01.03.1954
Sameinað þing: 36. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

Minning látinna manna

forseti (JörB):

Síðastliðinn föstudag, 26. febrúar, andaðist hér í bænum á 69. aldursári Hallgrímur Benediktsson stórkaupmaður, en hann átti sæti um skeið á Alþingi fyrir fáum árum. Ég vil nú minnast nokkrum orðum þessa þjóðkunna afhafnamanns.

Hallgrímur Benediktsson var Austfirðingur, fæddist 20. júlí 1885 á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, sonur Benedikts smiðs og bónda frá Refstað og Rjúpnafell í Vopnafirði Jónssonar prests í Reykjahlíð Þorsteinssonar og seinni konu hans, Guðrúnar Björnsdóttur bónda á Karlsstöðum í Reyðarfirði og síðar á Stuðlum í Viðfirði Þorleifssonar. Hann ólst upp hjá frænda sínum, séra Birni Þorlákssyni á Dvergasteini, til tvítugsaldurs, stundaði síðan nám í verzlunarskólanum 1905–1906, gerðist að því loknu starfsmaður í pósthúsinu í Reykjavík, en hafði það starf á hendi skamma hríð og hvarf að verzlunarstörfum, sem hann stundaði 1907–1911, en þá stofnaði hann umboðs- og heildverzlun, sem jafnan hefur síðan verið við hann kennd, og rak hann hana einn fyrstu tíu árin, síðan um 19 ára skeiðfélagi við annan mann, en í s. l. hálfan annan áratug hefur hann einn veitt henni forstöðu. Þessi verzlun hefur lengi verið í tölu stærstu heildverzlana landsins, og má telja Hallgrím einn meðal frumherja íslenzkrar stórkaupmannastéttar. Auk verzlunar sinnar átti hann og þátt í stofnun ýmissa fyrirtækja á verzlunarsviðinu, svo sem h/f Shell á Íslandi og Ræsis, og átti sæti í stjórn þeirra. Um langt skeið var hann formaður stjórnar Verzlunarráðs Íslands og í framkvæmdanefnd Vinnuveitendafélags Íslands. Í stjórn Eimskipafélags Íslands átti hann sæti í tæpan þriðjung aldar, eða frá 1921 til dauðadags, var lengst af varaformaður, en formaður síðustu árin. Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur á árunum 1926–1930 og aftur frá 1946–1954, var varaforseti hennar 1946—1952, en síðan forseti til loka kjörtímabilsins. Í hafnarstjórn Reykjavíkur átti hann og sæti um 8 ára skeið, frá 1946–1954. Hann tók sæti á Alþingi 1945 sem varamaður Jakobs Möllers, þm. Reykv., sem þá varð sendiherra í Kaupmannahöfn, var síðan kosinn þm. Reykv. 1946 og sat á þingi út kjörtímabilið, til 1949.

Á yngri árum lagði Hallgrímur mjög stund á íþróttir, einkum íslenzka glímu, og varð afreksmaður í þeirri grein. Hann varð glímukóngur Íslands í konungsglímunni á Þingvöllum 1907 og vann silfurbikar á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi fimm árum síðar, 1912. Frækleiks hans á þessu sviði mun lengi minnzt og eigi síður hins, hve drengilega hann sótti og varðist. Það drengskapareðli var og jafnan uppistaðan í framkomu hans allri og störfum á lífsleiðinni og sá þátturinn í persónuleika hans, sem framar öllu öðru hóf hann til margháttaðra trúnaðarstarfa og mannaforráða.

Hallgrímur Benediktsson ávann sér þegar á unga aldri sérstakt traust og virðingu stéttarbræðra sinna og alls almennings fyrir lipurð, orðheldni og heiðarleik í viðskiptum, og varð hann snemma í fylkingarbrjósti út á viðverzlunarstétt og vinnuveitenda, ekki fyrir harðfylgi, vopnfimi eða mælsku sakir, heldur þeirra mannkosta, sem hverjum forustumanni eru eða ættu að vera ekki síður nauðsynlegir og hann átti til að bera í ríkum mæli, góðvildar, stillingar, lagni og fastlyndis í sókn að settu marki. Hann naut því óvenjulegrar mannhylli og mun hafa átt fáa eða enga óvildarmenn. Ég hygg, að þeir, sem kynntust honum hér á þingi, muni allir minnast prúðmennsku hans og bera til hins hlýjan hug: Ég vil biðja þingheim að votta þessum látna merkismanni virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]