29.10.1954
Efri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

66. mál, dýralæknar

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér. Það er flutt til þess að koma á móti óskum og þörfum manna um ofur litla fjölgun á dýralæknum landsins. Eftir lögum nú eiga þeir að vera níu, en í frv., eins og það er lagt hér fram, er lagt til, að þeim sé fjölgað um tvo. Breytingin, sem lagt er til að gerð verði, er sú, að því umdæmi, sem nú er kennt við Akureyri eða Eyjafjörð, sé skipt í tvennt. Dýralækninum, sem þar situr og hefur setið, er ætlað núna að þjóna Eyjafjarðarsýslunni allri og Þingeyjarsýslunum báðum. Sá dýralæknir, sem þar er nú og er norskur maður og vinnur þar í forföllum Guðbrands Hlíðars, sem þar er skipaður dýralæknir, telur sér vera gersamlega óyfirkomanlegt að sinna þessari þörf, sem þarna er um að ræða, og er að gefast upp á því, eins og reyndar Guðbrandur Hlíðar gerði, því að það var a.m.k. meðorsök til þess, að hann fékk hvíld frá störfum og fékk að setja mann í staðinn fyrir sig.

Hitt er það að skipta því umdæmi, sem nú nær yfir bæði Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur, í tvennt, svo að það verði sinn dýralæknirinn í hvoru umdæmi. Það eru líka almennar óskir um það þar norður frá, að svo verði, og almennar óskir um það að fá dýralækni, sem ekki hefur nú fengizt, eins og maður veit og ég skal rétt aðeins drepa á.

Þetta er það, sem í frv. felst, að bæta þarna við tveimur nýjum dýralæknum. Enn fremur getur mjög komið til mála, hvort það eigi ekki að bæta við þriðja dýralæknisumdæminu, sem er efst í Árnessýslu. Það er einn dýralæknir í allri Árnessýslunni núna. Það er í Árnessýslunni núna upp undir fimmti partur af öllum kúm landsins. Féð er ekki komið langt upp enn, en ef það verður líkt að fjártölu og það var, þá verður þar líka upp undir níundi hluti af öllu sauðfé í landinu. Þar að auki er þessi sýsla komin inn á það stig í búfjárrækt að leggja rækt við sínar skepnur og vilja láta þeim líða vel og vitja dýralæknis, svo að það er mjög til athugunar, hvort ekki ætti að bæta við þriðja dýralæknisumdæminu og skipta Árnessýslu í tvennt. Þetta fer til n., sem ég er í, og það skal verða athugað nánar þar, hvort það er ekki réttmætt. Það eru uppi um það nokkrar óskir, en það má deila um það dálítið, hvort það er bein þörf á því eða ekki. En það skal ég lofa að verði tekið fyrir nánar og rætt í nefndinni.

Það kann einhverjum að þykja að ófyrirsynju að vera að bæta við dýralæknisembættum, meðan fjögur embætti standa auð og óveitt á landinu og tvö eru skipuð útlendum mönnum, sem hafa ekki ríkisborgararétt;, annað veitt og í hitt settur maður. Það má segja, að ekki sé þörf á þessu þess vegna, það sé engin von um, að það fáist menn í þetta strax. Það er satt. En þá er á hitt þó að líta, að nú eru átta menn í dýralæknisnámi. Sá fyrsti þeirra á að koma í vor, og næsta vor ættu með eðlilegum hætti að koma einir þrír, og svo áfram. Þessir menn, sem nú eru í dýralæknisnáminu, telja sjálfir, — það er mér kunnugt um, a.m.k. sumir þeirra, — að það sé mjög vafasamt, hvort þeir eigi nokkuð að hugsa um dýralæknisstöður hér uppi á Íslandi, Alþ. hafi skipt landinu þannig; í umdæmi, að það sé ekki viðhlítandi. Þeir telja, að dýralæknarnir þurfi að vera miklu fleiri en lögin gera ráð fyrir, þessir menn, sem við nám eru, og það er þess vegna líka að nokkru leyti komið á móti þeirri skoðun þeirra, að fjölga hér dýralæknunum um þetta. Hins vegar hefur þetta ekki nein útgjöld í för með sér, fyrr en eftir því sem menn smám saman fást í embættin, því að það ákvæði l., sem nú er, að meðan ekki fáist menn í embættin, þá skuli dýralæknar aðliggjandi héraða þjóna þeim án sérstaks endurgjalds, er óhreyft í l., svo að útgjaldaaukning við þetta er engin í bili, en verður náttúrlega smám saman, þegar komið er í öll embættin, einhver, og það mætti segja mér, að áður en kæmi að því, væri búið að fjölga þeim enn þá meira, því að það er um dýralæknana eins og um mannalæknana: Einu sinni var einn landlæknir á Íslandi og enginn annar, líka einu sinni einn dýralæknir, en svo hefur þeim verið smáfjölgað. Þeim á eftir að fjölga mikið, og ég held, að þeirri fjölgun, sem hér er farið fram á, sé stillt mjög í hóf.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta, en það er sjálfsagt að vísa málinu til landbn. og 2. umr.