13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (3550)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru fá ár síðan það gerðist í Bretlandi, að fjármálaráðherra, sem var að ganga inn í þingsalinn, gaf blaðamanni upplýsingar um eitt atriði úr þeirri fjárlagaræðu, sem hann ætlaði að flytja. Þetta þótti slíkt brot á þingræði í móðurlandi þingræðisins, Bretlandi, að stjórnarandstaðan kom þegar í stað fram með kröfur um, að viðkomandi ráðherra segði af sér, og ráðherrann sagði þegar af sér.

Rétt í þann mund, sem hér var að ljúka umr. um utanríkismál áðan utan dagskrár og hæstv. ráðherra hafði flutt skýrslu sína, barst málgagn þess stjórnmálaflokks, sem hæstv. utanrrh. tilheyrir, hér inn í þingsalinn, og má þó vel vera, að blaðið hafi verið komið út um bæ áður, og þykir mér það líklegt.

Ég fékk vitneskju um það í kvöld, mörgum klukkustundum áður en hæstv. utanrrh. flutti sína skýrslu, að hæstv. ráðh. mundi í dag hafa afhent einu af dagblöðum bæjarins handrit af skýrslu sinni. Ég gekk því á fund ráðh. og spurði hann um, hvort hann hefði þegar afhent handrit af skýrslu sinni til einhverra af blöðunum í bænum, og kvað hann já við því. Hann sagðist hafa afhent Tímanum handritið af skýrslunni, til þess að það blað gæti birt skýrsluna sem frétt í fyrramálið. Ég lét í ljós við hæstv. ráðh. óánægju mína yfir því, að þau vinnubrögð væru viðhöfð að ætla ekki öllum morgunblöðunum skýrsluna til birtingar sama dag og að þarna væri gert upp á milli blaðanna og flokksblað hæstv. ráðh. látið þar sitja sérstaklega fyrir, en hæstv. ráðh. gat þess, að Morgunblaðið hefði einnig áskilið sér rétt til að fá skýrsluna til birtingar. Þegar þetta hafði gerzt, þá gerði hæstv. ráðh. ráðstafanir til þess, að önnur blöð bæjarins fengju handritið af skýrslunni eða afþrykk af handritinu úr prentsmiðju þeirri, sem Tíminn, flokksblað hæstv. ráðh., er prentað í.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að ég hygg, að um það verði ekki deilt, að það er óviðurkvæmilegt að fara svo með utanríkismál eins og hér hefur verið gert. Handritið að ræðu hæstv. ráðh. hefur verið í höndum prentara og blaðamanna mörgum klukkutímum áður en nokkur alþm. fékk vitneskju um málið. (Gripið fram í.) Nei, þetta er að segja skoðun sína á máli, sem virðist vera full ástæða til að segja skoðun sína á. — Það er alveg augljóst mál, að við hefðum getað fengið handritið að þessari skýrslu úr ritstjórnarskrifstofum blaðanna hingað niður í þinghús, og kannske hefði hún getað farið í aðrar áttir til borgara í bænum, áður en hv. alþm. fengju nokkra vitneskju um það, hvað í skýrslunni fælist. Ef svo hefði verið, að stórpólitísk utanríkismál hefðu verið upplýst í þessari skýrslu hæstv. ráðh., þá held ég, að flestum kæmi saman um, að það hefði verið óviðkunnanlegt, að hinir og þessir borgarar í bænum hefðu fengið skýrsluna í hendur og vitað um efni hennar og innihald löngu áður en nokkur alþm. hefði fengið vitneskju um efni hennar. Ég held, að jafnvel hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar hafi naumast brjóstheillindi til að mæla gegn því, að þetta hefði verið óviðkunnanlegt. (Gripið fram í.) Já, hæstv. forsrh. er kaldur, en hann er áreiðanlega ekki svo ís-jökulkaldur, að hann ekki blygðist sín fyrir það, að svona sé haldið á birtingu frétta um utanríkismál eins og hér hefur verið gert. Og ef hann er ekki nógu kaldur til þess, þá er áreiðanlega enginn hinna ráðherranna svo kaldur, að þeir viðurkenni ekki, að þarna hefur verið farið mjög óviðurkvæmilega með mál.

Nú kann einhver að segja: Ja, í þessu tilfelli er nú enginn skaðinn skeður, af því að skýrsla hæstv. ráðh. hafði engan boðskap að flytja, og þess vegna mátti hún gjarnan fara hvert sem vera vildi. Það er nú í raun og veru hrein tilviljun, og ber auðvitað að harma það, að innihaldið skyldi ekki vera neitt, en það hefðu getað verið hér stórpólitísk tíðindi, og þá hefði, undir þeim kringumstæðum, borið mjög að harma, að svona var farið að þessu.

Það er tvennt, sem ber að harma í þessu tilfelli. Það er þetta, að það skyldi vera ætlun hæstv. ríkisstj. að gauka handriti að ræðu hæstv. utanrrh. að stjórnarblöðunum einum, það er út af fyrir sig ærið vítavert, og í annan stað að láta efni slíkrar skýrslu, sem ætluð var þinginu fyrst og fremst og lofuð þinginu fyrir löngu, berast til annarra aðila löngu áður en alþm. áttu kost á að fá að vita um efni þessarar skýrslu.

Ég hygg, að það sé ekkert úr vegi, að Alþingi Íslendinga temji sér í meginatriðum vinnubrögð hins brezka parlamentis, og þó að við gerum ekki eins strangar kröfur til okkar þings um þingleg vinnubrögð, þá er þó bilið hér á milli og þess, sem brezkar parlamentarískar venjur heimta, svo geysivítt, að við það verður vitanlega ekki unað. Þetta er auðvitað algerlega óþingræðisleg meðferð á máli, og ég get ekki annað en talið það nauðsynlegt að láta í ljós óánægju mína yfir slíkum vinnubrögðum. Vitanlega eiga blöðin í bænum að fá á sömu stundu öll slíka skýrslu sem hér er um að ræða, og ekkert þeirra átti að fá skýrsluna í hendur fyrr en hæstv. utanrrh. væri byrjaður að flytja skýrsluna í þinginu. Það er mín skoðun, og þykir mér gaman að heyra, hver gild rök hæstv. ráðherrar eða stuðningsmenn stjórnarflokkanna hafa gegn því. Og ef þannig hefði verið farið að, að öll blöðin hefðu fengið handrit að skýrslunni samtímis og ekkert þeirra fyrr en hæstv. ráðh. hóf mál sitt, þá hefði verið farið réttilega að með flutning málsins fyrir þinginu. En hitt er einnig óviðurkvæmilegt, að menn úti um bæ skuli geta fengið handrit að ræðu hæstv. ráðh. í hendur án nokkurra skuldbindinga um þagnarheit, meðan þingmenn vita ekki neitt um þessi mál. Ef þetta væri óviðurkvæmilegt snertandi fjárlög og fjárlagaumr., þá er það ekki síður þegar um viðkvæmt utanríkismál er að ræða.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. En ég held, að það sé ekkert úr vegi, að við skiptumst á orðum um það, hvort þetta séu þingleg vinnubrögð, og hæstv. stjórn er þá ekkert of góð til þess að mæla þessu bót ofan á önnur vinnubrögð, sem hún hefur þurft að mæla bót núna undir þinglokin.