10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. fjmrh. hefur gefið þessa nákvæmu skýrslu hér og gefið okkur tækifæri til þess þar með að láta í ljós okkar skoðun á því, hvernig afkoman væri og hvernig ráðstafað væri þeim tekjuafgangi, sem hann upplýsir nú að sé hjá ríkissjóði.

Ég vil taka undir þá gagnrýni, sem hefur komið fram um ráðstöfunina á rekstrarafganginum. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Eru það engar aðrar skuldbindingar og engar aðrar skuldir, sem ríkissjóður hefur, sem gæti staðið upp á hann að borga, heldur en þær, sem ríkisstj. hefur ráðstafað þarna rúmum 30 millj. kr. í? Skuldar ríkissjóður ekki bæjarfélögum t. d. neitt vegna hafnargerða, vegna skólabygginga, vegna annarra slíkra hluta ? Skuldar ríkissjóður ekki nein framlög til annarra stofnana þjóðfélagsins? Eftir því sem ég bezt veit, þá skuldar ríkissjóður þó nokkuð mikið af slíku. Og ég man eftir hér um árið, þegar við vorum að samþ. l. um að ráðstafa rekstrarafganginum, að þá voru allharðar deilur um það, meira að segja var knúið allskarplega á til þess að reyna að fá út til bæjarfélaganna, sem alltaf eru í greiðsluvandræðum, eitthvað dálítið af fé, sem þau ættu inni hjá ríkinu. Þegar ríkissjóður hefur nú í greiðsluafgang yfir 30 millj. kr. og skuldar, ef tekið er tillit til allra þeirra laga, sem til eru, vafalaust fleiri tugi milljóna króna, sem honum bæri raunverulega að borga, þá er það mál, sem Alþ. náttúrlega ætti að gera upp, hvaða skuldunautum á að greiða, hverra þarfir á að uppfylla. Það eru margir aðilar þarna, sem hafa þarfir, og margir, sem eiga lögmætar kröfur á hendur ríkissjóðs. Og það er ákaflega mikið vald, sem hæstv. ríkisstj. tekur sér með því að gera upp á milli þessara ýmsu þarfa, ákveða: þessum aðila skal ég greiða, t. d. Landsbankanum, 2 millj. eða hvað sem það nú er, en að eitthvert fátækt bæjarfélag úti á landi geti hins vegar vel beðið. Þessa álit ég ekki að hæstv. ríkisstj. hafi rétt til. Ég álít, að hún eigi að leggja fram frv. fyrir Alþ. um ráðstöfun á svona tekjuafgangi, jafnvel þó að henni finnist þetta allt saman mjög brýnt. Það eru fleiri kröfur áreiðanlega, sem eru brýnar, og þess vegna er ekki rétt að farið í þessu efni. Ég verð um leið að segja það, að þetta er hins vegar ákaflega mikið í stíl við það, sem meira og meira er að tíðkast. Það er í sífellu verið að ráðstafa stórkostlegum fjárupphæðum, sem teknar eru af almenningi, utan við Alþ., svo að ég nefni t. d. aðeins bátagjaldeyrinn. Þar er ráðstafað um 100 millj. kr. á ári til einstakra aðila í þjóðfélaginu, án þess að Alþ. og nokkrir þeir aðilar, sem hafa rétt til þess að samþykkja álögur á almenning, ráði nokkurn skapaðan hlut um, hvernig þetta fer, og hafi yfirleitt nokkurt ,.kontrol“ með því, hvernig það er notað. Ég vil aðeins benda á þetta, án þess ég hafi ætlað mér að fara að lengja umræðurnar.

Ég undraðist nú að vísu, að hæstv. ráðh. skyldi ekki minnast á það í sinni vörn áðan, að ríkisstj. ætlaði sér máske að koma þessu fram í fjáraukalögum. Það er náttúrlega lagalega séð sá réttur og sá möguleiki, sem hún hefur. Hins vegar fer það að verða ákaflega slæmt, ef mjög stórir hlutar af ríkisútgjöldunum eiga að fara að samþykkjast eftir á í gegnum fjáraukalög, og hefur nú aldrei eiginlega verið tilgangurinn með þeim. Þess vegna álít ég, að það hefði verið langeðlilegast og sjálfsagðast, að þessu hefði verið ráðstafað með sérstökum lögum, hvaða þarfir það væru sem uppfylltar væru, hvernig gert væri upp á milli hinna ýmsu aðlla, sem eiga kröfur á ríkissjóð.

Ég veit vel, að bæði ríkissjóður sjálfur og ýmsar ríkisstofnanir þurfa meira rekstrarfé. En það eru margir aðrir aðilar í þjóðfélaginu, sem líka þurfa meira rekstrarfé. Og það er nú ef til vill alls ekki fjarri lagi, að bankar ríkisins, þegar ríkið á nú alla bankana í þjóðfélaginu, sjái ríkisstofnunum að einhverju leyti fyrir rekstrarfé. Það er ekki eðlilegt að fara inn á þá braut, að hver einasta ríkisstofnun hafi aðstöðu til skattálagningar á almenning til þess að safna sér rekstrarfé. Þessi hamslausa auðsöfnun jafnt af hálfu einstakra ríkisstofnana sem annarra stofnana í þjóðfélaginu fer að verða það frek, það nærgöngul gagnvart almenningi, að grundvöllurinn brestur, sem þetta allt saman byggist á, ef svona er haldið áfram. Og dálítið af því, sem hæstv. ráðh. var að upplýsa, sem sé gjöldin til togaraútgerðarinnar, borgun af lánum, sem hún ætti að standa undir, gefur okkur ofur litla vísbendingu um, hvernig verið er með því, hvað vægðarlaust er tekið frá fólkinu og atvinnulífinu, að brjóta niður grundvöllinn, sem öll okkar framleiðsla byggist á.