03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

6. mál, prentfrelsi

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Eins og nál. allshn. ber með sér, þá leggur n. einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið. Ég get látið f.h. nefndarinnar nægja að vísa til þeirrar grg., sem frv. fylgir.

Það er kunnugt, að þannig er orðið ástatt um útgáfu ýmissa rita, og það miður þarfra, að það er ekki getið um útgefanda eða ábyrgðarmann að þeim, og jafnvei munu vera til dæmi um það, að ekki bera þau með sér heldur, hver prentsmiðja hefur annazt prentverkið. Þetta eru þau rit, sem eru af því tagi, að hætt er við að valdið geti spillingu í þjóðlífinu, ekki sízt meðal ungmenna, og sakir þess, hvernig háttað er um útgáfu þeirra, getur verið torvelt að fá vitneskju um það, hver ber ábyrgð á þessum útgáfum.

Stjórnarskrá okkar ákveður, að prentfrelsi skuli ríkja, en þeir, sem að útgáfum standa, beri ábyrgð á þeim verkum fyrir dómi. En þá leiðir af sjálfu sér, að ritin verða að hera með sér, hver ábyrgðarmaður er eða hver annast útgáfuna, og eru í þessu frv. allýtarleg ákvæði um það, hvernig hægt er að sækja til saka, ef um slíkt er að ræða, þann sem að útgáfu þessara rita stendur.

Þess er getið í grg. fyrir þessu frv., að verið sé að endurskoða þau lagaákvæði, sem að þessu lúta og öðru fleiru, skilst mér, og er það vel farið. Þess er að vænta, að sá undirbúningur verði ýtarlegur og ráðin verði bót á þeim eldri ákvæðum, sem er í mörgu áfátt, eins og við er að búast. Lagasmíð og tilskipanir um þetta efni eru orðnar gamlar, svo að það er við því að búast, að þeim sé í ýmsu áfátt. Mér dettur í hug í sambandi við einmitt slíkar útgáfur, að bólað hefur á því nú í seinni tíð, að myndir og myndablöð, sem ég ætla að séu nú að miklu leyti eða kannske nærri öllu ekki prentuð hér á landi, eru í umferð hér meðal almennings, og gerð þeirra og útlit er allt annað en það sé menntandi eða göfgandi fyrir ungmenni að skoða þau og leggja sig eftir þeim. En einmitt ungmenni eru fíkin í að skoða þetta og aðgæta, og má gera ráð fyrir einmitt fyrir þær sakir, hvað ungmenni hafa mikinn áhuga fyrir þessu, að þá geti þetta haft allt annað en holl áhrif á þroska þeirra og hugsunarhátt. Það ber því vissulega í sambandi við slíka endurskoðun sem þessa að taka þetta einnig til meðferðar, og vil ég vona, að það verði gert.

Mér virðist, og þar tala ég nú aðeins af minni hálfu persónulega, að eftir því sem bólað hefur á eitt til tvö síðustu árin, — ég ætla, að það eigi sér tæpast lengri aldur, að nokkuð verulega hafi að því kveðið, — að það ætti gersamlega að banna sölu og dreifingu þessara mynda og rita. Af þeim getur enginn þrifnaður stafað, en margt illt, og er sjálfsagt að koma í veg fyrir það.

Ég vil svo, eins og ég áður gat um, mæla hið bezta með samþykkt þessa frumvarps.