25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er einn þeirra, sem varð fyrir miklum vonbrigðum, þegar ég sá skattafrv. hæstv. ríkisstj. Það er fyrst að segja, að undanfarin 2 ár rúm hefur starfað mþn. að endurskoðun skattalöggjafarinnar, og því hefur tvívegis verið heitið af hæstv. ríkisstj., fyrir tvö þing, að leggja fram frv. um heildarendurskoðun á skattakerfi landsmanna. Þessu loforði hefur hæstv. ríkisstj. tvívegis brugðizt. Stjórnin hafði skuldbundið sig til þess að leggja fram nýtt frv., sem í fælist endurskoðun á öllu skattakerfinu, fyrir síðasta þing. Hún hafði aftur endurtekið það loforð fyrir þetta þing. Frv. átti því í síðasta lagi að liggja fyrir í upphafi þingsins, og það átti að vera um endurskoðun á öllu skattakerfinu. Hver er efnd þessa tvíendurtekna loforðs? Hún er þetta frv., sem nú er lagt fram undir þinglok, og það er ekki um endurskoðun á heildarskattakerfi þjóðarinnar, heldur felst í því nokkur breyting, að vísu sem betur fer til lækkunar á persónusköttunum. Annað er ekki gert. Félagaskattarnir, allt skattakerfið, sem að þeim lýtur, er látið haldast algerlega óbreytt, en skattar félaga einvörðungu lækkaðir um 20%, án þess að gerð sé nokkur tilraun til þess að taka til endurskoðunar þann grundvöll, sem sú skattaálagning hvílir á. Það er mjög undarlegt, að skattar félaga skuli færðir niður að meðaltall og almennt um 20%, þegar skattstígum einstaklinganna er breytt þannig, að á mörgum tekjubilum einstaklinga lækkar skatturinn alls ekki neitt. Ég vil því segja þegar í upphafi máls míns, að mér hafa orðið mikil vonbrigði að þessu frv., þótt vissulega sé nokkuð gott um það að segja, eins og ég mun koma að hér rétt á eftir.

Hæstv. fjmrh. gumaði mjög af því í ræðu sinni í gær, að hér væri um stórkostlega skattalækkun að ræða, sem skattstofan hefði áætlað um 29% að meðaltali, og bar það saman við mjög umtalaða skattalækkun í Kanada, því gósenlandi, sem numið hefði 11% og þótt mikið. Bæri það því vott um, að ríkisstj. hér væri sannarlega Kanadastjórn, þótt vís væri, miklu fremri og frjálslyndari að þessu leyti. En hér eru blekkingar á ferð, og það miklar blekkingar. Skattakerfið í Kanada er allt öðruvísi en skattakerfið hér á Íslandi. Hlutdeild beinu skattanna er hér mjög lítil í heildarskattheimtunni. Ég hygg, að óhætt sé að segja, að hún sé lægri hér en nokkurs staðar annars staðar í nágrannalöndunum. Tölur varðandi Kanada veit ég ekki með vissu, en um nágrannalöndin gildir það, að íslenzka ríkið heimtar miklu minni hluta af sínum heildartekjum með beinum sköttum heldur en nokkurt þeirra. Þess vegna er tiltölulega mikil prósenttala lækkunar á beinu sköttunum mjög lítil lækkun á heildarskattabyrðinni á almenningi. Það skiptir mestu máli í þessu sambandi, en ekki háar prósenttölur á mjög litlar skattupphæðir. Geri ég ráð fyrir því, að sú skattalækkun, sem í kjölfar þessa frv. mundi sigla, geti varla verið meiri en einhvers staðar milli 10 og 15 millj. kr. Það er verið að létta 10–15 millj. kr. byrði af skattþegnunum, og það er þetta, sem hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. finnst sérstök ástæða til þess að guma af. Mér finnst ekki vera mikil ástæða til þess, þótt vissulega sé það svolítið spor í rétta átt.

Tekju- og eignarskatturinn er á fjárlfrv. fyrir yfirstandandi ár, nýsamþykktu, áætlaður um 60 millj. kr. Þegar það er haft í huga, að þjóðarframleiðslan hefur á s.l. ári verið áætluð um 2500 millj. kr., þá kemur í ljós, að allir beinu skattarnir, sem ríkið innheimtir af tekjum gjaldendanna, nema aðeins 2.4% af heildarþjóðartekjunum. Í raun og veru liggur það í augum uppi, að við slíkt tekjuskattakerfi, sem miðast við það að láta þegnana í heild greiða aðeins 2.4% af þjóðartekjunum til þarfa ríkisins, er eitthvað meira en lítið bogið, enda er sannleikurinn sá um skattakerfi okkar, eins og það er framkvæmt, að það er fyrst og fremst skattur á launamenn, fyrst og fremst skattur á fólk í stærstu kaupstöðunum og kauptúnunum, en félög og ýmsir atvinnurekendur í landbúnaði og sjávarútvegi sleppa margfalt léttar undan skattabyrðinni en launþegarnir í stærstu bæjunum. Ef tekið er tillit til þess, að sveitarfélögin innheimta mestan hluta tekna sinna sem beina skatta, má gera ráð fyrir því, að beinu skattarnir í heild verði um eða yfir 200 millj. kr. En jafnvel það er ekki nema 8% af öllum þjóðartekjunum. Allir beinir og óbeinir skattar munu á s.l. ári hafa reynzt um 550 millj. kr. og þar af beinu skattarnir aðeins um 200 millj., og það er þetta, sem er séreinkenni á skattakerfi okkar, hve beinu skattarnir eru orðnir tiltölulega litill hluti af heildarskatttekjunum.

Um það er ekki að villast, að nú um langt undanfarið skeið hafa beinu skattarnir samt hvílt allt of þungt á því fólki, sem hefur orðið og talið sjálfsagt að telja fram allar tekjur sínar til skatts, beinlínis vegna þess, að þótt heildartekjuupphæðin hafi ekki verið mjög há, þá hefur skatteftirlitinu verið svo mjög ábótavant, að skattabyrðin hefur fyrst og fremst lent á tiltölulega fámennum hópi launþega og vissra félaga, sem hafa talið fram verulegar tekjur. En þó er það þannig, og það gerði ég að umtalsefni einu sinni á síðasta þingi, að mann rekur í rogastanz, þegar maður athugar skýrslur skattstofunnar um það, hvernig tekjuskatturinn skiptist á Reykjavík, kaupstaði, kauptún og á sveitir. Það kemur í ljós, að langmestur hluti tekjuskattsins er innheimtur í Reykjavík og talsverður hluti hans í hinum stærri kauptúnum, en mjög hverfandi hluti hans í sveitum. Ef athuguð er skipting tekjuskatts í heild milli einstaklinga og félaga, þá rekur mann einnig í rogastanz. Því miður fann ég ekki upplýsingar um þetta, áður en fundur byrjaði, svo að ég hef þær ekki alveg á reiðum höndum, en mig minnir, að ég hafi séð upplýsingar um, að af um 55 millj. tekjuskatti í heild séu aðeins 8 millj. greiddar af öllum félögum í landinu. Skýtur þetta nokkuð skökku við þær upplýsingar hv. 3. þm. Reykv. hér áðan, þar sem hann kvartaði mjög undan þeirri óhæfilegu skattabyrði, sem á félögunum hvíldi. Það er rétt, að skattstigarnir hafa á vissu bili verið óskynsamlega háir, beinlínis ranglátir, svo að skattabyrðin hefur hvílt mjög þungt á þeim félögum, sem hafa þurft að telja fram og talið fram tekjur, sem lent hafa á þessu bili. Nákvæmlega sama gildir um einstaklinga, sem hafa talið fram tekjur sínar. Ef ég man rétt, — en það vil ég leiðrétta síðar í umr., fari og með ranga tölu, — hafa öll félög í landinu aðeins greitt á s.l. ári 8 millj. kr. í tekjuskatt. Má þá hverjum manni vera augljóst, að því fer fjarri, að félögin í heild geti kvartað undan því, að þeim hafi verið íþyngt af ríkisvaldinu með skattabyrði. Þau hafa þá, vegna ýmiss konar hlunninda, sem félögin njóta, skattfrjálsra varasjóðstillaga og þó sérstaklega vegna mjög ríflegra afskriftaheimilda, komið sér undan háu skattgjaldi þrátt fyrir hina óskynsamlega háu skattstiga, auk þess sem skatteftirliti með félögunum hefur vafalaust verið mjög ábótavant.

Ef innihald þessa frv. er athugað, má gera það á tvennan hátt. Annars vegar má bera það saman við núgildandi skattstiga og skattkerfi, en hins vegar við þau skattalög, sem hér giltu um langan tíma og hæstv. núverandi fjmrh. Átti mestan þátt í að fá lögleidd, þegar hann var nýorðinn fjmrh. fyrir 20 árum, eða 1934–35. Þá beitti hæstv. fjmrh. sér fyrir gagngerri endurskoðun skattalöggjafarinnar og setningu nýs skattstiga. Síðan eru liðin 20 ár. Þá var hæstv. fjmrh. í stjórnarsamvinnu við Alþfl.; nú er hann í stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl. Og það er mjög fróðlegt að bera — þótt ekki sé nema lauslega saman þá breytingu, sem hefur orðið á afstöðu og till. hæstv. fjmrh. á þessum 20 árum. Ég vil ekki þurfa að trúa því, að hæstv. fjmrh. hafi farið nokkuð aftur á þessum 20 árum, og heldur ekki að frjálslyndi hans hafi nokkuð minnkað. Ég er helzt reiðubúinn til þess að trúa því, að ef í ljós kæmi, að breyting hefði orðið á till. hans, þá væri það vegna þess, að hann sé nú í öðrum og eitthvað verri félagsskap en hann var fyrir 20 árum, þegar hann gerði sínar fyrstu tillögur í skattamálum. Helzt vildi ég mega trúa þessu og vona, að það sé rétt. En nú skulum við sjá, hver munurinn er á því, sem hæstv. fjmrh. lagði fram fyrir 20 árum, og því, sem hann leggur fram núna og gumar sérstaklega af.

Meðaltekjur verkamanna á þessum árum hér í Reykjavík voru samkvæmt rannsókn, sem fram fór, 2500 kr., en þá var verulegt atvinnuleysi. Sá verkamaður, sem unnið hefði 8 tíma á dag, hefði, miðað við þáverandi kaupgjaldstaxta, haft 3500 kr. í árstekjur. Nú hefur Dagsbrúnarmaður sem vinnur fullan vinnutíma, — og nú er sem betur fer ekki um atvinnuleysi að ræða, — 33–34 þús. kr. tekjur á ári. Tekjur fullvinnandi Dagsbrúnarmanns hafa um það bil tífaldazt á þessu tímabili þannig reiknað, svo að gera mætti ráð fyrir, að maður með 3500 kr. tekjur þá væri um það bil jafnvel settur og maður með 35 þús. kr. tekjur núna.

Samkvæmt skattal. frá 1935 voru raunverulegar meðaltekjur verkamanna, eins og þær voru þá, alveg skattfrjálsar, ef verkamaðurinn hafði þrjú börn á framfæri sínu, þ.e.a.s., maðurinn, sem hafði 2500 kr. tekjur og þrjú börn, var algerlega skattfrjáls. Verkamaður, sem hafði 3500 kr. árstekjur og þrjú börn á framfæri sínu, greiddi aðeins 0.1% af tekjum sínum í skatt. Maður, sem hafði 4500 kr. árstekjur og þrjú börn á framfæri sínu, greiddi samkvæmt þeim skattstiga, sem þá var lögtekinn, aðeins 0.37% í skatt, og þó að hann hefði 6000 kr. árstekjur, sem voru góðar tekjur á þeim árum, þá greiddi hann, ef hann hafði 3 börn á sínu framfæri, aðeins 1% af tekjum sínum í skatt.

Hvernig er þessu varið samkvæmt þeim till., sem hæstv. fjmrh. nú leggur fram fyrir hið háa Alþingi? Hjón með 3 börn, sem hafa 35 þús. kr. árstekjur, eiga nú að greiða 175 kr. í skatt, en þær tekjur voru í raun og veru skattfrjálsar árið 1935. Hjón með 3 börn með 40 þús. kr. tekjur eiga samkvæmt þessu frv. að greiða 340 kr. í skatt. Af 45 þús. kr. tekjum á að greiða 540 kr. í skatt, af 50 þús. kr. tekjum 785 kr., af 55 þús. kr. tekjum 1080 kr. og af 60 þús. kr. tekjum 1425 kr. Af 45 þús. kr. tekjum ætti nú að greiða kr. 166.50, miðað við sama hlutfall og gilti 1935, en nú leggur hæstv. fjmrh. til, að skatturinn verði 540 kr., eða meira en þrefaldur miðað við það, sem hann var þá. (Fjmrh.: En hvað borga hjón með 35 þús. kr. tekjur nú?) Núna, 175 kr. (Fjmrh.: Hvað eru það mörg prósent? ) Já, það er fljótlegt að reikna það, en það er hærra en 1935, því að þá varð það aðeins 0.1%. (Fjmrh.: Þetta er 1/2%.) Já, en ég hef hingað til haldið, að 1/2 % væri hærra en 0.1%. Það er fimm sinnum meira. (Fjmrh.: En er þetta mikið?) Það, sem ég er að sýna fram á, er, að till. hæstv. ráðh. núna séu hærri en þær voru 1934. Það er það, sem ég er að sýna fram á. Ég er ekki að tala um, hvort skatturinn sé hár eða ekki, heldur sýna fram á, að skattálögurnar núna eru meiri en hann lagði til að þær væru þá. Af 60 þús. kr. tekjum ætti núna að greiða 600 kr., miðað við sama hlutfall og 1934, en nú leggur hæstv. ríkisstj. til, að skattgjaldið verði 1425 kr. eða meira en tvöfalt.

Þetta nægir til þess að sýna fram á það, að þeir skattstigar, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að nú verði lögteknir og gumar af að séu lágir, eru hærri en sá skattstigi, sem hæstv. ráðh. lagði fram fyrir 20 árum. Auðvitað er hér um að ræða framfaraspor miðað við það, sem verið hefur, en hæstv. ráðh. hefur ekki enn náð því stigi, sem hann var á fyrir 20 árum, svo að enn á honum eftir að fara talsvert mikið fram til þess að verða jafnfrjálslyndur í þessum málum og hann var 1935.

Þá er annað, sem ég vildi ræða, og það er munurinn á skattgreiðslu einstaklinga og hjóna. Að því var víkið í ræðu hæstv. ráðh. og einnig í ræðu hv. 5. þm. Reykv., að í frv. væri hjónum ívilnað verulega miðað við einstaklinga. Það er rétt, að nokkurt framfaraspor er stigið í frv. í þá átt að rétta hlut hjóna miðað við einstaklinga. Ég hef gert á því lauslega athugun, hversu miklu þetta nemur. Munur á skattgreiðslu einstaklinga og hjóna með 40 þús. kr. tekjur er 590 kr., munur á skattgreiðslu einstaklinga og hjóna með 50 þús. kr. tekjur eru 995 kr., og munur á skattgreiðslu einstaklinga og hjóna með 60 þús. kr. tekjur er 1520 kr. Þetta er nokkur bót frá því, sem verið hefur, en ég tel, að mikið skortí enn á, að hér sé nógu langt gengið til þess að létta skattabyrðina á hjónum miðað við einstaklinga. Það er óeðlilegt, að þegar einstaklingur greiðir 1580 kr. af 40 þús. kr. tekjum, þá skuli hjón þurfa að greiða 990 kr. Munurinn ætti að vera meiri. Það er líka eðlilegt, að munurinn sé meiri en tæpar 1000 kr. á skattgreiðslu einstaklings og hjóna, sem hafa 50 þús. kr. tekjur. Ég tel því, að talsvert skorti á, að hér hafi verið nógu langt gengið í leiðréttingu á því misræmi, sem ríkt hefur undanfarið.

Ég hef á nokkrum undanförnum þingum flutt frv. um allróttækar breytingar á skattalögunum til þess að leiðrétta það misræmi. sem er á skattgreiðslu einstaklinga og hjóna, og þó alveg sérstaklega til þess að leiðrétta það misræmi, sem verið hefur í gildandi skattalögum og á enn að haldast samkvæmt þessu frv. í skattgreiðslu konu, sem vinnur utan heimilis, eftir því, hvort hún er ógift eða gift. Ég hef áður tekið dæmi til þess að sýna fram á ranglæti það, sem fylgir samsköttunarreglunni svo kölluðu, þ.e. þeirri reglu að leggja skatta á tekjur manns og konu saman. Mér hefur ekki unnizt tími til þess að gera athugun á því, hvernig tölur mundu verða eftir hinum nýja hjónastiga, sem hér er reiknað með, en þar sem hann breytir ekki neinu verulegu í þessu sambandi, þá vildi ég leyfa mér að hafa yfir í örstuttu máli, til þess að sýna fram á ranglæti samsköttunarreglunnar, dæmi, sem miðað er við skattstigana, eins og þeir eru núna.

Ef við gerum ráð fyrir því, að kvæntur maður hafi 30 þús. kr. árstekjur, þá nema skattar og útsvar af þeirri upphæð 3629 kr. Nú skulum við gera ráð fyrir því, að kona hans vinni utan heimilis og afli sér 20 þús. kr. tekna. Þær tekjur leggjast við tekjur mannsins, og hækka þá skattar og útsvar hans upp í 9478 kr. eða um hvorki meira né minna en 5849 kr. Ef þessi kona hefði verið ógift, hefði hún þurft að greiða í skatta og útsvar af sínum 20 þús. kr. tekjum aðeins 2075 kr., en af tekjum giftu konunnar verður að greiða meira en tvöfalda þessa upphæð eða 5849 kr. Við getum hugsað okkur, að tvær konur sitji hvor sínum megin við skrifborð í skrifstofu og hafi báðar 20 þús. kr. laun; önnur er gift, en hin er ógift. Þær vinna nákvæmlega sama verk, hafa nákvæmlega sömu tekjur. Ógifta konan greiðir af sínum tekjum 2075 kr. í skatt, en af tekjum giftu konunnar þarf hún að greiða 5849 kr. í skatt, af því að þær eru lagðar við tekjur mannsins. Einnig má skýra þetta með því að gera sér grein fyrir því, hvað þetta fólk mundi spara við það að skilja að lögum og verða þannig hvort um sig sjálfstæður skattgreiðandi. Þetta fólk hefði átt að greiða 6278 kr. samtals, ef það hefði verið ógift, en þarf að greiða 9478 kr., af því að það er gift. Það þarf m.ö.o. að greiða um það bil 50% hærri skatt vegna þess, að það er gift, heldur en það hefði þurft að greiða, hefði það verið ógift, og mundi þurfa að greiða, ef þau skildu. Slíkt skattakerfi má ekki haldast til frambúðar, og mér eru það mikil vonbrigði eftir þær fregnir, sem ég hafði haft af störfum skattamálan., að þetta frv. ríkisstj. skuli hafa verið lagt fram þannig, að engin alvarleg tilraun sé gerð til þess að leiðrétta þetta hróplega ranglæti, sem í samsköttunarreglunni felst.

Þá er að víkja fáeinum orðum að þeim frádrætti, sem sjómönnum er ætlaður í frv. eins og það hefur verið lagt fram, en hann tel ég allsendis óviðunandi, enda langt frá því að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar hafa verið af sjómannasamtökunum um þetta efni. Það er enginn vafi á því, að þau skattfríðindi, sem hér er boðið upp á, munu ekki hafa nein veruleg áhrif til þess að leysa þann vanda, sem nú er á höndum í útgerðinni varðandi það að fá sjómenn á fiskiskipin.

Þá er ákvæði í 5. gr. frv., sem ég vildi gera að umtalsefni, en það hefur ekki borið á góma í umr. fram að þessu. Í 5. gr., 2. lið hennar, eru sett skynsamleg ákvæði um það, að sé eign seld hærra verði en hún hefur verið fyrnd niður i, þá skuli söluhagnaðurinn teljast skattskyldar tekjur, þ.e. að skattur skuli greiðast af fyrningu, ef eignin er seld. Er þetta sjálfsagt og nauðsynlegt, vegna þess að atvinnurekstur nýtur verulegra skattfríðinda í formi sérstaklega hárra fyrningarafskrifta. Það kann að vera réttlætanlegt að ívilna atvinnurekstri á þennan hátt, meðan atvinnutækin eru í eign fyrirtækjanna, en það er auðvitað sjálfsagt að láta þessa ívilnun falla niður, ef eigandinn selur eignina með hagnaði. Meiningin var að ívilna atvinnurekandanum með afskrift tækisins, meðan hann notaði það í þágu atvinnurekstrarins, en ástæðulaust að halda ívilnuninni áfram, ef hann selur eignina með hagnaði. Heildarákvæðin um þetta tel ég skynsamleg og mjög til bóta frá því, sem verið hefur áður í skattalöggjöfinni, en það er gerð undantekning frá hinum almennu reglum um þetta efni að því er snertir fasteignir og skip. Það er ekki óeðlilegt að gera undantekningar um fasteignirnar, vegna þess að fyrning á þeim skiptir yfirleitt mjög litlu máli, og ef fasteign er seld verulega hærra verði en hún hefur verið fyrnd niður í, má gera ráð fyrir, að þar sé um verðbreytingu að ræða, og samkv. almennri meginreglu skattalaganna er verðbreytingahagnaður ekki talilin skattskyldur, ef eignin hefur verið í eigu gjaldanda lengur en vissan tíma. En ég sé enga ástæðu til þess að undanþiggja frá hinni almennu reglu öll skip, einmitt vegna þess að skip njóta samkv. gildandi lögum verulegra skattfríðinda, þ.e.a.s. þeirrar reglu að mega afskrifa kaupverðið á fimm árum eða afskrifa 20% á fyrstu fjórum árunum, sem skip er í notkun. Með því að gera skip undanþegin hinni almennu reglu um, að söluhagnaður skuli vera skattskyldur, er í raun og veru verið að láta skattaívilnanir til handa eigenda skipa haldast, jafnvel þó að skipið hverfi úr eigu atvinnurekandans og til annars atvinnurekanda. Auk þess er ekkert ákvæði því til fyrirstöðu, að hinn nýi eigandi megi byrja að afskrifa skipið aftur og fái þannig aftur þau skattahlunnindi, sem fyrri eigandi hafði fengið og meira að segja fengið að hafa skattfrjáls. Þetta er ákvæði, sem ég tel ófært eins og það er og brýna nauðsyn bera til þess að laga.

Þá vil ég fara fáeinum orðum um reglurnar, sem hér eru um skattfrelsi sparifjár. Ég fellst algerlega á þá röksemdafærslu hæstv. fjmrh., að brýna nauðsyn beri til þess að efla sparnað í landinu með öllum skynsamlegum ráðum, sem tiltækileg þykja. Eitt af þeim ráðum, sem hér koma til greina, er að undanþiggja sparifé skattgreiðslu, og ef sérfróðir menn vænta verulegs árangurs af ákvæði í þá átt að undanþiggja sparifé skatti, þá tel ég það vel þess vert að gera tilraun í þá átt. En hitt finnst mér mjög varhugavert, að undanþiggja spariféð einnig framtalsskyldu, vegna þess að ég sé ekki annað en að það geti orðið til þess, að allt skattaeftirlit af hálfu skattstjóra og skattanefnda verði hinum mestu erfiðleikum bundið, og er þó sannarlega ekki aukandi á þá erfiðleika, sem skattstjórar og skattanefndir hafa átt við að stríða varðandi eftirlit með framtölum. En ég hygg, að á þá mundi verða stóraukið með þessu, svo að afleiðingin af þessu ákvæði yrði sú, að skattabyrðin á launþegum, sem hljóta að telja fram hvern eyri af tekjum sínum, muni enn aukast, en skattabyrðin á atvinnurekendum ýmsum, bæði einstaklingum og félögum, muni enn léttast frá því, sem verið hefur, og fer þá þróunin vissulega í öfuga átt við það, sem hún hefði átt að fara.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að mér hafa orðið vonbrigði að því, að þetta frv. skyldi ekki vera um heildarendurskoðun á skattalöggjöfinni. og þó alveg sérstaklega, að enn skuli eiga að halda áfram með skattakerfi algerlega óbreytt og þ. á m. það kerfi, sem beitt hefur verið til eftirlits með skattaframtölum. En það hefur auðvitað verið höfuðmeinið í skattakerfi okkar, hvað tekjurnar hafa talizt illa fram, svo sem greinilega má sjá af því, eins og ég gat um í upphafi, að allir beinir skattar ríkisins skuli ekki vera nema 2.4% af verðmæti þjóðarframleiðslunnar og allir beinir skattar til ríkis og sveitarfélaga ekki nema 8% af öllu þessu verðmæti þjóðarframleiðslunnar. Höfuðundirrótin undir þessu er tvímælalaust sú, að upplýsingar um tekjurnar heimtast mjög illa. Ég ásaka engan í því sambandi, bendi aðeins á þá staðreynd, að skattakerfið skuli verka þannig, að það sé fyrst og fremst skattur á þá launþega, sem geta ekki komizt undan því að telja tekjur sínar fram. Það, sem einna helzt þurfti að gera, fyrir utan það að lækka hina óeðlilega háu skattstiga og leiðrétta misræmið á milli hjóna og einstaklinga, var einmitt að gera till. um ráðstafanir, sem væru haldgóðar í þessu efni. Mestu vonbrigðin í sambandi við þetta frv. eru einmitt þau, að það skuli látið undir höfuð leggjast og það skuli eiga að halda við því dýra bákni, sem tekjuskattsheimtan er, án þess að nokkur tilraun sé gerð til að tryggja það, að tekjurnar skili sér betur, þannig að skattheimtan verði réttlátari. Tekjuskalarnir eru nú lækkaðir, þannig að raunverulegu tekjurnar minnka, en báknið allt, sem í kringum skattheimtuna er, á að haldast óbreytt. Það minnsta, sem gera þurfti, var að setja einhver haldgóð ákvæði til þess að tryggja, að þeir, sem undanfarin ár hafa komið sér undan að greiða skatt, verði nú að greiða skatt, a.m.k. jafnmikinn og skattalækkun einstaklinga nemur, en ekki er nokkur minnsti vafi á því, að hægur vandi væri að gera ráðstafanir til þess, að skatttekjurnar ykjust stórum þrátt fyrir lækkun á skattstigunum. Slíku frv. hefði ég séð ástæðu til þess að fagna alls hugar. Kjarni frv. hefði átt að vera, að tekjuskattstigarnir hefðu verið lækkaðir verulega, persónufrádrátturinn aukinn, bilið á milli einstaklinga og hjóna gert stærra, ranglæti samsköttunarreglunnar afnumið, en jafnframt gerðar ráðstafanir til þess að tryggja, að tekjurnar skiluðu sér betur, þannig að af þessu þyrfti ekki að leiða tekjuminnkun fyrir ríkissjóð, svo að nokkru næmi, þannig að hann gæti eftir sem áður staðið undir þeim skuldbindingum, sem hann hefur tekið sér á hendur.