20.10.1953
Neðri deild: 8. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

35. mál, síldarmat

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 35, sem hér er tekið til meðferðar, er samhljóða brbl., sem gefin voru út 20. júlí s.l., um breyt. á l. frá 1938, um mat á matjessíld og skozkverkaðri síld. Samkv. löggjöfinni frá 1938 hefur verið tekið 25 aura matsgjald til ríkissjóðs af matjessíld og skozkverkaðri síld. Þar sem þetta 25 aura matsgjald, sem aðeins hefur verið tekið af tveimur tegundum saltsíldar, — hefur hvergi nærri staðið undir þeim kostnaði, sem ríkið stendur straum af í sambandi við matið, er nú gert ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir, að matsgjaldið verði hækkað í eina krónu af hverri útflutningsmetinni saltsíldartunnu. — Í frv. er einnig gert ráð fyrir, að þetta sama matsgjald, 1 kr. á tunnu, verði sömuleiðis tekið af þeirri síld, sem metin er með frjálsu mati.

Á þskj. 57 hefur sjútvn. þessarar hv. d. gefið út nál., þar sem hún mælir samhljóða með, að frv. verði samþykkt.