06.05.1955
Efri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

183. mál, húsnæðismál

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Það er ein smágrein hér í frv., sem ég gerði ágreining um í hv. fjhn., þó að ég sæi ekki ástæðu til að taka það fram í nál.

Í 3. málsgr. 3. gr. stendur, með leyfi forseta: „Eigi skal öðrum en veðdeild Landsbankans heimilt að gefa út vísitölubundin verðbréf, fyrr en veðdeild Landsbankans hefur selt slík bréf fyrir 40 millj. kr., enda komi sérstök lagaheimild.“

Ég get vel fallizt á það, að Landsbankinn hafi einkarétt á útgáfu slíkra bréfa, þangað til hann er búinn að selja slík bréf fyrir 40 millj. kr., en ég álít, að það ætti að vera alveg frjálst mönnum að lána eða binda lán þeim skilyrðum, að þau séu aftur borguð með vísitölu. Ég hef þó ekki viljað gera sérstakan fyrirvara um þetta, vildi sjá, hverju fram vindur, en mér þótti rétt að taka þetta fram, því að ef til vill mun ég koma fram með brtt. um þetta að ári eða svo, þegar búið er að sjá, hvernig þetta fyrirkomulag gefst.