28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í D-deild Alþingistíðinda. (3356)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er sú, að mér virðist vera töluverður misskilningur uppi hér í hv. Sþ. í sambandi við þetta lán til Iðnaðarbankans, 15 millj. kr., sem ekki hafa enn verið útvegaðar bankanum. Hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan og kannske einhverjir fleiri, að allir lánsmöguleikar hafa ekki enn verið nýttir. Ég vil nú segja, að sem betur fer er hagur íslenzku þjóðarinnar ekki svo kominn enn, að allir lánsmöguleikar hafi verið nýttir til hins ýtrasta. Við skulum gera okkur ljóst, að ástandið hjá okkur væri ekki glæsilegt, ef svo væri. Sem betur fer hafa ekki allir lánsmöguleikar verið nýttir. En það eru takmörk fyrir því, hversu hart má fara í lántökum, og við verðum líka að aðgæta það, hvernig skilyrðin eru, sem sett eru fyrir lánum, og hvort þau eru aðgengileg. Hvort sem við tökum lán til iðnaðarins eða til einhvers annars, þá hljótum við að leitast við að fá lánin með sem aðgengilegustum og beztum kjörum. Þessar 15 millj. kr., sem Iðnaðarbankinn þarf að fá og mun fá, þurfa að fást sem fyrst.

Hæstv. fjmrh. gaf hér yfirlýsingu áðan, sem ég hélt að hv. þm. væru flestir eftir atvíkum ánægðir með, ef þeir á annað borð hafa heyrt það, sem hæstv. ráðh. sagði. Hv. 5. landsk. þm. (EmJ) virðist ekki hafa heyrt það, vegna þess að hann sagði hér áðan, að það væru mörg lán á undan Iðnaðarbankaláninu. En hvað sagði hæstv. fjmrh.? Hann sagði að sementsverksmiðjulánið og lántakan vegna raforkuframkvæmdanna væru á undan. Hver er hér á hv. Alþ., sem ekki vill leggja áherzlu á sementsverksmiðjulánið, að frá því verði gengið sem allra fyrst? Er það nokkur? Hver er hér á hv. Alþ., sem ekki vill að raforkuframkvæmdunum verði hraðað? Er það nokkur? Samkvæmt yfirlýsingu fjmrh. á Iðnaðarbankalánið að koma á eftir þessum tveimur lánum. Samkvæmt yfirlýsingu fjmrh. ætlar ríkisstj. að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að þetta mál verði leyst sem allra fyrst. Og samkvæmt stjórnarsamningnum er miklu veigameira atriði fyrir iðnaðinn en þessar 15 millj. kr., að þar er ákveðið að leysa rekstrarfjárþörf iðnaðarins, líkt og gert hefur verið fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn.

Það var sagt hér áðan, að iðnaðurinn væri hornreka og hefði verið það. Ég skal viðurkenna, að iðnaðinum hefur ekki verið sinnt eins og æskilegt væri. En það er að minnsta kosti núna í stjórnarsamningunum tekið fram, að iðnaðurinn skuli njóta sömu réttinda og aðrir tveir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, þ. e. sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn, með því að iðnaðinum skuli séð fyrir rekstrarfé. Þetta atriði í stjórnarsamningnum er þýðingarmeira en 15 milljónirnar, því að 15 milljónirnar hrökkva vitanlega skammt sem rekstrarfé fyrir allan iðnaðinn í landinu.

Ég efast ekkert um, að hv. 5. landsk. þm. ber góðan hug til iðnaðarins. En um leið og ég staðfesti það, þá ætlast ég til, að hann meti það, sem er í stjórnarsamningunum, að iðnaðinum skuli séð fyrir rekstrarlánum, eftir því sem auðið er, á borð við landbúnað og sjávarútveg. Því hefði hann ekki átt að gleyma, þegar hann stóð hér áðan og hélt sína ræðu og fullyrti, að iðnaðurinn væri hornreka. En einu sinni var þessi hv. þm. iðnmrh., og tæplega vill hann nú halda því fram, að iðnaðurinn hafi verið hér hornreka á því tímabili. Þó hef ég aldrei heyrt, að það hafi verið neitt sérstakt blómatímabil fyrir iðnaðinn, það tímabil, sem þessi ágæti hv. þm. var iðnmrh.