31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

183. mál, húsnæðismál

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forsetl. Þetta frv., sem hér er borið fram á þskj. 522, heitir: Frv. til l. um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Ríkisstj. stendur öll að þessu frv. og hefur undirbúið það, og frv. hefur verið lengi í undirbúningi. Ég tel rétt, þó að frv. fylgi allýtarleg grg., þannig að samkvæmt henni á að vera tiltölulega auðveit að átta sig á, hvað í frv. felst, að hafa samt nokkra framsögu um þetta mál.

Það er yfirleitt talið svo, að frumþarfir mannfólksins séu þrjár, þ.e. fæði, klæði og húsnæði; það sé ekki hægt að lifa fyrir neinn mann öðruvísi en að þessum frumþörfum sé fullnægt að einhverju lágmarki. Hefur oft veitzt erfitt að fullnægja þessum þörfum, svo að í lagi væri, og það í fjölmörgum þjóðiöndum, jafnvel hjá þeim ríkjum, sem talið er að séu nokkuð þroskuð menningarríki. Hér mun nú aðeins verða rætt nokkuð um eina af þessum frumþörfum mannfólksins, þ.e. húsnæðismálin. Þau eru og verða alltaf sérstaklega erfið fyrir okkur Íslendinga vegna aðstöðu okkar að ýmsu leyti. Loftslagið er hér þannig, rakt, umhleypingasamt, og að vissu leyti kalt, þó að það sé ekki það versta í raun og veru, að við þurfum hér að hafa mjög vandaðar byggingar, ef á að vera hægt að segja, að búandi sé í þeim. Og vandaðar byggingar verða vitanlega ævinlega mjög dýrar, eins og gefur að skilja.

Þá er eitt, sem hefur mjög valdið erfiðleikum í byggingarsögu okkar Íslendinga, og það er það, að hér er um lítið og lélegt innlent byggingarefni að ræða. Í raun og veru hefur allt frá landnámi ekki verið um neitt annað að ræða hér en torf og grjót. Allt annað hefur orðið að flytja inn, og þess vegna hefur það veríð svo, að við höfum orðið allt fram að þessum tíma að reisa byggingar okkar úr torfi og grjóti, sem að vissu leyti hafa sína kosti, ef rétt er með það farið, en eru þó endingarlitlar og lélegar byggingar yfirleitt, og afleiðingin hefur orðið sú, sem öllum er kunn, að hver kynslóð hefur allt frá landnámi orðið að reisa byggingar yfir sig, og stundum hefur jafnvel orðið að gera það oftar en einu sinni fyrir hverja kynslóð.

Þannig var ástandið fyrir hálfri öld, um og eftir aldamótin, að hér voru ekki neinar aðrar byggingar í þessu landi en torf- og grjótkofar með lélegu upprefti yfirleitt — og svo í þeim litlu þorpum, sem þá voru að myndast sums staðar við sjávarsíðuna, mjög lélegir timburkofar, og voru þó víða þar enn torfhús allmjög ríkjandi. Það er því sannarlega ekkert smáræðis verkefni, sem sú kynslóð, er tók við arfi 19. aldarinnar um síðustu aldamót, hóf þá starf sitt og hefur borið hita og þunga framkvæmdanna í þessu landi fram um þennan tíma að mjög miklu leyti, tók að sér í byggingarmálum þjóðarinnar. Og ég hygg, að hvernig sem á það er nú lítið í raun og veru um aðgerðir í þessum málum hjá okkur, þá megi þó alltaf segja, að það sé í sjálfu sér undravert, hvað gert hefur verið í þessum málum á þeirri hálfri öld, sem liðin er síðan, og mundi þó nær að takmarka tímann öllu meir, því að um stórstígar framkvæmdir var ekki að ræða á fyrstu árum aldarinnar, þó að þá breyttist þetta tiltölulega fljótt. Ég ætla ekki að fara að hafa neinar langar bollaleggingar um þessa hluti, þó að mér virtist, að það væri ekkert á móti því að drepa á það, um leið og þetta frv. er lagt fram.

Það hafa hér á Alþ. með löggjöf á ýmsan hátt verið gerðar ýmsar félagslegar ráðstafanir til þess að greiða fyrir byggingarframkvæmdum í landinu nú á síðustu áratugum, þremur, fjórum síðustu áratugunum. Og því er ekki að leyna, að margar þessar ráðstafanir, eins og um viss réttindi fyrir viss félagsleg samtök í þessu efni og ýmislegt fleira, veðdeildarstarfsemi og margt og margt fleira í löggjöf, hafa vitanlega gert stórmikið gagn. En hinu er ekki heldur að leyna, eins og lætur að líkum hjá þjóð, sem í raun og veru var að byrja á því að hefja baráttu í byggingarmálum á nútímavísu, að ýmis víxlspor hafa verið stigin og það hafa komið fram ýmsar till. og jafnvel settar í löggjöf, sem hafa ekki reynzt raunhæfar og því orðið meir til þess að vekja vonir um stórstigar framkvæmdir í þessum efnum en að það yrði allt að veruleika. En það var í raun og veru ekki við öðru að búast en að svo hlyti að fara í þessum efnum. En hvað sem því öllu líður, þá hygg ég þó, að allir hljóti að vera sammála um það, þótt sjálfsagt séu mjög mismunandi skoðanir um, hvernig taka eigi mál eins og þessi, að undravert sé það, hve langt við höfum þó komizt áleiðis með að gera byggingar á mælikvarða nútímaþjóða í landi okkar síðustu áratugina. Ég held jafnvel, að það sé fátt, sem ýmsir útlendingar, sem hingað koma og í einhverri rómantík hafa heyrt talað um torfbæina gömlu í sveitunum og að hér væri lítið annað en torfbæir, undrast meira, þegar þeir koma hingað, en að sjá reisulegar byggingar, eins og hér í höfuðborginni og fleiri kaupstöðum, og ekki síður þegar þeir koma út í sveitirnar og sjá, að sumar sveitir eru með tiltölulega vönduðum og reisulegum húsum, bæði að því er snertir íbúðarhús og peningshús, sem í engu standa að baki og jafnvel framar ýmsu því, sem þekkist í mörgum þeim ríkjum, sem talin eru með mestu menningarríkjum annars staðar. Þetta á vitanlega að vera mikil hvöt fyrir okkur að stöðvast ekki í þessari viðleitni okkar, heldur halda áfram að gera það, sem unnt er, til þess að gera byggingarstarfsemina hér hjá okkur sem fullkomnasta að öllu leyti. En það, sem við viljum stefna að í þessum efnum, er, að allir íbúar þjóðarinnar geti búið í mannsæmandi íbúðum. Hvað átt er við með mannsæmandi íbúðum, getur kannske að einhverju leyti verið deiluatriði, en ég hygg þó, að ekki sé mikill munur á því, hvað við eigum við í því efni. Og samhliða viljum við stefna að því með félagslegum aðgerðum þjóðfélagsins, löggjöf og öðru slíku, að sem allra flestir geti átt eigið hús eða eigin íbúð. Það tel ég eitt aðalatriðið í húsnæðismálunum, að vitandi vits sé að því stefnt, að byggingarmálin þróist í þá átt, eftir því sem unnt er.

Í málefnasamningi þeirrar ríkisstj., sem tók hér við í sept. 1953, er komizt svo að orði, eins og sagt er hér í athugasemdum um frv., en ég skal þó lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggt verði aukið fjármagn til íbúðabygginga í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum, lögð áherzla á að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsa, sem nú eru í smíðum, og lagður grundvöllur að því að leysa þetta vandamál til frambúðar.“

Það var þetta veganesti, sem núverandi ríkisstj. hafði, þegar hún tók við störfum, og hún hefur viljað starfa að þessu, eftir því sem hún hefur haft bæði vit og möguleika til, og reynt að hafa samband við völd í þessu landi eins og bankana, með Landsbanka Íslands í broddi fylkingar, til að leysa þetta mál, eftir því sem hún hefur talið að bezt hentaði eins og sakir stæðu nú. Og þrátt fyrir það að henni sé kannske ljóst að einhverju leyti, að hér sé ekki um neina fullnaðarúrlausn á þessu máli að ræða, þá lítur hún þó svo á, eins og ég kem að síðar, að hér sé stigið mjög mikið spor í þá átt að koma byggingarmálum þjóðarinnar, bæði við sjó og í sveit, í það horf, að þau geti gengið nokkurn veginn eðlilega fyrir sig eftir ákveðnum leiðum, en þurfi ekki að vera með jafnmikið fálm og bráðabirgðaráðstafanir ár frá ári og einkennt hefur þessi mál að undanförnu. Ég vil í sambandi við þetta aðeins nefna það, að sú stjórn, sem var hér áður og sat frá ársbyrjun 1950 til sept. 1953, hafði gert ýmsar bráðabirgðaráðstafanir varðandi húsnæðismálin. Það má nefna það, að nokkuð af gengishagnaði 1950, þegar gengið var fellt, rann til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum og kauptúnum. Það má nefna það, að nokkur hluti af rekstrarhagnaði ríkisins 1951 fór til hins sama. Í þriðja lagi má og nefna það, að smáíbúðadeild var stofnuð 1952 og veittar til hennar á árunum 1952, 1953 og 1954 rúml. 40 millj. kr. Þetta fé var allt látið sem 2. veðréttar lán í smáskömmtum, ekki nema 30 þús. kr. á hverja íbúð, og þetta var mjög takmarkað við smáíbúðir, eins og kunnugt er. En á þennan hátt hafa þó verið veitt lán til um 1600 íbúða úr þessari deild, og til þeirra hefur verið varið þeirri 41 millj. kr., sem til þess hefur verið varið. Ég skal geta þess um leið, að það lætur mjög nærri, að þetta fé hafi að hálfu gengið til íbúða hér í Reykjavík og að hálfu til íbúða utan Reykjavíkur. Það má heita, að það séu helmingaskipti, hvort sem lítið er á heildarlánatöluna eða fénu er skipt. Og það er ekki nokkur minnsti vafi á því, að þetta hefur mjög ýtt undir heilbrigða byggingarstarfsemi á þessum árum. Þarna hafa fjölmargir menn, sem annars hefðu ekki getað hafizt handa, gert það í skjóli þess að hafa þó vissu fyrir jafnlítilli upphæð og þarna er um að ræða og á einn eða annan hátt náð í lán út á 1. veðrétt hússins. Sjálfir unnu þeir meira og minna að húsunum, svo að sumir hafa getað komið þessu upp jafnvel fyrir ótrúlega lítið af aðfengnu fé. Það er því ekki að mínum dómi nokkur minnsti vafi á því, að þessi starfsemi hefur gert mikið gagn, þótt ekki væri um meira fé að ræða en hér hefur verið nefnt og vitað sé, að þetta var allsendis ófullnægjandi til þess að þeir, sem ekkert fé höfðu sjálfir eða ekki höfðu möguleika til að leggja fram vinnu sjálfir í þetta að ráði, gætu byggt.

Fyrir s.l. ár, 1954, leysti ríkisstj. þetta, sem hún tók að sér og yfirlýsti hér á Alþ. í málefnasamningnum og var falið af þeim flokkum, sem hana styðja, á þann hátt, að þá fengust 20 millj. kr. frá Landsbankanum til útlána í smábýladeildinni. Það var skoðað sem bráðabirgðaúrræði. En svo var hugmynd ríkisstj. þá strax að láta taka þetta mál fastari tökum og athuga, á hvern hátt væri hægt að veita meiri frambúðarlausn en með þessu.

Í júní s.l. skipaði ríkisstj. svo nefnd til þess að taka mál þetta til meðferðar á þeim grundvelli, sem lagður var í stjórnarsamningnum. Í þessa nefnd voru skipaðir, eins og stendur hér í greinargerð frv., Benjamín Eiríksson bankastjóri, sem var formaður nefndarinnar, Björn Björnsson hagfræðingur, Hannes Jónsson félagsfræðingur, Hilmar Stefánsson bankastjóri og Jóhann Hafstein bankastjóri. Þessir menn viðuðu svo að sér mjög miklu efni, bæði utanlands og innan, um íbúðarhúsaþörfina, söfnuðu skýrslum og útveguðu sér leiðbeiningar erlendis frá um þessa hluti, eftir því sem tími vannst til. Er ýmislegt frá því sagt hér í grg. frv., sem ég mun að sjálfsögðu lítið koma inn á, þar sem hver alþm. getur kynnt sér það þar. Bráðabirgðaáliti skilaði svo nefndin í okt. í haust til ríkisstj. Þetta var bráðabirgðaálit, ýmsar upplýsingar, sem nefndin hafði aflað sér, og víss drög að frv. um þetta mál.

Nú var frá öndverðu vitað, að það erfiðasta í þessum málum væri það, á hvern hátt ætti að tryggja, að fé fengist til eðlilega mikilla íbúðabygginga árlega næstu árin. Ríkisstj. tók því upp samninga við Landsbankann um það, á hvern hátt hugsanlegt væri að leysa þetta með hjálp bankanna. Varð þetta til þess, að það varð samkomulag um, að Landsbankinn skipaði 2 menn í þessa nefnd í jan. s.l., þá Gunnar Viðar bankastjóra og Jóhannes Nordal hagfræðing, og störfuðu þeir síðan með nefndinni.

Ég get aðeins nefnt það úr skýrslu þeirri, sem húsnæðismálanefndin skilaði og í raun og veru er birt hér, að hún komst að þeirri niðurstöðu, að þörfin á nýjum íbúðum, þegar miðað væri við þéttbýlið eitt, þ.e.a.s. kaupstaði og kauptún, sem ekki teljast til sveita, væri í kringum 900 íbúðir á ári, og þá með því að taka að nokkru leyti tillit til útrýmingar á því lélegasta húsnæði, sem er í landinu og ætti að vera fyrir neðan það lágmark, sem hægt er að hugsa sér að fólk geti notað nokkuð verulega til frambúðar. Nú var inn í þetta kerfi tekið að afla byggingarsjóði sveitanna einnig fjár, til þess að hann gæti starfað áfram, því að það hefur mjög komið í ljós nú hin allra síðustu árin, að fjárráð hans voru á þrotum og ekki sýnilegt, að á annan hátt væri hægt að tryggja starfsemi hans áfram en þannig, að hann fengi fé úr því veðlánakerfi, sem hér er verið að koma upp og reynt er með þessari löggjöf og samningum við Landsbankann að tryggja að fé fáist í nú næstu árin. En segja má, að eðlileg íbúðarhúsabygging í sveitum sé í kringum 200 íbúðarhús á ári, sem ég að vísu vildi vona að hækkaði frá því, sem nú er, en hefur þó verið nokkuð neðan við 200 íbúðir á ári flest árin að undanförnu. Það má þá segja, að sæmilega sé séð fyrir því í bili með því, nema þá enn stórstígari ráðstafanir verði gerðar með að byggja nýbýlí í sveitum landsins. Ef víð bætum 200 íbúðum í sveitum við, þá erum við komnir upp í kringum 1100 íbúðir, sem íbúðaþörfin væri árlega eins og nú er. Er þá reiknað að nokkru leyti með, eins og ég tók fram áðan, að yfirgefið sé allra lélegasta húsnæðið og byggt í þess stað, og eitthvað reiknað með tilflutningum, þ.e.a.s., að stöku býli fari í eyði og ekki verði byggt upp á þeim aftur. Þetta voru í raun og veru þær niðurstöður um þörf íbúðanna í allra stærstu dráttum, sem nefndin byggði sínar till. á.

Það hefur sýnt sig, að síðustu ár hafa byggingarframkvæmdir verið mjög miklar í landinu. Samkvæmt skýrslu nefndarinnar, sem hún safnaði um þetta á s.l. ári, liggur fyrir, að í byggingu, allt frá því að húsin væru komin að því að vera fullgerð og að verið væri að reisa grunn, hafi þá verið alls í kaupstöðum og kauptúnum rúmlega 1900 hús og í sveitum alls um 340 — 339 er talið þarna nákvæmlega — eða samtals um landið allt 2250 íbúðir. Þetta er mikið, þó að þess sé vitanlega að gæta, að þarna blandast saman framkvæmdir fleiri ára, eins og gefur að skilja, og jafnvel fleiri en tveggja að sumu leyti, þar sem menn eru lengi að koma þessu upp, en hvernig sem á það er litið, þá er hér um mjög miklar framkvæmdir að ræða í þessu efni. Og það er held ég alveg rétt, sem nefndin segir í sínu áliti og er prentað í grg., að hún telur 4 atriði, sem séu sérstaklega athyglisverð eins og nú stendur í byggingarmálunum. Það er í fyrsta lagi, að það ríkir talsverður húsnæðisskortur sums staðar. Í öðru lagi, að það er geysimikið húsnæði í byggingu. Nefndin telur geysimikið húsnæði þessar 2250 íbúðir, sem þarna eru á vegi, eins og allir hljóta að gera, held ég, þegar borið er saman við fólksfjölda og annað. Í þriðja lagi, að það sé mjög mikið skipulagsleysi, sem er ríkjandi í byggingariðnaðinum og í byggingarvöruverzluninni, þannig að sama og engin samhæfing eigi sér stað á byggingarefni og íbúðahlutum og að oft tefjist framkvæmdir og byggingarnar verði miklu dýrari af því skipulagsleysi, sem í þessu sé ríkjandi. Og svo í fjórða lagi það, að ekkert almennt veðiánakerfi er til, þannig að menn geti fengið hæfileg lán til að byggja íbúðir eða kaupa íbúðir, sem kynnu að hafa verið byggðar af öðrum til þess að selja þær sanngjörnu verði. Ég hygg, að þessar niðurstöður nefndarinnar séu í öllum meginatriðum réttar, eins og ástandið er nú og var s.l. ár, þegar þetta var samið. En upp úr þeim till. eða frv., sem nefndin gerði, eftir að fulltrúar Landsbankans tóku sæti í henni, er svo það frv. gert, sem hér er lagt fram nú, í öllum meginatriðum. Ég skal taka það fram, að n. gerði að vísu till. um fleiri atriði en eru í þessu frv. og gerði till. um fjárveitingar eða fjáröflun á fleiri vegu en hér er gert ráð fyrir, en það var ekki tekið upp í frv., þegar frá því var gengið. Ég tel rétt að nefna þetta aðeins, án þess að ástæða sé til að koma frekar inn á það í sjálfu sér.

Ég mun þá snúa mér að því að fara örfáum orðum um frv. sjálft. Að sjálfsögðu fer ég ekki að ræða einstakar greinar þess, en aðeins draga fram nokkur meginatriði í frv., sem mér virðast vera burðarás þess og að eftir því fari, hvernig þessi tilraun, sem hér er verið að gera, muni gefast.

Í fyrsta lagi er það, að lagt er til, að sett verði á fót sérstök húsnæðismálastjórn, sem 3 menn eigi sæti í. Þessari húsnæðismálastjórn er ætlað að beita sér fyrir umbótum í byggingarmálum og hafa yfirumsjón lánsfjáröflunar og lánveitinga til íbúðabygginga í landinu, eins og þetta er orðað í 1. gr. frv. Það mætti segja margt um þetta verkefni húsnæðismálastjórnar, sérstaklega að því er lýtur að umbótum í byggingarmálum, því að það er geysilega stórt mál. Á bls. 11 í álitinu er allýtarlega greint frá því, hvernig það er hugsað. Í raun og veru er hugsunin sú, að sett verði upp sérstök stofnun, sem hafi með þessi mál að gera, að nokkru leyti á svipaðan hátt og teiknistofa landbúnaðarins, sem hefur með höndum leiðbeiningar fyrir þá, er byggja í sveitum. Þó er hugsað, að þetta verkefni geti að vissu leyti orðið nokkru viðtækara, þó að teiknistofan hafi nú á seinni árum í raun og veru farið inn á sumt af því, sem hér er nefnt, en hefur til þessa verið algert nýmæli. En fyrst og fremst á þetta að verða leiðbeiningastofnun fyrir þá, sem byggja, og gera tilraunir m.a. til þess, að íbúðirnar eða húsin geti orðið ódýrari við að „standardísera“ vissa hluti í byggingunum, eins og hurðir, glugga o.m.fl., sem hægt væri að hafa fjöldaframleiðslu á og gæti á þann hátt fengizt við töluvert lægra verði en annars mundi vera, ef hver smíðaði aðeins eftir því, sem honum dytti í hug að hafa stærð þessara hluta. Það er svo margt, sem hér kemur til greina og nauðsynlegt væri að taka til rannsóknar. Það er geysilegt verkefni hér um rannsókn á byggingarefni, möl og sandi og öðru slíku. Því miður eru þau mistök ekki fátíð í okkar byggingarsögu, að ýmis hús hafa molnað niður ettir tiltölulega fá ár, vegna þess að það hefur verið ónýtt efni, sem til þeirra hefur verið notað, mölin og sandurinn hafa reynzt óhæf eða þá stundum að sement hafi kannske verið sparað um of, sem þá er ekki heldur það bezta. Þetta er náttúrlega hörmulegt og má ekki eiga sér stað í þjóðfélagi, sem byggir mestmegnis úr sementssteypu, eins og nú er með okkur Íslendinga. Þetta hlýtur því að vera geysistórt verkefni fyrir stofnun eins og þessa. Og það eru vitanlega margvíslegar ráðstafanir og athuganir og vísindalegar rannsóknir, sem hér koma til greina í þessu skyni. Þessi hlið á störfum húsnæðismálanefndar er því að mínum dómi geysilega mikilvæg og vonandi, að hún komi að miklu gagni í framtíðinni. Hinu er vissulega ekki að neita, að þetta getur orðið dýrt og umfangsmikið, en þær krónur, sem þar væri eytt, ættu að vissu leyti að koma aftur, ekki einar, heldur margfaldar, ef það, sem á þennan hátt fengist, væri réttilega notað.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar orðum um húsnæðismálanefndina og hlutverk hennar í þessu sambandi, og kem ég þá að öðru meginatriðinu í þessu frv., og það er, að með því er sett upp almennt veðlánakerfi. Meginatriðið er í því það, að Landsbanka Íslands er heimilað að gefa út bankavaxtabréf, sem geta numið allt að 200 millj. kr. og þar af 40 millj. kr., sem eru vísitölutryggð. Þessari heimild fylgir og heimild til að taka erlend lán til þessara hluta, ef þau fást og ef það þykir hagkvæmt að gera það. Hér er um nýmæli að ræða og algert nýmæli að því er snertir hin vísitölutryggðu bréf, sem hér er reiknað með. Nú er það vitað, að það er nokkur óvissa um það, hvort slík bréf mundu seljast og á þennan hátt fást fé til framkvæmda nú strax. En allir munu sammála um, að það sé nauðsyn að koma á fót slíku veðlánakerfi sem hér er lagt til og á þann hátt fá fé í umferð til nauðsynlegra hluta, — fé, sem að sumu leyti fer nú eftir einhverjum krókaleiðum og á þann hátt, að það kemur almenningi ekki að þeim notum, sem ætti og þyrfti að vera. En til þess að tryggja það, að þetta gæti orðið meira en nafnið tómt, náði ríkisstj. samningum við Landsbanka Íslands um það, að hann tæki að sér að tryggja þetta kerfi fyrstu tvö árin. Og þessi heimild, sem ég nefndi áðan, 200 millj. og þar af 40 millj. vísitölutryggð bréf, þó að það sé ekki tekið fram í löggjöfinni, er að vissu leyti bundin við þetta tímabil, sérstaklega þessar 40 millj. af vísitölutryggðu bréfunum. Ég held, að það sé rétt, að ég lesi hér upp bréf Landsbankans um þetta atriði, þó að það sé nú hér í nefndarálitinu, því að það í raun og veru sýnir greinilega og algerlega, hvað Landsbankinn hefur tekið að sér að gera í þessum efnum, miðað við tvö næstu ár, þ.e.a.s. árið í ár og svo 1956. En þetta bréf, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar þannig:

„Í framhaldi af viðræðum, sem fram hafa farið um lausn húsnæðisvandamálsins, vill stjórn Landsbankans gera grein fyrir afstöðu sinni, sem hér segir:

Til þess að tryggja viðunandi lausn þessa vandamáls, telur stjórn bankans, að nauðsynlegt sé, að gert sé samkomulag milli ríkisstj. og bankans, er nái til eftirtalinna atriða:

1) Landsbankinn tekur að sér að ábyrgjast svo mikla sölu vísitölubundinna bankavaxtabréfa á næstu tveimur árum, að hægt verði að veita hverjum, sem rétt hefur til vísitöluláns samkvæmt hinum nýju lögum, vísitölulán að upphæð minnst 20 þús. kr. Þó ábyrgist bankinn ekki meiri sölu en 20 millj. kr. hvort árið um sig. Ábyrgð sína getur bankinn leyst af hendi, ef heppilegra þykir, með kaupum á almennum bankavaxtabréfum veðdeildarinnar.

2) Landsbankinn leggur ásamt öðrum bönkum landsins fram 20 millj. kr. á ári næstu tvö ár til íbúðarlána, og skal húsnæðismálastjórn ákveða, til hverra lán af því fé skuli veitt. Landsbankinn hefur þegar átt viðræður um þetta við hina bankana og hlotið góðar undirtektir, en framlög af hans hálfu eru því skilyrði bundin, að allir bankarnir taki þátt í þessum framlögum. Landsbankinn tekur að sér að gera samning um þetta við hina bankana í umboði ríkisstj. Framlögunum fyrir hvern ársfjórðung skal skipt fyrir fram milli bankanna í hlutfalli við sparisjóðsinnstæður hjá hverjum um sig í byrjun ársfjórðungsins. Verði sparifjáraukning á ársfjórðungnum, skal upphæðinni endurskipt á milli þeirra í hlutfalli við þá aukningu. Að svo miklu leyti sem aukningin hrekkur ekki til, skal upphaflega skiptingin standa óbreytt. Endanlegt uppgjör eftir sömu reglum skal fara fram í lok hvers almanaksárs.

3) Landsbankinn tekur að sér að ábyrgjast, að tryggingarfélög, sem ekki eru í opinberri eign, leggi fram 4 millj. kr. á ári í næstu tvö ár til A-lána.

4) Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að veðdeild Landsbankans verði falin fjáröflun með verðbréfasölu til íbúðarlána innan hins nýja veðlánakerfis, sem ætlunin er að komið verði á fót með lögum. Í lögum þessum verði veðdeild Landsbankans veitt heimild til útgáfu nýrra veðdeildarflokka. Bankavaxtabréfin verði skattfrjáls, og skal heimilt að hafa nokkurn hluta þeirra með vísitölukjörum. Veðdeildin fái einkarétt á útgáfu slíkra bréfa.

5) Ríkisstj. mun sjá svo um, að Landsbankinn eigi ætíð einn fulltrúa í húsnæðismálastjórn, en ekki skal sá fulltrúi þó greiða atkvæði um einstakar lánveitingar.

6) Landsbankinn tekur að sér, ef ríkisstj. óskar, að semja í umboði hennar við sparisjóði, lífeyrissjóði og aðra aðila um þátttöku þeirra á því veðlánakerfi, sem komið yrði á fót.

Þetta er bréf Landsbankans, sem er sá samningur, sem þegar hefur verið gerður milli ríkisstj. og bankans um þessi mál.

Hér hefur í nefndarálitinu verið sett upp yfirlit yfir það, hve mikið fé það er, sem á þennan hátt ætti að verða til ráðstöfunar á hvoru ári þessi tvö næstu ár, og það er rétt um 100 millj. kr. Að vísu þarf ekki að taka það fram, það er skýrt tekið fram í greinargerðinni og vita allir, að hér er ekki nema að nokkru leyti um nýtt fjármagn að ræða. Hér er talið það fé, sem á þennan hátt á að vera tiltækt til íbúðarhúsabygginga í landinu. Sömuleiðis er talið fé, sem áður hefur veitt verið á þennan hátt, eins og íbúðalán lífeyrissjóða og annað slíkt, sem áður hefur verið varið í þessu skyni. En hvað sem þessu öllu líður, þá er hér þó um stórmikla aukningu að ræða frá því, sem áður var, eins og glögglega er tekið fram hér í nál.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að það hefur orðið samkomulag um það, að byggingarsjóður sveitanna fengi 12 millj. kr., í réttum hlutföllum A- og B-lán, þessi tvö næstu ár, sem hér er um að ræða.

Nú verða sjálfsagt einhverjir, sem telja, að það sé mjög ófullnægjandi, að hér sé aðeins um tveggja ára samkomulag að ræða hvað þetta atriði snertir. Það er nú kannske tiltölulega þýðingarlítið í jafnreikulu og fjárhagslega óvissu þjóðfélagi og okkar að vera að gera ákveðna samninga upp á vissar krónur langan tíma fram fyrir sig, og ég hef ekki trú á því. Ég held, að það hafi verið samhljóða allt ríkisstj. og Landsbankans, að þetta tveggja ára tímabil væri ágætur reynslutími til að sjá, hvernig þetta gæfist, og á þann hátt taka eftir því, hvort hér væri ekki um kerfi að ræða, sem virkilega væri lífrænt og ætti framtíð fyrir sér. Við treystum því fyllilega, að þetta geti haldið áfram í svipuðum farvegi og á þennan hátt verði komið hér upp heilbrigðu veðlánakerfi hjá okkur og á þann hátt verði hægt að dæla fé á heilbrigðan hátt til ýmissa aðgerða í þjóðfélaginu og þá fyrst og fremst þess, sem hér er talað um, þ.e. húsnæðismálanna, hæfilegra íbúðarhúsabygginga.

Ég skal geta þess, að hér er reiknað með því, að lán verði aðeins veitt út á hæfilegar íbúðir. Hvað með því sé átt við, er kannske dálítið erfitt að skilgreina. En það er átt við með því, að ekki sé um neins konar óhæfilega stórar íbúðir að ræða fyrir almenning í þessu landi, — íbúðir, sem allir venjulegir menn geti sætt sig við að búa í, en séu alls ekki um óhóf stórar.

Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þennan aðalkafla frv., l. kafla, sem fjallar um þá starfsemi, sem ég hef farið nokkrum orðum um. En svo er hér II. kafli frv., sem fjallar um útrýmingu heilsuspillandi íbúða og ég skal aðeins fara örfáum orðum um.

Það er vitað og þarf ekki að hafa um það mörg orð, að mestu erfiðleikar flestra þjóðfélaga nú eru, að innan þeirra er meira og minna af íbúðum, sem eru neðan við það lágmark, að það geti kallazt mannsæmandi að búa í þeim, og því miður erum við Íslendingar ekki lausir við þetta frekar en aðrir, hvort sem ástandið er athugað hér eða úti á landi sums staðar, þótt að sjálfsögðu muni bera mest á því hér í höfuðborginni, þar sem aðstreymi hefur orðið eins ört og mikið og reynslan hefur sýnt að undanförnu, og svo þegar það bætist við, að braggarnir eða herskálarnir stóðu hér auðir og var svo gripið til þess óyndisúrræðis að setja fólk í þá á sínum tíma. Það hafa komið fram ýmsar till. um það fyrr og síðar að útrýma þessu með opinberum ráðstöfunum, en í raun og veru hefur ekki enn þá heppnazt að finna úrræði, sem gagnað hafa í því efni. Ekki skal ég segja um það, að þessar till., sem eru í II. kafla þessa frv., muni gera það, en spor er það þó í þá átt og allverulegt spor að mínum dómi. Ég hygg, að nefndin, sem að þessu starfaði, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að með 5 millj. kr. framlagi í 4 ár ætti að mega takast að útrýma allra lélegasta húsnæðinu. Þá er miðað við það, að sveitarfélög legðu á móti og að venjuleg lánskjör fengjust líka á þessar íbúðir. Þetta yrði svona að einhverju leyti aukaframlag til þeirra.

Hér í þessum kafla um útrýmingu heilsuspillandi íbúða er lagt til, að á næstu 5 árum verði varið 3 millj. kr. úr ríkissjóði í þessu skyni. Það er að vísu nokkru lægri upphæð en n. hafði lagt til í fyrstu, en miðar þó mjög í sömu átt og hún lagði til. Þetta er hugsað þannig, að sveitarfélög, sem vilja útrýma slíkum íbúðum hjá sér og um leið taka á sig það, að þær verði teknar algerlega úr notkun, eyðilagðar, geti fengið á móti því framlagi, sem þær veita úr sveitarsjóði eða fá lán til, jafna upphæð úr ríkissjóði, þó miðað við, að það sé ekki yfir 3 millj. kr. á ári þessi næstu ár.

Ég sé ekki ástæðu til að fara í raun og veru fleiri orðum um þetta. Þetta mál er margrætt, og vitanlega eru allir sammála um nauðsyn þess að útrýma þessum íbúðum, hvort sem er hér í höfuðborginni, Reykjavík, eða úti á landi, sem eru langt neðan við það, sem mannsæmandi getur talizt. Vil ég vona, að hér sé þó stefnt í þá átt, þannig að nokkuð mikið gagn mætti af því leiða.

Ég mun nú láta þetta nægja að mestu, sem ég hér hef sagt. Í III. kafla eru aðeins venjuleg ákvæði, sem ekki þarf að tala verulega um.

Ég veit, að ýmsum þykir um þetta frv., sem Alþingi hefur raunar vitað um að var á döfinni í vetur, að það hafi dregizt lengi, að það kæmi fram, og skal ég ekkert taka illa upp, þó að það sé sagt. Það er rétt, að þetta hefur dregizt lengur en ríkisstj. ætlaðist til. En það hefur orðið margt til þess að fresta þessu og ýmislegt dálítið erfitt um samninga og annað slíkt í sambandi við þetta frv. og eins við lánsstofnanirnar. En ég sé ástæðu til þess, um leið og ég legg þetta frv. fram, að þakka Landsbanka Íslands og um leið öðrum bönkum hér fyrir ágæta samvinnu í þessu máli. Það hefði ekki verið unnt að koma þessu máli í þá höfn, sem það þó er komið nú, nema það hefði verið góður vilji á móti til þess að reyna að leysa þetta verkefni, og það hefði verið mér og ég held mér sé óhætt að segja allri ríkisstj. mjög ógeðfellt að þurfa að fara með lögum að skylda bankana til að gera einhverja hluti í líkingu við það, sem þeir hafa lofað hér, eða þá kannske eitthvað meira, sem mönnum hefði dottið í hug, og það hefði áreiðanlega á allan hátt gefizt miklu verr. En við vonum, að þessi samvinna, sem hér hefur veríð tekin upp milli bankanna annars vegar og ríkisstj. hins vegar, verði til þess, að nokkur lausn fáist á þessu máli.

Ég held ég hafi tekið það fram í upphafi, að mér dytti ekki í hug að halda því fram, að hér væri um alfullkomið frv. að ræða, sem leysti öll þessi mál, það er síður en svo. En ég leyfi mér þó að halda því fram, að hér hafi verið gerð mjög alvarleg tilraun til þess með löggjöf og á félagslegan hátt að leysa vandamál íbúðabygginganna hér í þessu landi, bæði við sjó og í sveit, og það loforð, sem fengizt hefur í gegnum bankana, fullkomið loforð um allmikil fjárframlög næstu tvö ár, sýni það, að hér er ekki aðeins um orð ein að ræða, heldur eigi að fylgja því eftir, að þetta fé fáist og verði notað á þann hátt, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, þegar þessari umr. er lokið, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.