03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Það gætir nokkurs misskilnings hjá hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) í sambandi við till. þær, sem sjútvn. bárust frá stjórn fiskveiðasjóðs.

Hv. þm. gagnrýndi sjútvn. fyrir það að hafa ekki sinnt óskum þeim, sem stjórn fiskveiðasjóðs færði fram um breytingar á frv. eftir samþykkt þess við 2. umr. hér í hv. deild. Brtt. þrjár voru þess eðlis, að sjútvn. var sammála um það, að þær væru ekki til þess fallnar að bæta frv., heldur hið gagnstæða. Fyrsta og önnur brtt. gengu skemmra og voru óákveðnari hvað orðalag snertir en nú er í frv. — og voru því sízt til bóta. Þriðja brtt. var hins vegar ósk um það, að sami háttur væri á hafður hjá sjóðnum, að vextir væru teknir fyrir fram, eins og frv. gerði ráð fyrir, er það var lagt fram hér í deildinni. Sjútvn. flutti brtt. við 2. umr. frv., að vextir yrðu teknir ettir á, eins og tíðkaðist við sjóðinn á tímabilinu frá 1905 til 1930. Þessi sami háttur um greiðslu vaxta eftir á er einnig viðhafður hjá ræktunarsjóði og byggingarsjóði — og einnig hjá veðdeildum Landsbankans og Búnaðarbankans.

Í frv. er ákveðið, að vextir af lánum, sem veitt eru með veði í fiskiskipum, skuli vera 4%, en af öllum öðrum lánum 6%. Sjútvn. var sammála um að bera fram brtt. við frv., að hærri vextirnir yrðu ákveðnir 51/2% í stað 6%.

Ég vona, að hv. d. geti orðið sammála sjútvn., sem stendur einróma að þessum brtt., og geti fallizt á, að þær verði samþ.