01.03.1954
Efri deild: 54. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég þarf engu að bæta við hina greinagóðu framsöguræðu hv. frsm. fjhn. um þetta mál né heldur við svarræðu hans nú áðan, en það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi leyfa mér að taka fram.

Fyrra atriðið er um þann búning, sem þetta frv. var í, þegar það var lagt fyrir þingið og nefndina. Það hefur aðeins verið vikið að því og brtt. bera það með sér, að a.m.k. frá sjónarmiði nefndarinnar var sá búningur lítt forsvaranlegur, og það var þess vegna mjög vafasamt í hugum n. og nm., hvort henni bæri sem þingnefnd að leggja fram þá vinnu sem þurfti til þess að endurskoða þetta frv. Ég sem form. n. átti töluverðan þátt í því, að það ráð var þó upp tekið, en ég vildi láta það koma skýrt fram, að með því er ég þó ekki að viðurkenna það, að slíkur frágangur stjórnarfrv. eigi að eiga sér stað. Og það er alveg óvist, ef ég verð formaður í nefnd, sem fær annað eins plagg til meðferðar, að ég styðji að því oftar, að það verði afgr. öðruvísi en með frávísun.

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á, er út af 36. brtt. n., um starfsmenn Alþingis. Þar fannst mér hv. frsm. ekki taka nægilega skýrt fram ástæðuna til þeirrar brtt. Hann nefndi það réttilega, að till. væri borin fram eftir beiðni skrifstofustjóra Alþingis og ákvæði till. væru í samræmi við venjur, sem gilt hafa. En ég vil, að það komi skýrt fram, að það liggja dýpri orsakir til þess, að þessi till. er fram komin og hún á rétt á sér og á að samþykkjast. Frumorsökin er sú, að Alþingi er fullvalda stofnun í þessu þjóðfélagi. Það er ekkert vald til í þjóðfélaginu, sem hefur yfir Alþingi að segja. Löggjafarvaldið, sem Alþingi fer með, er alveg jafnrétthátt framkvæmdavaldinu eða ríkisstj. Ég finn ástæðu til að taka þetta fram, sökum þess að ég hef einstaka sinnum orðið var við það, að ríkisstj. hafa talið sig eiga að ráða yfir eða taka ákvarðanir um það, sem forsetum Alþingis réttilega ber að taka ákvarðanir um. Þess vegna var rétt að taka þetta skýrt fram í þessum lögum, þótt það hefði að vísu engu breytt að nefna ekkert um starfsmenn Alþingis. En það er þó þörf á að benda á þetta í þessum lögum, úr því að þau eru sett á annað borð, að starfsmenn Alþingis séu þarna undanþegnir. Og þar með er auðvitað ekki átt við starfsmenn Alþingis í þrengri merkingu þess orðs, heldur er vitanlega Alþingi og forsetar Alþingis algerlega óháð fyrirmælum. ríkisstjórnar um þau atriði, sem varða þingið sérstaklega. Um það eiga forsetarnir og þingið sjálft að taka ákvarðanir.