25.11.1954
Neðri deild: 22. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

92. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. flytur tvær brtt. við frv. á þskj. 201. Fyrri brtt., sem er við 1. gr., er í rauninni ekki annað en orðalagsbreyting og þannig, að teknar eru til greina ábendingar hv. 2. þm. Reykv. (EOl) hér við 1. umr., og játar n., að það fer betur á orðalagi á þennan hátt eða tekur meira út yfir það, sem ætlazt er til.

Önnur brtt. er aftur ný grein og fjallar um það, hvernig með skuli fara, ef ættarjörð hefur verið skipt í marga parta, sem landbn. hefur fengið fregnir af að á stöku stöðum á sér stað. Ef þeir partar eru svo smáir, að ekki er hægt að hugsa sér á einhverjum þeirra sæmileg búskaparskilyrði, eða þannig, að hægt sé að stofna þar nýbýli með viðunandi aðstöðu, þá leggur n. til, að það sé skylda þeirra, sem eignast slíka jarðarparta, að leigja þá ábúanda eða ábúendum á hinum hluta jarðarinnar.

Ég veit, að hv. þm. sjá og skilja, hvað hér er átt við, og ég býst við, að þeir geti fallizt á það með landbn., að þessi breyting sé æskileg. Að öðru leyti þarf ég ekki fyrir n. hönd að fjölyrða um málið.