14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

7. mál, gjaldaviðauki

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið hingað frá hv. Ed. Það er um heimild fyrir stjórnina til að innheimta ýmis gjöld 1954 með viðauka, og er þetta framlenging á þeim gjaldahækkunum, sem gilda í ár, að því undanskildu, að ákvæði, sem hafa verið í lögum um að innheimta eignarskatt með 50% álagi, hafa verið felld niður, vegna þess að gert er ráð fyrir því, að sett verði ný lög um tekju- og eignarskatt á þessu þingi.

Fjhn. hefur athugað þetta frv., borið það saman við gildandi lög og mælir með því, að það verði samþ. Einn nm., hv. 1. landsk. þm., hefur þó skrifað undir nál. með fyrirvara.