnar erlendar lántökur til framkvæmda hér á landi, sem hafa verið sýnd hæstv. ráðh. og hann kannske hefði þá getað notfært sér, ef hann hefði viljað. — En um það, að ég hafi hér gerzt ber að því að fjandskapast við raforkuframkvæmdir í landinu, vegna þess að ég nefndi það, að mér þætti slælega að unnið málefnum Iðnaðarbankans, því vísa ég algerlega á bug. Náttúrlega má finna fjölmargar framkvæmdir, sem eru þarfar og nauðsynlegar, en að það sé endilega nauðsynlegt að ákveða, að það skuli taka 100 milljónir til raforkuframkvæmda áður en snert er á Iðnaðarbankanum, en ekki t. d. við skulum segja 85 millj. í raforkuframkvæmdir og 15 millj. handa Iðnaðarbankanum, sem gætu þá komið nokkurn veginn jöfnum höndum, það skil ég ekki. Það sýnir aðeins það, sem ég hef margoft bent á hér áður, að hugur hæstv. ríkisstj. og kannske alveg sérstaklega hæstv. fjmrh. fer ekki í þá átt að greiða fyrst fyrir iðnaðinum, heldur síðast fyrir honum, þegar þau mál eru til afgreiðslu, sem hug hans standa nær. Það er út af fyrir sig kannske ekkert við því að segja frá hans sjónarmiði, en ég bendi á þetta, og þetta vekur óánægju þeirra manna, sem við þetta eiga að búa. Þeim finnst þeir ekki standa jafnfætis öðrum atvinnugreinum landsins, sem þeir telja sig þó fullkomlega sambærilega við. — Það var aðeins þetta og þetta eitt, sem ég var að víta í þessu sambandi.