05.04.1954
Efri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þó að þetta sé 1. umr. og eigi aðeins að tala um málið almennt, þá vil ég benda á einstök atriði, sem ég tel að þurfi að breyta í lögunum, og ég geri það í því trausti, að sú n., sem fær málið til meðferðar, athugi það gaumgæfilega.

Um frv. sem heild vil ég nú segja þetta fyrst og fremst: Ég er viss um það — alveg, viss um það, að sú skattalækkun, sem fram kemur eftir frv., er miklu meiri en hefur verið reiknað með. Ég er alveg viss um það, að með sama skattstofni fást a.m.k. helmingi minni tekjur fyrir ríkissjóð eftir frv., eins og það er núna, heldur en eftir skattalögunum, eins og þau eru í dag. En nánar skal ég ekki út í það fara. Ég er líka alveg viss um það, að það liða ekki fimm ár, þangað til við förum að hækka þessa skatta aftur og það verulega. Nánar skal ég ekki fara út í það heldur, og ég tel ófyrirsynju þessa lækkun á sköttunum núna, þó að ég hins vegar muni ekki leggja mig á móti þeim. En það, sem ég vil benda á, er það, að í svona lögum þurfum við að hafa ákvæði, sem menn geta farið eftir og skilið, en ekki ákvæði, sem hægt er að toga á ótal enda og kanta. Ein skattanefndin af þeim nokkuð á þriðja hundrað, sem eru í landinu, getur skilið það á þennan veg og önnur á hinn o.s.frv., og það eru slík atriði í þessum lögum, sem ég vil benda á.

Ég vil þá fyrst benda á og biðja n. að athuga viðvíkjandi 5. gr. frv., sem er breyting á 7. gr. skattalaganna, og þar vil ég biðja menn að athuga 2. tölulið. Þar segir: ,Nú selur skattþegn fasteign, sem hefur verið í eigu hans skemur en fimm ár, en kaupir aðra innan árs eða byggir hús, áður en tvö ár eru liðin frá söludegi, og skal þá sölugróði“ o.s.frv. Nú er það svo, að svo að segja hver einasti maður sem byggir hús hér í Reykjavík, er mörg ár að byggja húsið. Ég man eftir manni, sem hefur verið í 7 ár alltaf í húsbyggingu, alltaf verið að smáhækka byggingarkostnaðinn hjá sér á hverju ári, þangað til hann loks var búinn. Þess vegna er ómögulegt fyrir nokkra skattanefnd að gera þetta upp hjá manninum, sem byggir, eftir tvö ár. Það er ekki hægt. Þegar ég spyr skattstjórann, hvernig hann ætli sér að gera þetta, þá segir hann: Ja, hann verður að vera búinn að byggja húsið sitt. — Það stendur ekkert um það. Það stendur hérna um, að hann byggi sér hús. Ef það stæði, að hann hefði lokið við að byggja hús eftir tvö ár, þá væri enginn vandi að framkvæma það. Ég hef leyft mér að gera við þetta brtt., sem er í prentun, og ég bið n. að athuga hana vel.

Þá er það síðari málsl. sömu gr., sem ég hef þó ekki gert um brtt., en ég vil benda n. og öllum hv. þm. á, og það er það, að það eru allt önnur ákvæði, sem gilda alls staðar og alltaf um fasteign eða skip eða flugvél. Það er alveg sitt hvað. Fasteignin afskrifast eftir föstum reglum af fasteignarmati, og hún færist ekki niður í verði. Skipið og flugvélin afskrifast af kostnaðarverði og færast niður í verði árlega. Svo á sama að gilda um þetta tvennt eða þetta þrennt, þegar það er selt. Þetta finnst mér bara hugsunarvilla, sem sé að setja fasteignina þarna í sama flokk og skipið eða flugvélina og gera það tvennt að fasteign og láta fara með það eins og fasteign. Langsamlega mesti gróðinn, sem er hér á landi, er einmitt í sölu þessara hluta. Hann er einmitt í sölu skipanna. Hann er fólginn í því að fá að afskrifa skipin með 20% í tvö eða þrjú ár og selja þau svo á kostnaðarverði og hafa skattfrjálst allt, sem er búið að afskrifa. hetta bendi ég á. En ég veit ekki, hvort það þýðir nokkuð að gera það, og það er hægt að framkvæma það svona; það er ekki neitt í veginum með það. En það er algert ranglæti og opnaður möguleiki fyrir þá menn, sem mest græða einmitt á sölu skipa ag þessara hluta, til að stórgræða þarna, sem er alveg óþarfi að gera og íþyngja atvinnuveginum.

Þá vil ég enn benda n. á það til athugunar, að eftir i-lið 4. tölul. í 7. gr. á að velta — eins og hefur verið veitt — frádrátt í ferðakostnaði þeim, sem hafa farið að leita sér atvinnu. Það er talað um „fara langferðir vegna atvinnu sinnar“. da, það er náttúrlega ekki gott að segja, hvað n. á við með þessu eða hvað meint er með þessu að fara langferðir. En ég get sagt það alveg hiklaust, að þeir, sem eyða mestu í tilkostnað við atvinnu núna, langmestu, eru menn, sem beía hérna í kringum Reykjavík, það eru menn í Hafnarfirði, sem eyða 6 kr. á dag allt árið til að koma hingað til Reykjavíkur til að sækja atvinnu. Það eru menn, sem búa uppi í Elliðahæð og eyða 5 kr. á hverjum degi allt árið til að komast til Reykjavíkur til að sækja atvinnu. Þetta er ekki löng leið. Það er miklu lengri leið austan af Seyðisfirði og í Vestmannaeyjar til að fara á vertíð. En það kostar bara miklu minna að fara austan af Seyðisfirði og í Vestmannaeyjar á vertíð heldur en að sækja atvinnu hérna af mönnum, sem búa í úthverfum bæjarins. Þess vegna veit ég ekki, hvernig á að framkvæma þetta. Þegar er farið að lögbjóða að veita mönnum þennan frádrátt svona, þá veit ég ekki. hvernig á að framkvæma það, og væri ákaflega æskilegt, að þetta „langferðir vegna atvinnu“ yrði skýrt eitthvað nánar. Við þetta hef ég nú ekki gert breytingar, en bendi n. á þetta.

Þá kem ég að k-lið í sömu grein, sem ég bið n. líka að athuga. Það er settur nýr frádráttur, þ.e. kostnaður við stofnun heimilis skal dreginn frá tekjum hjóna á því skattári, sem þau ganga í hjónaband, og skal sá frádráttur nema persónufrádrætti fyrir ómagalaus hjón samkv. 12. gr. Nú er þetta þannig í dag, að maðurinn og konan telja fram sitt í hvoru lagi. Svo giftast þau einhvern mánaðardag á árinu. Nú telur konan sjálfstætt fram að þeim degi, sem hún giftir sig, en maðurinn telur úr því framtal fyrir sjálfan sig og konuna. Svona er þetta núna. Nú eiga hjónin að fá þennan frádrátt á því ári, sem þau gifta sig. Ef t.d. Ásta ríkisféhirðir gifti sig, giftist einhverjum fátækum verkamanni í Reykjavík, ég nefni það sem dæmi, — þá er það kona í hárri stöðu, sem giftist manni, sem hefur lítil laun, — ja, ef þau gifta sig í desember, þá fær Ásta ekki nokkurt gagn af sínum frádrætti, ekki vott. Það dregst frá því, eftir að hjónin telja fram sameiginlega, og það eru hér um bil engar tekjur á framtali mannsins. Yfirleitt ef þetta á að koma að gagni, þá er ekki hægt að hafa þetta svona. há þarf það að vera á fyrsta sameiginlega framtalinu, sem kemur frá hjónunum. Þá geta þau ráðið því, hvort þau telja sameiginlega fram árið, sem þau gifta sig. Þau mega það. Það er ekkert, sem bannar þeim það í lögum. Það er bara hæstaréttardómur til, sem kveður á um það, að þau geti talið fram sitt í hvoru lagi. En það er ekkert, sem bannar þeim það í lögum. Þá geta þau talið fram saman það árið, sem þau gifta sig, ef þeim þykir það haganlegra, — eða þá að frádrátturinn kemur allur á framtal mannsins og tekjur konunnar, eftir að hann giftir sig. Um þetta hef ég lagt fram brtt., sem ég vona að n. athugi.

Þá tel ég alveg óforsvaranlegt að gera við þetta frv. breytingar á skattalögunum miðaðar við lögin 1935 og við allar þær breytingar, sem síðar hafa komið inn í, — semja þetta sem breytingar og ætla á þriðja hundrað nefndum að fara eftir þeim. Hér stendur t.d.: „3. málsl. 32. gr. laganna falli niður.“ Það eru á þriðja hundrað skattanefndir, sem eiga að muna, hver þessi 3. málsl. er, eða fletta upp í gömlu lagasafni til að finna það, þegar verið er að vinna eftir skattalögunum. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að fella breyt. inn í lögin og prenta öll lögin upp. Þetta er ekki nokkur kostnaður. Þetta eru svo sem 8 bls., sem þarf að prenta. Það kostar innan við 1000 kr. pappírinn í það. Þess vegna er alveg sjálfsagt að bæta aftan við lögin gr. um það, að lögin skuli færð inn í frumtextann ásamt áorðnum breytingum í öðrum lögum, sem eru í gildi, og prentuð upp, og nm þetta hef ég líka gert brtt.

Ég hef lagt þrjár brtt. inn, sem ég bið n. vel að athuga. Það er þarna fleira, sem ég bendi á. Ég skal líka benda henni á það, að það er enn óleystur hér hnútur, — það gerir nú ekki neitt mikið til, því að það eru fá tilfelli. Í 11. gr. stendur: „Gjaldendur skulu skattlagðir þar, sem þeir eiga lögheimili samkvæmt allsherjarspjaldskrá Hagstofu Íslands hinn 1. des. á viðkomandi skattári.“ Og þetta er það, sem hefur nú verið í raun og veru, en það á líka að skattleggja hjón saman. Einn af kennurum menntaskólans á Akureyri á þar lögheimili, er þar kennari, skipaður af ríkisstj., og kemur ekki til með að vera annars staðar en þar, sem honum er skipað að kenna. Kona hans er kaupsýslukona og rekur verzlun í Reykjavík. Hvar eiga þau að telja saman? Þau eiga að skattleggjast þar, sem þau eiga lögheimili, og þá annað í Reykjavík, hitt á Akureyri. Þetta kemur nú ekki að sök, því að þetta hefur verið framkvæmt þannig, þar sem svona stendur á, að það hefur verið skattlagt þar, sem maðurinn á heima. Þar hefur skatturinn verið á lagður, en útsvarinu aftur skipt, þau látin sitt í hvoru lagi fá útsvar. Þó að það sé nú vafasamt, þá hefur það verið gert. En þetta fer í vöxt, að hjónin eiga heima sitt í hvoru lögsagnarumdæmi. Það eru núna s.l. ár milli 10 og 20 tilfelli slík, sem ekki var neitt hér áður fyrr. Þetta er atriði, sem menn verða að athuga svolitið nánar í sambandi við útsvarslögin. En það, sem ég sérstaklega bið n. að athuga af þessu, sem ég hef núna sagt, er þetta tveggja ára ákvæði þarna, sem þarf að breyta eins og gr. er orðuð núna og ég hef gert till. um. Það er kostnaður við stofnun heimilis, sem þarf líka að breyta. Ég hef talað um það við þrjá menn, sem eru í skattanefndum, hvernig hægt sé að framkvæma það, og það eru engir þeirra sammála um, hvernig á að framkvæma lögin eins og þau hljóða núna. Svo í þriðja lagi að láta færa lögin inn í frumtextann og gefa lögin út í einu lagi. Það er alveg óumflýjanlegt.