05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) bað um upplýsingar. Þessar upplýsingar hef ég ekki við höndina og verð þess vegna að benda honum á að afla þeirra hjá fjmrn., hann getur vafalaust fengið þær þar, eða þá í gegnum n., sem fjallar um málið.

Það voru aðeins örfá orð að öðru leyti út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Hann deildi á stjórnina fyrir að koma fram með þetta frv., eða ég gat ekki skilið hann öðruvísi. Hann sagði eitthvað á þá leið, að stj. væri ekki lengi að rjúka fram með frv. um launahækkun, eftir að dýrkeypt kjarabót hefði fengizt. Mér finnst þetta satt að segja vera heldur kuldalegur tónn hjá hv. 2. þm. Reykv. og nánast fjandsamlegur í garð opinberra starfsmanna. Það, sem hér er stungið upp á og þeir hafa farið fram á, er ekkert annað en að fá að búa við sömu vísitölukjör og almennt hefur verið samið um. En þeir hafa ekki farið fram á að fá nú strax grunnlaunahækkanir.

Ýmisleg svigurmæli af hendi hv. 2. þm. Reykv., sem vottaði fyrir líka hjá hv. 1. landsk. þm. (GÞG) í garð forráðamanna opinberra starfsmanna, um, að þeir sýndu frekju og heimtuðu strax það, sem aðrir hefðu fengíð með kjarabaráttu, eiga því ekki rétt á sér. Opinberir starfsmenn hafa ekki farið fram á að fá strax grunnlaunahækkanir, heldur einvörðungu, að sama vísitöluregla gildi fyrir þá og aðra, en svo hefur ætíð verið og ætíð ágreiningslaust. Þarna er í leiðinni um nokkra uppbót að ræða fyrir þá allra lægst launuðu, sem kalla mætti grunnlaunauppbót, en eftir því sem hv. 2. þm. Reykv. talaði annað veifið, ætti að mega vænta þess, að það væri ekki það, sem hann var að illskast út af. Annars var ómögulegt að finna, hvort hann er með eða móti málinu, því að hann sló úr og í. Hann deildi á ríkisstjórnina fyrir að koma fram með frv., en tvísteig í kringum það. Kulda kenndi þó mjög greinilega í garð þessara ráðstafana.

Þá lét hv. þm. eitthvað í það skína, að það væri vafasamt mjög að borga fullar vísitöluuppbætur á há laun, en aftur á móti gæti slíkt verið algerlega eðlilegt á lág laun. Það er ekki lengra síðan en í vetur, að hv. 2. þm. Reykv. deildi á stjórnina með einhverjum hörðustu orðum tungunnar fyrir það að gera ekki tafarlaust samninga við verkfræðinga í þjónustu ríkisins um það, sem þeir krefðust, og kröfðust þeir þó launa, sem eru hærri en nokkur maður hefur í þjónustu ríkisins. Það hefur því slegið heldur illilega út í fyrir hv. 2. þm. Reykv. í það skiptið, enda er það ekkert sjaldgæft.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi halda því fram, að það hefðu komið fram rangar upplýsingar um afleiðingar kauphækkana fyrir ríkissjóð í áætlun þeirri, sem gerð var um afleiðingar kauphækkana á árinu 1956. Ég hygg, að við ættum að geyma allar deilur um þetta þangað til þar að kemur, að það sýnir sig í reyndinni, hvort sú áætlun var nærri lagi eða ekki. Það er ekki svo langt að þreyja. Það mun sýna sig fyrir næstu áramót, hvernig það fer. En ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. er þrátt fyrir allt það raunsær, að hann veit, að það er ekki til lengdar hægt að standa á móti því, að almennar kauphækkanir komi líka fram í launum opinberra starfsmanna. Ég er ekki neinn sérstakur talsmaður þess, að allir rjúki til og hækki laun sín, þó að iðnaðarverkamenn og verkamenn fái laun sín hækkuð. En það er ekk9 aðeins þetta, sem gerzt hefur, eins og við vitum, heldur hafa ýmsar aðrar stéttir líka fengið hækkuð sín laun og það stéttir, sem höfðu betri eða a.m.k. eins góð kjör og meginþorri opinberra starfsmanna. Þess vegna er þetta mál þannig vaxið allt saman, að það getur auðvitað ekki liðið á löngu, þangað til launahækkunin kemur inn í launagreiðslur opinberra starfsmanna. Og ég á eftir að sjá það, að hv. 2. þm. Reykv. telji sér fært að standa á móti því, þegar endurskoðun launalaganna fari fram, að það verði hækkun á launum.