05.05.1955
Efri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

3. mál, ríkisborgararéttur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þar sem liggur á að ljúka þessum fundi, mun ég neita mér um að svara hæstv. dómsmrh. að nokkru ráði út af ræðu hans, sem hann flutti við 2. umr. málsins. En þar sem hann nefndi Stephan G. Stephansson sem dæmi um það, að Íslendingar neyddust til að breyta nafni sínu, þegar þeir settust að í útlöndum oft og tíðum, þá er það nú að segja, að sú breyting, sem hann gerði á sínu nafni, er tæplega teljandi nokkur breyting. Við berum nafnið fram alveg nákvæmlega á sama hátt, Stefán G. Stefánsson, eins og hann hefði ekki sett ph í staðinn fyrir í í nöfnunum, og ég hef séð menn búsetta hér á Íslandi, sem heita Stefán eða eru Stefánssynir, skrifa nafnið á þann hátt eins og Stephan G. Stephansson gerði. Ef það dygði fyrir þessa útlendinga, sem fá ríkisborgararétt, að breyta nafninu svo lítilfjörlega eins og Stephan G. Stephansson gerði, þá hygg ég, að enginn mundi hrófla við því.

Þar sem 3. umr. málsins er háð þegar eftir 2. umr., hefur mér ekki gefizt tími til þess að semja brtt. við frv., eins og ég hefði viljað hafa hana. Ég tek því upp brtt., sem upprunalega var á þskj. 498, og ber hana fram sem skrifl. till., þó að ég játi, að mér líkar hún ekki að öllu leyti, því að ég sé ekki ástæðu til þess að skylda þessa útlendinga til þess að taka upp íslenzk fornöfn. En vitanlega eru þeir því vanir að vera kallaðir aðallega ættarnafninu, og sú till., sem Gylfi Þ. Gíslason bar fram ásamt fleirum, mundi mikið bæta úr, þó að betur mætti vera.

Ég leyfi mér því án þess að orðlengja þetta frekar að bera fram svo hljóðandi brtt., sem verður að teljast skrifleg:

„2. gr. orðist svo:

Þeir, sem heita erlendum nöfnum, skulu þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með lögum þessum fyrr en þeir hafa fengið íslenzkt fornafn. Sama skal gilda um barn, sem fær ríkisfang samkv. lögum þessum með foreidri sínu, en kenna skal það sig við föður, móður eða kjörföður samkv. lögum um mannanöfn. Þeir niðjar þessara nýju ríkisborgara, sem fæðast eftir gildistöku laga þessara, skulu á sama hátt kenna sig við föður, móður eða kjörföður.“

Hæstv. ráðh. gat um það, að hann mundi bera fram á næsta þingi frv. um mannanöfn, og hv. frsm. n. minntist á það fyrirheit og taldi, að þá mætti láta ákvæði þeirra laga verka aftur fyrir sig. Nú vil ég spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. dómsmrh. hefur ráðið svo efni þessa frv., að það sé ákveðið, hvernig verður um ættarnöfn og upptöku þeirra. Ef svar hans verður það, að samkv. því frv. verði möguleiki fyrir þessa menn til þess að taka sín fyrri nöfn, við skulum segja þó að einhverjar takmarkanir séu á því, ef varla er hægt að bera nafnið fram t.d. í íslenzku máli, þá mun ég taka aftur þessa till. Ég vildi gjarnan heyra svar um þetta.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Svar við fsp. hv. 1. þm. Eyf. hljóðar á þann veg, að efni þessa frv. er enn þá ekki ráðið. Ég hef fengið hæfa menn til þess að taka að sér að semja það. Það er engan veginn vist, að þeim komi saman, enn þá siður vist, að mér litist á till. þeirra, þegar þær liggja fyrir, og get ég því ekki sagt neitt nú um það, hvers efnis frv. verður. En ég mun leggja áherzlu á, að það verði a.m.k. framkvæmanlegt, sem ekki er hægt að segja um lögin eins og þau nú eru.

En úr því að hv. þm. bar þessa fsp. fram við mig, þá vildi ég spyrja hann í fyrsta lagi: Hvert varföðurnafn Stephans G.Stephanssonar? Í öðru lagi vildi ég biðja hann um að lesa fyrir mig nöfnin hér í nál. undir stafl. 2, b og c. Að þeim lestri loknum ættum við betra með að dæma um, hvort við viljum halda þeim nöfnum sem nöfnum á íslenzkum borgurum eða ekki.