18.11.1954
Neðri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

92. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 154 og flutt er af hv. landbn., er flutt vegna þess, að n. hefur orðið þess vör, að framkvæmdin á vissum atriðum í l. um ættaróðal og erfðaábúð hefur reynzt nokkuð örðug, sérstaklega varðandi dánarbúaskipti, þegar ættarjörðum er ekki ráðstafað áður en eigandi fellur frá. Lögin gera ráð fyrir því, eins og kunnugt er, að eigandi ættarjarðar, þ.e. jarðar, sem hefur verið í eigu sömu ættar 75 ár eða lengur, ráðstafi jörðinni til erfingja sinna, áður en hætt er við því, að til skipta komi. En þetta hefur ekki nærri alls staðar orðið ofan á, og þegar jörðinni er ekkert ráðstafað og til skipta kemur milli erfingja, þá hefur það orðið svo og geta orðið enn þá meiri brögð að því en verið hefur, ef lögin eru óbreytt, að það verði talsverð vandkvæði á því að fara með skiptin eins og nú hagar til.

Samkv. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að breyta þeirri reglu, sem nú er í l., að það fari eftir aldursröð barna, hver erfir óðalið. Þetta er ekki heppileg regla, því að í allmörgum tilfellum, — og jafnvel er það algengast, eins og nú hagar til, — eru það frekar eldri börnin en yngri, sem eru flutt burt og komin inn í annan atvinnurekstur áður en til skipta kemur, og þá eru það þess vegna ekkert síður þau yngri, sem eiga að koma til greina þarna, heldur en hin. En það er þó ekki nein regla, sem n. vill fara inn á á þeim grundvelli, heldur leggur hún það til, að farið sé eftir þeirri reglu, að það barnanna eða þau börnin, sem hafa staðið að staðaldri fyrir búi foreldra sinna og verið stöðugt á heimilinu og jafnframt hafa mesta möguleika til að reka þar búskap áfram, sitji fyrir. Ef ekki verður um þetta samkomulag á skiptafundi, sem vel getur komið fyrir að ekki verði, þá telur n., að ekki sé um annað að tala en það, að skiptaráðandi skeri þar úr.

Varðandi hitt atriðið, sem 2. gr. þessa frv. fjallar um og er um söluverð ættarjarða, er það að segja, að vegna þess, hvernig aðstaðan er varðandi byggingar, ræktun og aðrar umbætur, þá verður ekki til lengdar og er ekki hægt, eins og nú er komið, að halda sig alveg að fasteignamati á því sviði. N. er þeirrar skoðunar, að það sé ekki hverfandi frá því í aðalatriðinu, að það verði að halda sig við fasteignamat, eins og það er á hverjum tíma. En þessu er allt öðruvísi varið með umbæturnar, ekki sízt þegar eins langt líður á milli fasteignamata og nú er gert ráð fyrir samkv. gildandi lögum.

Þetta litla frv. er sem sagt flutt af n. með fullu samkomulagi, og ég vænti þess, að hv. þd. taki því vel og afgreiði það. Ég legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. Það þarf ekki að vísa því til n., því að það er n., sem flytur það.