11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (3376)

67. mál, fiskskemmdir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er óhætt að segja, að það sló óhug á marga, þegar fréttist, að alvarlegar kvartanir hefðu borizt frá markaðslöndunum um skemmdir á íslenzkum fiski. Og mönnum var það yfirleitt mikið í mun, að myndarlega væri á því máli tekið, rannsakað, hverjir hefðu brugðizt trúnaði þjóðarinnar að því er snertir vöndun á framleiðsluvörunum, og menn fylgdust með því eða vildu fylgjast með því af gaumgæfni, hvað hefði verið gert. Ég var einn þeirra, sem leituðu fregna af því, hvernig þessi rannsókn hefði farið fram og hver hefði orðið niðurstaða hennar, en hjá fiskmatinu og yfirstjórn þess var enga vitneskju um þessi mál að fá. Ég álít því, að það hafi verið mjög tímabært, að fram kom fsp. um þetta á Alþingi og þannig fengin á opinberum vettvangi sú vitneskja, sem nú hefur verið gefin. Og held ég þó, að æskilegt væri, að jafnvel væri gefin ýtarlegri skýrsla um þetta, t. d. að vísindamennirnir, sem fengust við hina síðari rannsókn, yrðu beðnir að gefa opinberlega skýrslu um þau atriði málsins, sem eru þess eðlis, að það henti, að þau séu opinberlega rædd og vitneskja gefin um þau.

Ég heyrði það á svörum hæstv. ráðh., að það hefði þótt athugunarefni, hvort hráefnið, sem tekið væri til hraðfrystingar, væri alltaf verkunarhæft, og vil nú spyrjast fyrir um það, hvort strangari fyrirmæli hafi nú verið gefin um það, hvaða hráefni megi taka til hraðfrystingar. Það er almannarómur, að það hafi verið allt of langt gengið í því að taka fisk, sem farinn var að skemmast, og það getur aldrei orðið 1. flokks vara, það vitum við. Mér finnst nokkru máli skipta, hvort settar hafi verið ákveðnari og strangari reglur um, hvaða hráefni megi taka til hraðfrystingar.

Ég heyrði það, að strangari kröfur hefðu verið gerðar til útbúnaðar hraðfrystihúsa, og þess hefur áreiðanlega verið þörf; einnig að matsmenn hefðu verið látnir víkja frá sínu starfi, af því að rannsóknir hefðu sýnt, að þeir hefðu brugðizt trúnaði í sínu starfi. En einnig var frá því skýrt af hæstv. ráðh., að það hefði verið tekið til athugunar, hvort mistök hefðu átt sér stað af stjórn yfirmatsins í Rvík, en ég tók ekki eftir því, að hann víki neitt að því, hvort það hefði komið í ljós eða hvort stjórn yfirmatsins hefði við rannsóknina verið alveg sýknuð af öllum yfirsjónum eða vanrækslu í þessu efni. En það skiptir líka verulegu máli, að það séu ekki bara smáþjófarnir, sem séu hengdir, heldur að tekið sé fyrir meinsemdina líka, ef hennar verður vart á æðstu stöðum. Það skiptir kannske mestu máli í þessu máli eins og ýmsum öðrum.

En þá var það sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi fá svör við í sambandi við þessa umræðu, og það er þetta: Mörgum er það kunnugt, að verkstjórar hraðfrystihúsanna eru nú og hafa verið jafnframt matsmenn viðkomandi hraðfrystihúss. Þessir verkstjórar eru þjónar þess, sem á viðkomandi hraðfrystihús. Þeir eru ekki allir eins skilningsgóðir á það og hæstv. ráðh., sem er líka gamall og reyndur útgerðarmaður, að vilja ota heldur vafasamri 1. flokks vöru í 2. flokk, heldur jafnvel hafa tilhneigingu til að ota 2. flokks vöru í 1. flokk, hugsandi ekki um þann álitshnekki og það hagsmunalega tjón, sem þjóðin getur orðið fyrir af slíkum vinnubrögðum. En lítilsigldur og ekki fyllilega nógu djarfur verkstjóri við íshús, hálfhræddur kannske við sinn yfirboðara, óttast, að hann hafi það sjónarmið, að hann vilji koma meiru en góðu hófi gegnir af sinni framleiðsluvöru í 1. flokk, þótt hún verðskuldi það ekki; hann getur verið skaðlegur einmitt fyrir það, að hann er bæði verkstjóri og undirmaður eigandans og trúnaðarmaður þjóðfélagsins sem matsmaður í senn. Hefur þetta fiskskemmdamál ekki leitt það í ljós, að þetta sé í grundvallaratriði óheppilegt og ótryggilegt, að hafa verkstjóra hraðfrystihúsanna sem matsmenn, eiðsvarna matsmenn, til þess að gæta hagsmuna þjóðfélagsins? Ég held, að það sé óheppilegt fyrirkomulag og að menn viti, að það er óheppilegt. Og það má mikið vera, ef það hefur ekki komið í ljós í sambandi við þetta fiskskemmdamál, að trúnaðarbrot sumra matsmannanna við húsin séu bein afleiðing af því, að þeir jafnframt eru verkstjórar þeirra, sem eiga hraðfrystihúsin. Ég vil fá að vita um, hvort það hefur ekki hvarflað að mönnum, sem hafa æðstu yfirstjórn þessara mála og er umhugað um, að þarna verði ekki mistök, sem vitanlega eru þjóðinni óbætanleg, að gera breytingu á þessu að lögum.