31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í D-deild Alþingistíðinda. (3486)

180. mál, togaraútgerðin

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Nokkur orðaskipti áttu sér stað milli mín og hæstv. forsrh. s. l. miðvikudag í sambandi við fsp., sem að efni til var nokkuð svipuð og sú, sem hér er til umræðu. Hæstv. ráðh. svaraði því til þá, að engin málaleitun eða skýrsla hefði komið til ríkisstj. frá togaraeigendum. (Gripið fram í.) Ja, engin skýrsla að minnsta kosti, svo mikið er víst, — engin greinargerð eða skýrsla. Ég hafði þá ekki við höndina þau gögn, sem ég byggði mín ummæli þar á, en kynnti mér þau síðan, en þá var umræðunni um þetta mál lokið.

Í Morgunblaðinu þann 23. marz var grein um togaraútgerðina, með stórri fyrirsögn, sem hljóðaði svo:

„Stöðvun togaraflotans vofir nú yfir vegna sívaxandi erfiðleika. Ofan á lækkað markaðsverð og aukinn framleiðslukostnað bætist mannekla á skipunum. Útgerðarmenn vænta nú aðgerða ríkisvaldsins.“

Þetta er skrifað í Morgunblaðið, stuðningsblað hæstv. ríkisstj. og sérstaklega haustv. forsrh., þriðjudaginn áður en ég hreyfði minni fsp. hérna á þinginu seinast.

Enn fremur segir í þessari sömu grein, að togaraeigendur sjái nú fram á það, svo að ekki verður um villzt, að stöðvun togaraflotans er óhjákvæmileg, fáist ekki stórfelld breyting á kjörum þeim, sem togararnir eiga við að búa. Stjórn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda hefur rætt við ríkisstj. um þetta stórfellda vandamál og bent á leiðir til þess að koma í veg fyrir stöðvun togaraflotans. M. a. hefur hún bent á þá leið að veita togaraútgerðinni hliðstæð fríðindi þeim fríðindum, sem bátaútveginum hafa verið veitt, þ. e. a. s. með bátagjaldeyri.

Þetta stóð í stuðningsblaði hæstv. forsrh. daginn áður en ég hreyfði þessu máli hér á Alþingi fyrir viku, og þá lætur hann svo sem honum sé í raun og veru ókunnugt um þetta mál og það eina, sem sé að gera, sé að skipa nú nefnd til þess að rannsaka væntanlega skýrslu, því að hún var ekki komin, — væntanlega skýrslu togaraeigenda um málið. Og nú, viku síðar, svarar hann fyrirspyrjanda því, að hann sé nú með hugleiðingar um það, hvort það séu ekki góðir menn í þetta 3 skrifstofustjórar úr ráðuneytinu og framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans ásamt fiskimálastjóra. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi nú stundum brugðið skjótar við og tekið sér vald til þess að skipa menn í nefnd, þegar minna hefur kallað að en nú, án þess að vera að bollaleggja um það við þingheim, hvort það ætti að vera þessi skrifstofustjórinn eða hinn eða fiskimálastjórinn eða framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans. Ég held, að hann hafi nú einhvern tíma ráðizt í annað eins stórræði og að skipa 5 manna nefnd, án þess að bera það undir ríkisstjórnina.

Svo segir hér enn fremur í þessari sömu grein:

„Ræddu forsvarsmenn togaraútgerðarinnar hin sívaxandi fjárhagsvandræði togaranna að nýju og fóru síðan á fund ríkisstj. og ræddu þar við hana og fulltrúa hennar um þetta stórfellda vandamál.“

Daginn eftir, s. l. miðvikudag, var svo broddgrein í sama blaði, Morgunblaðinu, um þetta mál, komin út áður en ég veik fsp. til hæstv. forsrh.

Þessi grein heitir: „Uggvænlegar afkomuhorfur togaraútgerðarinnar,“ og þar er beinlínis sagt :

„Það er því óhjákvæmilegt að snúast með einhverjum úrræðum við vanda togaraútgerðarinnar. Vandi hennar er ekki aðeins mál hennar einnar, heldur allrar þjóðarinnar í heild. Á því hefur verið tæpt af hálfu útgerðarmanna, að með því að veita togaraútgerðinni hliðstæð gjaldeyrisfríðindi eins og vélbátunum mundi nokkuð mega greiða úr vandræðum þeirra. En þetta er hæpin leið. Áður en sú leið er nú farin að veita togaraútgerðinni bátagjaldeyrisfríðindi, verður því að reyna aðrar leiðir.“

Þetta er skrifað fyrir viku í Morgunblaðinu. Nú finnst hæstv. ráðh., finnst mér, hálfótilhlýðilegt að tala um möguleika á nokkrum öðrum leiðum.

Ég mun nú hlíta áminningu forseta um að ljúka máli mínu. Ég vildi aðeins bæta þessu við, af því að ég gat ekki komið þessu að í umræðunum s. l. miðvikudag.