21.03.1955
Neðri deild: 62. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. 6. þm. Reykv. (GMM), að þessi stofnun verður að vera annað og meira en dvalarheimili í líkingu við fangelsi. Það hefur heldur engum manni dottið í hug, að svo yrði, og þeir, sem kynna sér þau lög um vernd barna og unglinga, sem þetta frv. er flutt sem brtt. við, geta gengið úr skugga um, að það er annar andi, sem svifur þar yfir vötnunum. Að sjálfsögðu mun n. taka til athugunar milli umræðna þá ábendingu, hvort taka á fram, að um sé að ræða vistheimili og skóla. Ég er ekki viss um, að þess sé þörf, og held raunar ekki. Ég vil benda á, að við vistheimllið að Breiðuvík fyrir afvegaleidda drengi er starfandi einn kennari eins og er, með þó ekki fleiri en 10 piltum mest, og gert er ráð fyrir að bæta öðrum við, eftir því sem ég veit bezt, ef drengjunum fjölgar upp í 15. Þetta bendir til þess, að þeir, sem hafa þessi mál með höndum, hafi fullan skilning á því að sjálfsögðu, að starfrækslan sé meir í formi skóla en fangelsis. Ég tek undir það hjá hv. 6. þm. Reykv., að það veltur auðvitað ákaflega mikið á, að forstaða heimilisins sé góð. Það er ekki nóg að eignast hús og aðrar aðstæður til þess að reka svona heimili. Mestu máli skiptir, að til þess veljist fær maður til forstöðu og gott fólk til starfa við heimilið. Ég geri hins vegar ráð fyrir, að ekki eigi við að fella slík ákvæði inn í frv., heldur verður í því efni að ráðast, hvernig til tekst, þegar til starfrækslunnar kemur.