09.05.1955
Efri deild: 85. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fyrir mjög skömmu var því frv., sem hér liggur fyrir um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1954, vísað til fjhn. d. Eins og nál. fjhn. á þskj. 782 ber með sér, hefur n. afgr. málið og leggur til, að frv. verði samþ., en einn nm., hv. 4. þm. Reykv. (HG), áskildi sér rétt til að bera fram brtt., og liggja nú fyrir brtt. frá honum á þskj. 774, sem ég skal ekki gera að umtalsefni að sinni. Annar nm., hv. þm. S-Þ. (KK), var með leyfi forseta kominn burt af Alþ., þegar n. afgr. málið, og tók því að sjálfsögðu ekki þátt í afgreiðslu þess.

Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessu frv. við 1. umr. þess, og þarf ég ekki við það að bæta og mun því ekki fjölyrða um þetta mál að ráði, en þó vildi ég aðeins taka fram nokkur atriði.

Eins og hæstv. fjmrh. gaf skýrslu um í Alþ. fyrir æði löngu, þá er svo talið, að greiðsluafgangur ríkissjóðs árið 1954 verði um 35 millj. kr., og þetta frv. er um ráðstöfun á öllum þessum greiðsluafgangi. Þegar skýrslan var gefin, gerði ég fyrir mitt leyti mér vonir um það, að þessi upphæð gæti orðið sem eins konar varasjóður til yfirstandandi árs til þess að mæta hugsanlegum halla á fjárl. og öðrum ófyrirséðum útgjöldum. En ýmis atvik hafa valdið því, að þetta getur ekki orðið, heldur er hér gerð till. um, sem sjálfsagt verður samþ. af Alþ., að ráðstafa öllum þessum greiðsluafgangi, og er þá ekki neitt eftir til að hafa sem varasjóð ríkissjóðs fyrir þetta ár.

Ég verð að láta það í ljós, þó að ég hafi mælt með þessu frv., að ég tel neyðarúrræði að ráðstafa þannig hverjum eyri fyrir fram eða nú þegar af greiðsluafgangi ríkissjóðs. En það liggur fyrir, að það var hin brýnasta nauðsyn á því að tryggja ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði aukið starfsfé. Auk þess eru fleiri greiðslur hér, sem verður að telja hina mestu nauðsyn að inna af hendi, og má segja það um alla liðina, sem í frv. eru. En um 9. liðinn, sem er 6 millj. kr. í framlag ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginga, er það að segja,að það kann að vísu að vera nauðsynjamál, en þetta er algert nýmæli og stafar frá kjarasamningunum, sem gerðir voru nú fyrir skömmu. Með þessu er gengið inn á þá braut, að ríkissjóði er bundinn alveg nýr baggi, sem mun kosta stórfé árlega í framtíðinni, og þó að hægt sé að inna greiðslu af hendi í þessu skyni nú á þessu ári af tekjuafgangi fyrra árs, þá er óvíst, að svo verði í framtíðinni, og liggur þá fyrir á næsta þingi, þegar fjárlög verða samin, að horfast í augu við það, að þarna eru komin ný útgjöld, sem alveg er óvíst að núverandi tekjur ríkissjóðs hrökkvi til að inna af hendi, og getur orðið til þess ásamt ýmsu öðru, að sjá þurfi ríkissjóði fyrir nýjum tekjum. Með þessu er ég ekki að mæla móti þessu atriði eins og ástatt er, enda er það, eins og ég sagði í upphafi máls míns, einróma till. n., að frv. verði samþ., þó að einn nm. hafi flutt brtt. um nokkuð aðra tilhögun, eða að lækka suma liðina á frv. og í þess stað setja nýjan lið.