15.12.1954
Efri deild: 30. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

37. mál, framfærslulög

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á framfærslulögunum hefur verið til athugunar í heilbr.- og félmn., og eins og nál. ber með sér, mælir n. einróma með, að það verði samþykkt óbreytt.

Efni frv. er þannig, að sveitarstjórn eða lögreglustjóra er heimilt, ef til þeirra er leitað, að leggja fyrir vinnuveitanda að halda eftir af kaupi þess manns, er með óreglu sinni eða hirðuleysi forsómar að sjá fyrir fjölskyldu sinni, sem honum er skylt að framfæra. Má samkv. þessu halda eftir allt að þrem fjórðu hlutum kaupsins að frádregnum opinberum gjöldum og ákveða um leið, hverjum greiða skuli.

Kvenfélagasamband Íslands gerði ályktun um það á landsfundi 1953 að kjósa mþn. til þess að athuga þetta mál, og að tilhlutun hennar hefur frv. þetta verið samið.

Allir þekkja fleiri eða færri dæmi þess, að heimilisfaðir vanrækir vegna drykkjuskapar eða hirðuleysis eða hvors tveggja að sjá fyrir heimili sínu, sem af þeim völdum líður neyð. Frv. þetta er því fram komið til þess að bæta hag þeirra heimila, sem orðið hafa fyrir slíkri vanrækslu heimilisföðurins. Er von manna, að það komi að því gagni, sem til er ætlazt. — Að lokinni þessari umr. legg ég því til f.h. nefndarinnar, að frv. verði vísað til 3. umr.