06.05.1955
Neðri deild: 85. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

150. mál, kostnaður við skóla

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú varla orðin aðstaða til þess að hefja miklar umr. um þetta mál, og skal ég ekki gera það, en ég vildi þó vekja athygli á einu atriði í sambandi við þessa væntanlegu lagasetningu, sem ég óttast um að verði heldur óþægilegt í framkvæmd. Það er varðandi það, sem fram kemur í 10. gr. frv., en í lok 1. mgr. þeirrar gr. segir, að ríkissjóður taki ekki þátt í greiðslu stundakennslu fram yfir það, sem hér var talið, en þar áður hafði verið greint frá sérstökum reglum, sem við skyldi miðað.

Mér er það alveg ljóst, að eins og þessi ákvörðun er fast bundin þarna, þá mundi hún, miðað við það, sem verið hefur, koma mjög óþægilega við alla hina smærri skóla.

Til þess aðeins að vekja athygli á þessu, ef verða mætti, að það mætti í framkvæmdinni reyna að halla þessu eitthvað til, skal ég nefna dæmi um það, að í skóla, þar sem ég er vel kunnugur, einum af hinum smærri skólum miðskólastigsins, er svo ákveðið samkvæmt stundaskrá, sem viðurkennd er af fræðslumálastjórninni, að í þeim skóla heri skylda til að kenna í þrem bekkjum 104 kennslustundir á viku, og þó að þar séu dregnar frá kennslustundafjöldanum þær kennslustundir, sem geta fallið saman með samkennslu á milli bekkja, mundi samt sem áður vera óumdeilanlegur kennslustundafjöldi í þessum skála 98 stundir. Hins vegar eru gildandi reglur þannig, að fullt kennaralið við skólann mundi ekki eiga að kenna nema 84 stundir. M.ö.o., þó að farið yrði eftir ýtrustu reglum, þá er ekki leyfilegt að hafa kennara við skólann, sem eiga að kenna meira en 84 stundir, en hins vegar mundi kennslutaflan segja, að við skólann ætti að kenna að minnsta kosti 98 stundir. Þarna væri um að ræða að lágmarki til 14 stundir á hverri viku, sem þessi skóli getur nú ekki fengið neina endurgreiðslu út á, en áður hefur ríkissjóður greitt um helming af þessum kostnaði.

Mér er þó ljóst, að þar sem er um enn þá minni skóla að ræða í minni byggðarlögum en heima hjá mér, yrði þessi útkoma miklum mun óhagstæðari. Aftur á móti mundu þessar reglur, sem hér eru settar fram, ekki koma að neinni teljandi sök og líklega aldrei í stærri skólum landsins. Þetta mundi því ekki saka t.d. Reykjavík, Akureyri og Hafnarfjörð, svo að ég taki dæmi, en þegar verður komið niður í þorpsskólana, þar sem hluti af framhaldskennslunni fer nú fram, eða unglingastigið og miðskólastigið, þá er alveg tvímælalaust um það að ræða, ef á að fara að framkvæma l. eins og segir þarna í 10. gr., að þá verða sveitarsjóðirnir og hinir smærri bæjarsjóðir að leggja fram algerlega mótframlagslaust frá ríkinu alla stundakennslu í þeim skólum.

Ég er á þeirri skoðun, að það sé ekki rétt að ætla að drepa með öllu niður þá starfsemi, sem nú hefur verið tekin upp um skeið víða í hinum stærri þorpum og minni kaupstöðum, að hafa nokkurn hluta af framhaldskennslunni þar heima, en knýja menn ekki til þess að senda unglingana strax frá sér eftir barnaskólalærdóminn. Ef þessi ákvæði eru til þess að skerða þá möguleika, sem þarna hafa verið fyrir hendi, þá álít ég, að illa sé af stað farið.

Ég hef nokkuð rætt þetta við þá menn, sem hafa unnið að því að undirbúa þessa löggjöf, og þeir hafa játað það fyrir mér, að þessu væri svona varið, að þetta mundi geta bitnað nokkuð á hinum smærri skólum. Það yrði þeim kostnaðarsamara en verið hefur fram til þessa. Létu þeir í ljós, að það hefði ekki verið ætlunin, að framkvæmd þessara laga yrði til þess að skerða rétt þessara staða í þessum efnum, heldur fyrst og fremst hefði hitt verið tilgangurinn, að reyna að skapa svolítið meiri festu en verið hefur um það, hvaða rétt hvert og eitt skólahérað á til greiðslu frá ríkinu. Ég fyrir mitt leyti hef ekki á móti því, að reglur verði settar skýrari um þetta en þær hafa verið, en fari reglurnar inn á þær brautir, sem ég óttast samkv. þessu frv., að það verði verulega gengið á rétt hinna smærri staða, þá er illa farið.

Vegna þess, hvað áliðið er þingtímans og hvað þetta frv. er nú komið langt áleiðis, mun ég samt falla frá því að þessu sinni að flytja sérstaka brtt., en vildi aðeins minnast á þetta og þá að nokkru leyti með þá von, að þeir, sem hér eiga með að fara, gætu hallað þessu til þannig, með hina smærri skóla, sem sannarlega eiga þarna verulegan rétt á sér, að það yrði reynt að framkvæma þetta sem mest þeim í hag og knýja sem allra fæsta til þess að þurfa að leggja niður skóla sína með því að leggja aukinn kostnað á sveitarfélögin sjálf.